Mögnuð sýning

Því miður gleymdi ég myndavélinni minni í dag hjá Kristínu systur og get ekki lýst með orðum upplifunum mínum í dag.  Hún Ragnheiður Sigurðardóttir eða Ragna eins og við köllum hana hefur fylgt fjölskyldu minni frá því löngu áður en ég fæddist.  Hún er mikil vinkona foreldra minna frá Kolstöðum í Hvítarsíðu sem er sveitin hans pabba.   Hún hefur sýnt okkur öllum og afkomendum okkar mikinn artarskap, vináttu og tryggð.  Ragna er orðin 85 ára gömul og ég veit ekki til að hún hafi vakið opinbera athygli.  Í dag hélt Margrét systir mín sýningu á handverkum hennar og leigði til þess leikfimisal uppi á Hvanneyri á Borgarfjarðarhátíðinni.   Mér fannst systir mín stórtæk að venju og enginn vissi hversu mikil handavinna var til eftir Rögnu, en af löngum kynnum við hana hlaut það að vera nokkuð, því ég man ekki eftir henni handavinnulausri, alla mína æfi.  Ég veit þó að hún heldur bókhald yfir vöggusettin og þau eru ef ég man rétt um 250.  Handbragðið er þvílíkt að bendlaböndin eru handfölduð.  Þó hún hafi lengst af unnið tvöfalda vinnu, á hún hvorki mann eða börn eða sjónvarp til þess að dreifa athyglinni eða taka tíma frá hannyrðunum.  Margrét lét orðið ganga til vina, ættingja og sveitunga, þó Ragna hafi flutt úr sveitinni fyrir meira en hálfri öld.  

Ég lét að sjálfsögðu á sýninguna það sem ég hef varðveitt af gjöfunum hennar.  Ég á meðal annars forláta sexhyrndan hnall með krosssaumsútfylltu loki.  Rögnu þótti ég ekki hafa farið vel með hnallinn sem ég fékk í fermingargjöf fyrir 39 árum, svo hún tók hann af mér  fyrir nokkrum árum og afhenti hann aftur með nýju áklæði og nýju útsaumuðu loki. Ég lét líka á sýninguna fallegan klukkustreng og útsaumaða mynd, ásamt vöggusetti. Ragna bróderaði í vöggusett handa öllum afkomendunum mínum fimm og heklaði utanmeð.   Því miður er ég búin að týna eitthvað af hekluðum dúkum frá henni, úsaumuðu puntuhandklæði og mörgu fleiru fallegu sem hún hefur gefið mér í gegnum árin. 

Ég veit um marga muni sem Ragna hefur gert og voru ekki á sýningunni. Bara í mínu nánasta umhverfi veit ég að Rósa mágkona á hnall og Sóley systir líka og ég veit að þeir eru orðnir allnokkrir hnallarnar sem hún er búin að sauma upp á nýtt.  Á sýningunni í dag taldi ég 50 hnalla, tvær útsaumaðar og fylltar rennibrautir, útfyllt og saumað borðstofusett, útsaumaða stofustóla, fleiri tugi klukkustrengja og annað eins af dúkum ásamt ótal öðrum hlutum.  Guði sé lof fyrir rimlana, það voru allir veggir þaktir.  Það var gaman að fylgjast með fólkinu sem mætti á sýninguna, hvernig það missti hökuna niður á maga yfir  ósköpunum.  Ókunnugar konur heyrðust spyrja hvort það væri Samband borgfirskra kvenna sem væri að sýna? Aðrar spurðu hvaða eiginlega hópur kvenna það væri sem ætti alla þessa handavinnu.  Það var enginn hópur, það var bara hún Ragna okkar. 

 Sýningin er opin í dag sunnudag frá kl. 13-17, mæli með bíltúr í Borgarfjörðinn og í gamla leikfimihúsið á staðnum. Gísli Einarsson tók viðtal við hana sem  vonandi verður sýnt í sjónvarpsfréttum í kvöld, sunnudag eða næstu daga.  


Eldklár stelpa

IMG_2385IMG_2494IMG_1180

Ömmur mega monta sig eins og þær vilja af barnabörnum sínum.  Hjartagullið mitt hringdi til mín áðan, var að fá einkunnirnar sínar og fékk A í öllu. Mamma hennar segir að hún hafi fengið frábærar umsagnir líka í öllum fögum og frá öllum kennurum.  Á eftir að ylja mér við að skoða þær.

Það má ýmislegt segja um einkunnir og stimpla á fólki, en þegar stimplarnir stemma við mitt mat og tilfinningu, finnast mér þeir sanngjarnir og góðir.  Annsan er einmitt núna stödd í dótabúð með Þóru að kaupa verðlaunadót.


Ábendingar vel þegnar

IMG_2570IMG_2571Svona  er staðan á Álfhóli núna. Bigginn í bænum og bræðurnir að skipuleggja Evrópureisu með frúnum sínum.  Við ætlum að fara niður Rínardalinn, í gegnum Alpana, niður á Ítalíu og meðfram Miðjarðarhafsströndinni og eitthvað fleira og stoppa í nokkra daga þar sem okkur líður vel.  Allar ábendingar um  skemmtilega staði, góðar bílaleigur, persónulegar heimagistingar á óvenjulegum stöðum, spennandi matargerð, óvenjulega siglingu og góða naglasnyrtingu eru vel þegnar. 

Undirbúningsnefndin


Heillað barn

IMG_2557IMG_2558IMG_2553IMG_2559

Svona er kvöldstemmningin á Hólnum akkúrat núna. Á meðan mamman er í Portúgal hefur Katlan verið mæðruð af móðursystrum sínum, afa og loksins ömmu sinni.  Á morgun kemur alvöru mamman sem er líklega frekar spennt að sjá hana. En það hefur ekki væst um hana og í kvöld höfum við lesið um hann Helga sem fer að skoða heiminn. Uppáhalds blaðsíðan hennar og  líka Önnu á sínum tíma er þegar hann fer að heiman og við vinkum eins og við lifandi getum og segjum "Bless Helgi minn". Komin með ofnæmi fyrir þeirri síðu. 


Lýsingarorðakreppa

IMG_2534IMG_2550IMG_2549IMG_2538IMG_2532

Stígamót eru almennt ekki viðfangsefni fjölmiðilsins Álfhóls.  En ég má til með að nefna að ég var að koma úr hringferð um landið undir kjörorðunum "Stígamót á staðinn".  Við héldum níu opna kynningarfundi og móttökurnar, hugrekkið, stemmningin, landslagið, fólkið og verkefnið gekk betur en mig hefði órað fyrir.   Er í lýsingarorðakreppu af ánægju.


Sófakynslóðin vann!

Og ég sem ætlaði bara að skrifa um Afríkuplöntuna mína í dag!  Krissan mín var að hringja frá  Patreksfirði.  Þau Garðar skruppu á rauða drekanum á kvikmyndahátíð með Sófakynslóðina. Haldiði ekki bara að myndin hafi unnið! Kom mér svosem ekki á óvart, en mikið er ég rífandi stolt af tengdasyninum!

IMG_2320

Að hvíla hugann

IMG_2530Fór í tvær útskriftarveislur um helgina hjá Jóni frænda mínum Bergþórssyni  yngri og hjá Öddu Kristínu dóttur Ástu vinkonu.  Efnilegt ungt fólk sem getur héðan í frá gert það sem því listir.

 Á morgun legg ég upp í 1600 km. fundaferð um landið ásamt kröftugu Stígamótafólki.  Við erum búin að vanda okkur  eins og við getum við undirbúninginn og allt að verða  klárt.  Hlakka mikið til, en þetta verður jafnframt vinnutörn og ég hef því hvílt mig um helgina.  Einbeiti mér að því einfalda og ánægjulega. 

Setti inn mynd af plöntu sem Rósa mágkona gaf mér fyrir tveimur árum. Hún keypti fræ í Suður-Afríku af blómi sem hún segir að sé það fallegasta sem hún hefur séð.   Það ku blómstra djúpbláum og gulum stórum blómum. Í sumar hefur það tekið verulegan vaxtakipp og ég fylgist spennt með.  Krossa  putta og læt mig dreyma um blómgun. 

 


Ferðasumar

IMG_1610IMG_1605IMG_1612IMG_1609

Það er að bresta á  með sumri, ferðalögum og upplifunum.  Fátt finnst mér skemmtilegra.  Verð að fara að koma mér í almennilegt gönguform. Hef ekki gefið mér tíma.............. óafsakanlegt, finn það þegar ég skrifa þetta.   Best að koma mér í leikfimi. Núna! Farin...............


Tómas Schalk Sóleyjarson

IMG_2515IMG_2516

Þreyttur og fallegur ömmudrengur.


Myndbrot úr hversdagslífinu

IMG_2522IMG_2513IMG_2525´

Hér eru myndir af gjöf sem okkur Tomma var gefin í gær, merk rannsókn um staðalmyndir kvenna í bankakerfinu eftir Kristínu Tómasóttur BA í sálfræði og kynjafræði,  lítill drengur í arsenalbol með handgert demantahálsmen sem hann gerði sjálfur og í gúmmískónum sem Katrín Anna gaf ömmu hans á 50 ára afmælinu.  Að lokum er svo mynd af Sóleyju og Kötlu sem sáu um eldamennsku á Hólnum í gærkvöldi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband