Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Samkvæmisljónin á Álfhóli

IMG_2382IMG_2380IMG_2376IMG_2384IMG_2387

Samkvæmislíf okkar Álfhólshjónanna er misfjörugt, en þessa dagana er brjálað að gera hjá okkur.  Tommi á 25 ára íþróttakennaraafmæli og í tilefni af því fórum við austur í sveitir með ansi öflugum hópi íþróttakennara sem nær allir eru að gera eitthvað annað en að kenna íþróttir. Samkvæmið hófst um hádegi í gær á Forsæti og gist var á hótel Rangá í nótt. Skemmtidagskráin var samfelld í 12 tíma, með ratleik, miklum matarveislum, glaumi og gleði. 

Í dag á húsbóndinn á Álfhóli 55 ára afmæli og börnin okkar, tengdabörn og barnabörn færðu sjálfum sér þess vegna fíneríis kaffivél að gjöf sem staðsett verður á Hóli.  Vélin er arftaki Ufesunnar sem var einhver mesta græja sem komið hafði á heimilið, en var hent fyrir nokkrum árum vegna notkunarleysis. 

Á morgun verður árshátíð vinnunnar minnar staðsett á heimilinu og stendur mikið til.  Ég fór og keypti nýjan dúk í tilefni af því, líklegast fimmtugasta dúkinn minn, ég elska dúka. 


Betra myndband af stóru stundinni


Stór stund

Alltaf er þetta sama undrið. Bæði í þróunarsögunni og í lífi hverrar manneskju.  Lítil stúlka sleppti sér í fyrsta skipti í kvöld og stóð alveg sjálf langa langi.  Þar sem amma hennar er stöðugt með myndavél á henni, náðist þetta á myndband.  Ég vil ekki heyra orð meira um að hætta að mynda!

Mun biðja yfirmann tæknideildarinnar á Hóli, elskulegan tengdason minn Garðar um að reyna að setja inn allt myndbandið.


Livet er ikke det værste jeg vet!

IMG_2344IMG_2348IMG_2337IMG_2353IMG_2345IMG_2354

Ég er svo margt.  Í þessum fjölmiðli kemur fram miðaldra ættmóðir sem nýtur einkalífsins síns í botn og kastar tilviljanakenndum sýnishornum af því út á netið.  Þessa stundina hef ég ekki alvarlegri áhyggjur en þær hvaða dúk ég eigi að nota á mánudaginn þegar ég hýsi árshátíð Stígamóta heima hjá mér.  Ætti ég að nota stóra hördúkinn sem ég keypti fyrir nokkrum árum, en ég á einmitt tauservéttur með honum, eða ætti ég að kaupa nýjan sem ég er búin að sjá? 

Í vinnunni í dag var ég urrandi feministi sem tók á móti einum bekk úr menntaskóla, útvarpsmanni og sænskri sendinefnd með meiru.  Náði svo góðu sambandi við Svíana að þær ræddu um að bjóða mér til Gotlands.  En hvorn dúkinn ætti ég annars að nota?

 


Kötludagur

Alveg agalegt þetta með myndavélina mína, líklega rétt hjá  Hrossinu. Gleymdi henni hjá Begga og Rósu um helgina. 

Finnst að ég myndi taka alveg ótrúlegar myndir af litlu skotti sem nú sefur í ömmurúmi.  Mánudagar eru frídagarnir mínir og þeim ver ég með minnsta afkomandanum mínum.  Mér finnst það mesti lúxus í lífi mínu að leyfa mér það.  Föstudagarnir voru áður svona sparidagar með fyrst Önnu og svo Tomma.

Nú er það Katlan.  Hún er á þvílíkum þroskaspretti.....Langt síðan við Þóra töldum tuttugu orð, hættar að nenna að telja.  Það gerist eitthvað nýtt á hverjum degi.  Í dag uppgötvaði hún vökvunarkönnuna mína og er búin að margbaða sig upp úr henni sér til mikillar ánægju.  Að auki fæ ég stundum úrvals heimsóknir á þessum  degi.   Í hádeginu kom Margrét systir og sat með mér og dáðist að Kötlunni í langa stund...... mal, mal, mal.......


Hver hefur tekið myndavélina mína, stelpur?

Ég er búin að snúa við húsinu í leit af myndavélinni minni. Nú er mig farið að gruna að Hrossið sem var hér í gærkvöldi hafi látið hana hverfa.  Gæti alveg trúað henni til þess!  Dætur mínar  létu bæði slöngudressið mitt og frumskógadraktina hverfa fyrir nokkrum árum síðan.  Það er opinbert hvað þær  eru lítið hrifnar af myndatökum móður sinnar. Og ég sem var með slíkar úrvalsmyndir sem fara áttu í þennan fjölmiðil.

Myndir t.d. frá göngutúr sem við Tommi og Beggi bróðir fórum í með Kötluna og Týru. Nú og frá skemmtilegri heimsókn í gærkvöldi. Stjáni og Siggi frændur Tomma frá Siglufirði kíktu við og minn maður malar alltaf þegar hann er tengdur við Sigó á einhvern hátt.  Dætur mínar, hvar er  myndavélin?

Móðir ykkar


Gleðilegt sumar!

4321 

Síðasta vetrardag var mér boðið á dásamlega menningarsamkomu í Melaskóla.  Anna dótturdóttir mín lék Gullbrá og amman var klökk af hrifningu og stolti.  Svo var kynning á fuglaverkefnum nemenda í 2. b og Hjartagullið mitt var með glærusýningu um branduglu.  Því miður hafði ég ekki myndavél, svo mamma hennar verður að myndskreyta þessa frétt fyrir mig. 

Ég stefni að því að taka tveggja mánaða sumarfrí. Hef ekki tekið samfellt 6 viknafrí í mörg ár, en núna er ég að mana mig upp í að taka mér góða hvíld frá skemmtilegu starfi.  Í sumar ætlum við hjónin að fara á Suðurfirði Vestfjarða með gönguhópnum lipra. Við stefnum á hálfsmánaðarútlandafrí saman, helst flug og bíl, svo við getum vaðið yfir Evrópu eins og dagsformið býður hverju sinni.  Þar að auki ætlar Tommi að vera í golfi og ég ætla að taka frá viku í stelpnafrí með Nöfnu minni Narfadóttur....... það eina sem er ákveðið með það, er að það verður skemmtilegt.  Svo ætlum við að gera ýmislegt fleira sem sagt verður frá síðar, en fyrst................förum við í leikfimi


Og heimilisdagbókin heldur áfram

IMG_2324_editedIMG_2325IMG_2330

Í dag dreif ég inn í leikfimisal í fyrsta skipti í fjóra mánuði!  Fyrir mér er líkamsrækt svo fjarri þeim lífsstíl sem ég hef ástundað að ég þarf stöðugt að semja við sjálfa mig og standa í sálarátökum til þess að hreyfa mig.  Merkilegt!

En það bætist við bíll á dag í Álfhólsflotann.  Þóra endurnýjaði Hvíta drekann okkur til mikillar ánægju. Svo kom Steinunn okkar góða vinkona, mágkona, svilkona, systir og borðaði með okkur matinn sem við Katla elduðum saman. Notalegt.


Þau lipru í gönguferð

IMG_2322

Fórum í gönguferð með vinunum okkar góðu úr líffræðinni og að venju klikkuðum við ekki á matarveislunni eftir göngutúrinn.  Í þetta skipti var það Guðrún Narfa sem eldaði handa okkur dýrindis mat.  Alltaf jafn endurnærandi og ljúfar stundir sem við eigum í þessum hópi.


Hæ, hó, hopp og hí og hamagangur á Hóli!

IMG_2285IMG_2290IMG_2313IMG_2320

Það var ekkert mjög leiðinlegt á Hólnum í gær eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það má ekki á milli sjá, hvort okkar systkinanna er montnara af ungviðinu í fjölskyldum okkar.  Krissan mín og Garðar eru búin að kaupa lítinn rauðan bíl sem ég man ekki hvað heitir.  En fátt fólk þekki ég sem gleðst innilegar en hún dóttir mín og mér sýnist tengdasonur okkar deila þessum eiginleika með henni.  Þóra bjó til heimasíðu fyrir Týru, kann því miður ekki að tengja á hana, dætur mínar munu vonandi gera það fyrir mig.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband