Mögnuð sýning

Því miður gleymdi ég myndavélinni minni í dag hjá Kristínu systur og get ekki lýst með orðum upplifunum mínum í dag.  Hún Ragnheiður Sigurðardóttir eða Ragna eins og við köllum hana hefur fylgt fjölskyldu minni frá því löngu áður en ég fæddist.  Hún er mikil vinkona foreldra minna frá Kolstöðum í Hvítarsíðu sem er sveitin hans pabba.   Hún hefur sýnt okkur öllum og afkomendum okkar mikinn artarskap, vináttu og tryggð.  Ragna er orðin 85 ára gömul og ég veit ekki til að hún hafi vakið opinbera athygli.  Í dag hélt Margrét systir mín sýningu á handverkum hennar og leigði til þess leikfimisal uppi á Hvanneyri á Borgarfjarðarhátíðinni.   Mér fannst systir mín stórtæk að venju og enginn vissi hversu mikil handavinna var til eftir Rögnu, en af löngum kynnum við hana hlaut það að vera nokkuð, því ég man ekki eftir henni handavinnulausri, alla mína æfi.  Ég veit þó að hún heldur bókhald yfir vöggusettin og þau eru ef ég man rétt um 250.  Handbragðið er þvílíkt að bendlaböndin eru handfölduð.  Þó hún hafi lengst af unnið tvöfalda vinnu, á hún hvorki mann eða börn eða sjónvarp til þess að dreifa athyglinni eða taka tíma frá hannyrðunum.  Margrét lét orðið ganga til vina, ættingja og sveitunga, þó Ragna hafi flutt úr sveitinni fyrir meira en hálfri öld.  

Ég lét að sjálfsögðu á sýninguna það sem ég hef varðveitt af gjöfunum hennar.  Ég á meðal annars forláta sexhyrndan hnall með krosssaumsútfylltu loki.  Rögnu þótti ég ekki hafa farið vel með hnallinn sem ég fékk í fermingargjöf fyrir 39 árum, svo hún tók hann af mér  fyrir nokkrum árum og afhenti hann aftur með nýju áklæði og nýju útsaumuðu loki. Ég lét líka á sýninguna fallegan klukkustreng og útsaumaða mynd, ásamt vöggusetti. Ragna bróderaði í vöggusett handa öllum afkomendunum mínum fimm og heklaði utanmeð.   Því miður er ég búin að týna eitthvað af hekluðum dúkum frá henni, úsaumuðu puntuhandklæði og mörgu fleiru fallegu sem hún hefur gefið mér í gegnum árin. 

Ég veit um marga muni sem Ragna hefur gert og voru ekki á sýningunni. Bara í mínu nánasta umhverfi veit ég að Rósa mágkona á hnall og Sóley systir líka og ég veit að þeir eru orðnir allnokkrir hnallarnar sem hún er búin að sauma upp á nýtt.  Á sýningunni í dag taldi ég 50 hnalla, tvær útsaumaðar og fylltar rennibrautir, útfyllt og saumað borðstofusett, útsaumaða stofustóla, fleiri tugi klukkustrengja og annað eins af dúkum ásamt ótal öðrum hlutum.  Guði sé lof fyrir rimlana, það voru allir veggir þaktir.  Það var gaman að fylgjast með fólkinu sem mætti á sýninguna, hvernig það missti hökuna niður á maga yfir  ósköpunum.  Ókunnugar konur heyrðust spyrja hvort það væri Samband borgfirskra kvenna sem væri að sýna? Aðrar spurðu hvaða eiginlega hópur kvenna það væri sem ætti alla þessa handavinnu.  Það var enginn hópur, það var bara hún Ragna okkar. 

 Sýningin er opin í dag sunnudag frá kl. 13-17, mæli með bíltúr í Borgarfjörðinn og í gamla leikfimihúsið á staðnum. Gísli Einarsson tók viðtal við hana sem  vonandi verður sýnt í sjónvarpsfréttum í kvöld, sunnudag eða næstu daga.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þvílíkt krútt sem hún var í kvöldfréttunum

meiriháttar flott

kv .Dia

dia (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 22:30

2 identicon

Ekki skil ég af hverju ég er ekki ráðin sem opinber ritskoðari þessarar heimasíðu! Frásögnin af sýningunni hljómar eins og ég hafi verið ein í sýningarnefndinni en við vorum hvorki meira né minna en fimm kerlingar; Jóhanna Þorvaldsdóttir á Háafelli, Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum, Guðrún Harpa Bjarnadóttir og Anna Björk Bjarnadóttir. Við unnum svo vel saman að við fundum ekki fyrir því eina einustu sekúndu að setja upp sýninguna. Knús. Systir þín, Margrét

Margrét Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband