24.1.2008 | 13:34
Enn eitt verkefnið með Rachel vinkonu minni!
Það er athygli vert að stundum þegar ég hef hitt fólk sem hefur átt eftir að hafa mikil áhrif á líf mitt, þá greypist í minni mitt þegar ég sá það fyrst. Þannig man ég mjög vel eftir því þegar ég sá Tomma í fyrsta skipti, ég man meira að segja líka hvernig hann var klæddur! Það sama á við um Rachel vinkonu mína. Við hittumst fyrst í Bergen 1993 þar sem við vorum báðar að halda innlegg á landsþingi norsku kvennaathvarfahreyfingarinnar. Ég man hvernig hún var klædd og hvað hún sagði. Hringdi svo til hennar til þess að fara yfir hugmyndafræðina og við ákváðum að hittast á kaffihúsi í Sandvika og síðan höfum við verið vinkonur.
Hún er með klárustu, víðsýnustu og best lesnu konum sem ég þekki. Hún er snillingur í að byggja brýr á milli menningarheima og á milli kvenna og hópa. Hún hefur kennt mér meira en nokkur önnur um hvað það þýðir að vera svört á Vesturlöndum og hvernig hægt er að yfirvinna menningarárekstra. Í mörg ár mundi ég þó ekki eftir því að hún væri svört fyrr en hún fór með mér út í Nóatún hverfisverslunina mína að versla. Þá tók ég eftir því að það snéru sér allir við í búðinni þar sem við vorum. Með fáum hef ég skemmt mér betur, hlegið meira og rökrætt lengur.
Við höfum unnið saman æði mörg verkefni og verið samferða í skoðunum og í alþjóðastarfi. Við höfum hittst í Kína, í Eystrasaltsríkjunum, í Brighton, í Bandaríkjunum, á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Við komum á laggirnar fyrsta kvennaathvarfinu í Eystrasaltsríkjunum, unnum í ENATW og CATW, NKMV og Rachel stýrði Daphneverkefni sem ég hélt utanum á Íslandi. Ég hef oft haldið fyrirlestra á uppákomum sem hún hefur stýrt og öfugt. Við erum báðar búnar að gegna nokkrum störfum síðan við hittumst, en alltaf höfum við fundið samstarfsflöt.
Saman höfum við lent í rosalegum ævintýrum. Hún var t.d. með mér þegar ég lenti í slysinu í kolniðamyrkri í Druskininkai og kom mér á spítala. Hún var með mér þegar ég missti glugga með körmum og öllu saman niður af annarri hæð í nýuppgerðu húsi í London. Þá hugleiddi hún að stinga af. Hún var með mér í Svíþjóð þegar ég tók vitlausa kápu í misgripum og það átti að siga á mig lögreglu og hún var til staðar þegar ég óvart slengdi úr fullum kaffibolla yfir formann norska kvenréttindafélagsins í New York sem varð fjúkandi reið.
Núna er Rachel að stýra verkefni fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar í Noregi. Verkefnið felst í því að styrkja og styðja kvennahreyfinguna í Suður Írak með sérstakri áherslu á baráttuna gegn ofbeldi. Þangað er ekki óhætt að fara svo Rachel er staðsett í Amman í Jórdaníu og hittir konurnar sínar í Kuwait. Í kringum sig hefur hún alþjóðlegt teymi fimm sérfræðinga um ofbeldi, þar á meðal mig. Í nótt er ég að fara til Amman á brainstorming fund vegna verkefnisins. Elska brainstormingfundi með kláru fólki. Á meðfylgjandi myndum er Rachel hjá Sþ í New York, í vínsmökkun með einhverri vinkonu sinni og að lokum með íslenskum strák.
Athugasemdir
En þess á milli, sem þú ert að hitta fólk sem skiptir þig máli, þá mannstu fátt um far og útlit þess?? Þetta styður kenningar Baddeley og Hitch sem hröktu kenningar Atkinsson og Shifferin um að skammtímaminnið væri hlið sem upplýsingar þyrfti að fara í gegnum til þess að komast í langtíma minnið. Baddeley og Hitch hröktu þessa vittleysu eftir að hafa rannsakað fólk með skemmdir á parietal lobe heilans sem höfðu alvarleg áhrif á skammtíma minni þeirra. Þessir sjúklingar gátu samt lagt nýja atburði á minnið. Ætli þú sért að afsanna þessa gildu kenningu 30 árum eftir að hún var lögð fram? Gæti það verið....
Ég er að fara í próf í hugfræði á morgun. Góða ferð til Amman og til hamingju með ljósbera titilinn- hann fer þér vel.
Kossar Hryssan sem skrifar frá bókhlöðunni
Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 15:00
Elskulegi sálfræðingurinn minn. Skil ekki orð af því sem þú varst að skrifa. Er þetta ein af öllum þeim greiningum sem þú varst búin að setja á mig, eða er þetta ný? Takk fyrir góðar kveðjur og vertu dugleg að lesa. Heyri í þér í kvöld. Ástarkveðjur. mamma þín
Álfhóll, 24.1.2008 kl. 15:20
Til hamingju með ljósberann.
Skemmtileg lesning um Rachel og þig. Góða ferð til Amman.
Edda Agnarsdóttir, 24.1.2008 kl. 18:01
Til hamingju með ljósberatitilinn!
Dóri var ekki alveg með það á hreinu hvað þessi titill þýddi þegar ég sagði honum að þú hefðir hlotið hann.
Hann hélt helst að þeir sem væru ljósberar væru þeir sem hlypu með eldinn á Ólympíuleikunum... ég taldi hæpið að þú hefðir verið kosin í slíkt
!
Kristín Björk (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 18:42
Skulum samt ekki gleyma afreksíþróttaferlinum Kristín Björk. Hindrunarhlaupinu og svona. Er viss um að mamma yrði fínn Ólympíuljósberi. Verður örugglega kosin í það fljótlega. Spurning um að vera öllu viðbúin bara og hafa Fishergallann tiltækan...
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 08:26
góða ferð mín kæra og farið varlega þið vinkonurnar,
Pant koma með til Kína ef þú ætlar að hlaupa með Ólympíueldinn- þarftu ekki einhvern til að hjálpa þér í Fishergallann?
kv Día
Día (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.