19.10.2008 | 16:17
Beðið eftir Freyju
Það eru að verða tímamót í fjölskyldunni. Freyja litla hvolpastelpan næst lengst til hægri mun fara til Kristínar dóttur minnar á föstudag eftir tæpa viku. Spenningurinn er ótrúlegur og ég verð að játa að ég er ekki ósnortin. Freyja mun eiga lögheimili á Álfhóli, en Kristín mun eiga hana og annast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2008 | 16:55
Í kreppunni leitar fólk í það gamla, þekkta og þar með trygga
Í sumar máluðum við = Tommi heimilið okkar. Í leiðinni langaði okkur að láta smíða fyrir okkur draumahillurnar og jafnvel að kaupa okkur fallegt listaverk í stofuna, nokkuð sem við höfum aldrei gert. Það dróst að við fengjum tillögur að hillum frá arkitektinum sem ætlaði að hjálpa okkur, fundum ekki rétta listaverkið og veggirnir í stofunni voru hillu - og myndalausir í tvo mánuði. Í gær tókum við okkur til án umhugsunar eða fyrirvara og skelltum upp gömlu góðu hillunum sem við höfum átt í tuttugu og átta ár. Skyndilega vorum við líka búin að setja upp myndirnar sem við höfðum á veggjunum okkar í Noregi þegar við höfðum lítil auraráð. Allt í einu fannst okkur heimilið eiga að vera nákvæmlega þannig. Myndirnar af Bigga og Begga bræðrum okkar Tomma eru úr stofunni áður en við fórum yfir í námsáralúkkið sem er okkur svo kært.
Mataræði fjölskyldunnar gjörbreyttist líka án þess að við áttuðum okkur á því. Við sem síðasta áratug höfum lagt upp úr því að elda úr fersku og góðu hráefni vorum allt í einu farin að borða eins og á kreppuárunum uppúr 1982. Við erum búin að borða heimasoðna lifrapylsu tvisvar, bjúgu einu sinni, blandað saltkjöt einu sinni og ofan í skúffu á ég tvær dósir af ORA fiskibollum. Höfum af stakri skynsemi og ráðdeild keypt inn mat til allrar vikunnar í Bónus og lítum ekki í áttina að Nóatúni. Hummmmmmmmmmm merkilegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.10.2008 | 12:03
Grautarfundir á Stígó í hádeginu þessa viku og þær næstu
Best að blanda saman einkalífi og vinnu í dag. Á Stígamótum ætlum við að leggja til hliðar hefðbundin viðtöl frá kl. 12-14 virka daga og bjóða upp á grjónagraut og spjall. Við viljum hlúa að samstöðunni og samverunni og leitast við að finna leiðir í stöðunni. Byggjum bætt samfélag á rústum hins gamla.
Verið öll velkomin á Stígamót.
Guðrún
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2008 | 14:58
Góðu gildin.......
Það er alveg makalaust hvað ég er búin að fá marga pepppósta í dag. Verra þó hvað ég hef þegar heyrt mikið um alvarleg áhrif kreppunnar á öryggi og afkomu fólks. Held að þjóðin sé að komast út úr sjokkfasa kreppunnar og komast yfir í viðbragðafasann. Hræðsla, reiði, öryggisleysi, baráttuvilji, histerísk kátína o.s.frv.
Sóley systir og Pétur sonur hennar og slatti af norskum vinum hennar eru um það bil að lenda og við systkinin hlökkum til að fagna fimmtugsafmælinu hennar með henni á Íslandinu góða. Sé fyrir mér histeríska kreppukæti........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2008 | 22:33
Fátt er svo með öllu illt að ekki boðið nokkuð gott
Dagurinn í dag mun verða greiptur í minni okkar allra það sem eftir er. Eitthvað óljóst og óþekkt liggur í loftinu og spennan er næstum áþreifanleg. Ég geri mér enn enga grein fyrir hverjar afleiðingarnar verða og enn síður hver okkar munu fara verst út úr ástandinu. Veit bara að dagurinn markar breyttan veruleika fyrir þjóðina. En í dag fann ég líka sterka samkennd minna nánustu, samstarfskvenna minna og meira að segja þverpólitíska samkennd stjórnmálafólks - sjaldgæft en notalegt.
Heyrði í þeim sem standa mér næst og í fyrsta skipti í mörg ár sauð ég lifrapylsu með rófum. Fann svella í mér eldmóð að takast á við hið óþekkta. Hér duttu inn ýmsir ættingjar til þess að fara yfir stöðuna og við romsuðum upp úr okkur ótal aðgerðum sem við gætum ráðist í til þess að létta birðarnar. Ein ætlar að fara að brugga, önnur að sauma eigin föt, einn ætlar að fá sér hænur og e.t.v. belju, ein sat og prjónaði afmælisgjöf og rætt var um að setja upp verksmiðjueldhús til þess að framleiða hagkvæman mat.
Held að við höfum gott af að forgangsraða og draga úr neyslu í smátíma, er bara hrædd um að veruleikinn geti orðið sársaukafullur og slítandi fyrir marga og að ástandið geti varað lengur en við höfum áhuga á. Takist okkur að halda heilsu og samstöðu efast ég ekki um að við munum komast í gegnum kreppuna upprétt og sterk
Bloggar | Breytt 7.10.2008 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2008 | 17:35
Svei mér þá ef ég fer ekki að prófa mig áfram á blogginu aftur...
Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég hætti að blogga á sínum tíma. Áttaði mig á því að það sem var hvað persónulegast og skipti mig mestu máli, átti ekki heima í þessum sýndarheimi. Langaði alls ekki að deila því með hverjum sem væri. Og þá hefði verið falskt að skrifa um daginn og veginn eins og ekkert hefði í skorist.
Síðan ég skrifaði seinast hefur margt og mikið gerst í mínu lífi og annarra Álfhólsbúa. Nenni ekki að fara að tíunda það. Þess ber þó að geta að við höfum það öll alveg ljómandi gott miðað við rosalegar sviptingar í fjármálaheiminum.
Það nýjasta sem sameinar okkur öll í mikilli eftirvæntingu er þessi yndislega hvolpastelpa sem Krissan mín er að fara að eignast eftir tæpan mánuð. Er vægast sagt spennt og hef ekki hugmynd um hvort ég muni verða svo lánsöm að fara að elska hana og tengjast henni. Er alltaf hrædd um að ég hafi ekki pláss fyrir fleiri að láta mér þykja vænt um. Við sjáum til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.5.2008 | 16:09
Bloggfrí
Ágætu Álfhólsvinir.
Netið féll niður heima hjá mér fyrir þremur vikum og ég uppgötvaði að mér fannst það ljómandi gott. Ætla að hvíla mig á tölvu og neti heima hjá mér um stund, andlaus og áhugalaus í bili, en kem e.t.v tvíefld til baka.
Óska lesendum þessa fámiðils alls góðs.
Guðrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.4.2008 | 10:25
Ný vídd í tilveruna
Veit ekki hver materialismi minn endar. Virðist vera að færa mig rosalega upp á skaftið, því nú er ég búin að fá óperur og dásamlega klassíska tónlist inn á fína símann minn, sem ég er enn að læra á. Hjólaði á nýja fína hjólinu mínu í vinnuna í morgun með dúndrandi óperur í eyrunum, hvílíkur unaður. Í vinnunni sagði nýi fíni tölvukarlinn okkar mér að ég gæti líka skoðað kvikmyndir í græjunni í flugi og svona. Það verður næsta atriði....... finnst þetta bara skemmtilegt, er að velta fyrir mér hvað ég eigi að kaupa mér næst?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.4.2008 | 15:53
Íþróttafólk
Hvílík vorstemmning. Hjóluðum til Begga og Rósu í morgun í morgunkaffi og hittum þar Sóleyju, Tomma og Önnu sem höfðu hjólað vestan úr bæ. Fórum svo öll hjólandi vestur í bæ, við Tommi, Rósa og Beggi, Anna og Tommsinn. Góður dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2008 | 10:41
Stóra ab-mjólkurmálið
Dagatalið segir að það sé komið sumar. Dálítið fyndið en á Íslandi fögnum við því og gleðjumst. Í gærkvöldi að kvöldi sumardagsins ákváðum við að njóta þess að eiga loksins frídag saman og ég eldaði dýrindis indverskan kjúklingarétt. Lagði fallega á borð fyrir fimm og Margrét systir, Snorri og Krissan mín skyldu njóta matarins með okkur Tomma. Margrét kom með eðalrauðvín og ég bjó til salat og steikti pomadam brauð. Allt var klárt - bara lokatötsið eftir. Ég slökkti undir matnum, opnaði ab-mjólk og hellti hálfum lítra yfir matinn, bætti við hnetum, hrærði varlega og klippti kóreander yfir.
Fannst lyktin ansi skrýtin...... í stað þess að njóta kryddlyktarinnar fann ég bara angandi jarðaberjalykt. Fannst þetta óskiljanlegt og smakkaði; maturinn sem í fóru tveir heilir hvítlaukar, sex chili, hálfur staukur af karrýi, heilt búnt af kóreander og ýmsu öðru góðgæti var eins og jarðaberjasúpa. Þetta stóðst ekki og ég kíkti á umbúðirnar á ab- mjólkinni. Það var hefðbundin ab-mjólkurferna það fór ekki á milli mála. Rak puttann í mjólkina og sleikti. Í ab-mjólkurfernunni var jarðaberjajógúrt.
Þá kemur að neytendamáli. Hver er ábyrgð Mjólkurbús Flóamanna? Skulda þau mér 1 lítra af ab-mjólk eða eldaða máltíð fyrir fimm? Mér finnst svarið augljóst..................
Síðar sama dag: Mjólkurbú Flóamanna kann neytendamál og bætti skaðann að sjálfsögðu..........nú skulda ég Snolla mínum annað matarboð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)