Augnakonfektið mitt!

IMG_0874Þessi unga kona hefur verið að aðstoða mig í vinnunni í dag.  Hún hefur  aðallega verið að lesa, passa dúkkuna sína, kubba, syngja og leika við Hlunk og Birtu.  Svo ákvað hún að leggja sig og ná almennilega úr sér skarlatsóttinni.  Amman hefur  verið að skrifa.

Notalegt í snjóbylnum hjá okkur. Líklega  hitum við okkur  kakó þegar hún vaknar og hver veit nema að við sláum í pönnukökur?

 

 


Gamall heimalningur rataði heim á Hól

IMG_0845IMG_0835IMG_0832Siljan okkar Birgisdóttir og Steinunnar er þremur dögum eldri en Krissan mín.  Hún hefur verið nokkuð samferða dætrum mínum í gegnum  lífið og búið með Kristínu og Þóru bæði hér og á ýmsum öðrum stöðum.  Oft deildu þær allar einu rúmi.  Eftir að stelpurnar fluttu að heiman höfum við séð minna af henni.  Í gær kíkti hún við í kaffi og rjómabollur með stelpurnar sínar þær Maríu Mist og Emmu.  Stolt af henni að vera búin að eignast svona fínar stelpur og klára sig vel í lífinu.  Samt ekki búin að týna  sjálfri sér.  Sagt er  að  hún  sé heldur verr upp alin  en systkini hennar og ég eigna mér  heiðurinn af  því. Silja er bráðfyndin og skemmtileg, ljúf og yndisleg.


Örferð til Jórdaníu

IMG_0825IMG_0829IMG_0805 Skrapp til Jórdaníu um síðustu helgi.  Ætlaði að eyða í það syndsamlega litlum tíma; einum degi í að skoða borgina og heimsækja vinkonu mína og svo ætluðum við að vinna í einn dag.  Það fór hins vegar  þannig að ég lenti í snjóstormi á Íslandinu góða, missti af flugvél í London og eyddi þremur lööööööööööngum dögum á flugvöllum og einum vinnudegi í Amman í þoku og rigningu.  Ég hefði alveg eins getað verið í fundarsal á Íslandi.  Skrifaði um ferðina á www.stigamot.is  þar sem hún var  vinnutengd.  Mér fannst alveg svakalega með tímann farið á flugvöllunum og í flugvélunum.  Ég sá ekkert annað en leiðina frá flugvellinum og á hótelið, á veitingastað og heim  til Rachelar í rigningu og þoku og hef ekki hugmynd um hvernig miðbærinn lítur út.  Ég ætla hins vegar  aftur og ætla að taka  tíma í að njóta.  Hér koma myndirnar úr ferðinni, sú fyrsta  úr eldhúsinu hennar  Rachelar og hinar gætu verið teknar hvar sem er.                                      


Enn eitt verkefnið með Rachel vinkonu minni!

IMG_0534IMG_0543Stígó 049Það er athygli vert að stundum þegar ég hef hitt fólk sem hefur átt eftir  að  hafa  mikil áhrif á líf mitt, þá greypist í minni mitt þegar  ég sá það fyrst.  Þannig man ég mjög vel eftir því þegar  ég sá Tomma í fyrsta skipti, ég man meira  að segja líka  hvernig hann var klæddur!  Það sama á við um Rachel vinkonu mína.  Við hittumst fyrst í Bergen 1993  þar sem við vorum  báðar  að halda  innlegg á landsþingi norsku kvennaathvarfahreyfingarinnar.  Ég man hvernig hún  var  klædd og hvað hún  sagði. Hringdi svo til hennar til þess að fara  yfir hugmyndafræðina og við ákváðum að hittast á kaffihúsi í Sandvika og síðan höfum við verið vinkonur. 

Hún er með klárustu, víðsýnustu og best lesnu konum sem ég þekki.  Hún er snillingur í að byggja brýr á milli menningarheima  og á milli kvenna og hópa. Hún hefur kennt mér  meira en nokkur  önnur  um hvað það  þýðir að vera  svört á  Vesturlöndum og hvernig hægt er að yfirvinna menningarárekstra.  Í mörg ár mundi ég þó ekki eftir því að hún væri svört fyrr en hún fór með mér út í Nóatún hverfisverslunina mína að versla.  Þá tók ég eftir því að það snéru sér allir við í búðinni þar sem við vorum.  Með fáum hef ég skemmt mér  betur, hlegið meira og rökrætt lengur. 

Við höfum unnið saman æði mörg verkefni og verið samferða í skoðunum og í alþjóðastarfi.  Við höfum hittst í Kína, í Eystrasaltsríkjunum, í Brighton, í Bandaríkjunum, á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu.  Við komum á laggirnar fyrsta kvennaathvarfinu í Eystrasaltsríkjunum, unnum í ENATW og CATW, NKMV og Rachel stýrði Daphneverkefni sem ég hélt utanum á Íslandi.  Ég hef oft haldið fyrirlestra á uppákomum sem hún hefur stýrt og öfugt.  Við erum báðar búnar að gegna nokkrum störfum síðan við hittumst, en alltaf höfum við fundið samstarfsflöt. 

Saman höfum við lent í rosalegum ævintýrum.  Hún var t.d. með mér þegar  ég lenti í slysinu í kolniðamyrkri í Druskininkai og kom mér  á  spítala.  Hún var  með mér  þegar  ég missti glugga með körmum og öllu saman niður af annarri hæð í  nýuppgerðu húsi í London.  Þá hugleiddi hún að stinga af.  Hún var með mér í Svíþjóð þegar ég tók vitlausa kápu í misgripum og það átti að siga á mig lögreglu og hún var  til staðar  þegar ég óvart slengdi úr  fullum kaffibolla yfir formann norska kvenréttindafélagsins í New York sem varð fjúkandi reið. 

Núna er Rachel að stýra  verkefni fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar í Noregi.  Verkefnið felst í því að styrkja  og styðja kvennahreyfinguna í Suður  Írak með sérstakri áherslu á baráttuna gegn ofbeldi.  Þangað er ekki óhætt að fara  svo Rachel er staðsett í Amman í  Jórdaníu og hittir konurnar  sínar  í Kuwait.  Í kringum sig hefur  hún  alþjóðlegt teymi fimm sérfræðinga um ofbeldi, þar á meðal mig.  Í nótt er ég að fara til Amman á brainstorming fund vegna verkefnisins.  Elska brainstormingfundi með kláru fólki.  Á meðfylgjandi myndum er Rachel hjá Sþ í New York, í vínsmökkun með einhverri vinkonu sinni og að lokum með íslenskum strák.


Sendið mér innblástur!

Ég þyrfti að vera að semja þrjú gáfuleg erindi í dag en er fullkomlega andlaus.  Merkilegt hvað það er  miserfitt að setja saman texta.  Næ ekki  sambandi við kraftinn minn. Það væri freistandi að skella skuldinni á  lungnabólguna sem hefur  hrjáð mig þennan mánuð, en ég veit að það væri bara afsökun.  Kona semur ekki texta með  lungunum, heldur hausnum. 

Held ég leysi nokkrar sudoku.......


Nýlegar svipmyndir úr lífi mínu

Hér má sjá karlinn minn, Önnu og Tomma undir Búlandstindi á Snæfellsnesi, frk  Önnu í stuði, stemmninguna á leiknum í gær og gönguferð með hinum lipru í morgun.IMG_0723IMG_0718IMG_0771IMG_0787

Áfram Ísland!


Eins árs stúlka í mömmuleik


Fjórar kynslóðir saman í Stykkishólmi

Ég var að fá nýja tölvu.  Fína, næstum hægt að stinga henni í vasann.  En er ekki búin að setja  inn á hana allt sem ég þarfnast.  Vantar enn að geta sett inn myndir.  Við Tommi vorum að passa Hjartagullið mitt og Tommsann minn frá  því á fimmtudag, foreldrarnir í foreldraorlofi í London.  Ákváðum að gera úr því ævintýri og fórum í fallaga bústaðinn sem Starfsmannafélag Kópavogs á í Stykkishólmi og buðum mömmu og pabba með.  Þarf enn að taka til í andlitinu á mér þegar dætur mínar sækjast eftir félagsskap okkar. Krissan mín kom á eftir okkur því Garðar var upptekinn.  Þóra  og Katla ætluðu að koma líka en drifu ekki úr bænum.  Við fórum í góðan bíltúr til Grundarfjarðar í fallegu veðri og sáum ungan og fallegan örn.

Tommi og Kristín sóttu krækling í matarkistu Breiðafjarðar sem við elduðum við mismikla hrifningu.  Tommsinn gat kjaftað úr "transformans" fyrirbæri.  Það eru "karlar" sem geta breytt sér í ýmislegt. Þessi gat breytt sér í þotu.  Elskulega barnabarnið mitt lenti í siðfræðilegri togstreitu, hann er svo politically correct uppalinn.  Snéri sér að Kristínu, rétti henni fyrirbærið og spurði hvort henni þætti hann nokkuð ofbeldislegur?  Henni þótti það og mér líka, en hann sagði að mikill brjóstkassi á  fyrirbærinu væri til þess að hann ætti auðveldara með að knúsa.  Drengurinn er að taka þroskakipp og er að springa úr  orku.  Á leiðinni í sveitina sporðrenndi hann pulsu í brauði á methraða, borðaði alla súpuna sem afi hans hafði keypt, kjúklingabita og franskar, 1/2 sneið af pizzu og bað þá um brauðsneið með smjöri sem hvarf ofan í hann.  Á meðan hann  tuggði hafði hann mikinn áhuga á hvað yrði í eftirrétt og auðvitað fékk hann eftirrétt. 

Annsan er líka að taka þroskakipp.  Hún gerði það sem hún hefur ekki gert áður, hún svaf uppí hjá langömmu sinni og langafa og  var ánægð með að treysta  sér til þess.  Saman horfðum við á  mús fyrir utan gluggann og mér fannst hún .......svona eiginlega allt í lagi........spennandi.  Ég æpti ekki og gat skoðað hana í rólegheitum.  Hvert okkar hefur eiginlega tekið mesta þroskakippinn, börnin eða amma  þeirra, ég bara spyr.


Sumt verður ekki keypt fyrir peninga....

IMG_0705IMG_0703IMG_0700Svona var sunnudagsmorgun á Hólnum.  Bestu krakkarnir á  besta stað á heimilinu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband