Misheppnað uppeldi

Fannst ég endurupplifa 20 til 30 ára gömul augnablik hér í stofunni minni í vikunni.  Það er búið að skrá Hjartagullið mitt á fótboltaæfingar hjá KR!   Þegar ég kom að utan var hún búin að fara á eina æfingu og dætur mínar þrjár virðast búnar að gleyma eigin æsku eða hafa um hana afskræmt minni. 

Það var mígandi rigning, mamman að vinna og Kristín sem gefur henni ekkert eftir í skoðunum hafði fengið það hlutverk að skutla Önnsunni á fótboltaæfingu. Barnið stundi því upp að hana  langaði ekki.  Ég leit út og fannst málið þar með útrætt, barnið færi á ekki á skemmtiæfingu sem hana langaði ekki á!  Þá upphóf Kristín dóttir föður síns raust sína og hvatti hana óskaplega.  Leit á mig þýðingamiklu augnaráði sem ég vissi að þýddi að ég ætti að styðja hana, en ég  steinþagði og starði bara á móti, sem hún veit að þýðir  að mér detti í hug að styðja þessa vitleysu.  Þetta endaði með að Annsan fór að gráta og Kristín lofaði að kaupa handa henni verðlaun að lokinni æfingu.  Annsan harkaði af sér í von um eitthvað  sem myndi gleðja hana og fór.

Á leiðinni út með snökktandi barnið tókst Kristínu að hvæsa að mér með samanbitnum tönnum að alveg væri þetta týpískt fyrir mig! Ég hefði aldrei pínt þær almennilega til þess að halda út að æfa nokkrar íþróttir og bæri því ábyrgð á ásigkomulagi þeirra!  Ég held að hún hafi meint þetta.

Tveimur tímum síðar fór fólk að tínast heim á Hólinn. Afinn hringdi, sagðist verða seinn því hann væri að kaupa verðlaun handa Önnsunni.   Svo kom Þóra mjög áhugasöm og spurði hvernig hefði gengið á fótboltaæfingunni.  Ég sagði frá hjartanu "Örugglega verið ömurleg, enda barnið að uppfylla ykkar þarfir fyrir að  komast út úr staðlmyndamunstrinu, en ekki að  ástunda eitthvert áhugamál sem hún gæti haft ánægju af. Hafðiði spurt hana hvað hana langar til???" Fékk álíka svör og frá Kristínu.

Stuttu síðar komu Annsan og Kristín heim og önnur þeirra ljómaði - Kristín náttlega.  Hún horfði á okkur hin og hvíslaði svo Anna heyrði ekki að barnið hefði bara verið í ömurlegum æfingafötum  svo hún keypti á hana KR sokka! Svarta sportsokka upp að hnjám!  Þetta voru verðlaunin fyrir að halda út æfinguna og svo tróðu þær Sóley barninu í sokkana.  Í því kom afinn með forljótan fótbolta alsæll á  svipinn og færði barninu.  Það hellirigndi ennþá, en afinn var svo áhugasamur að hann skeytti ekkert um vinnufötin sín.   Hann reif í annan handlegginn á  barninu og fór með hana út í garð að æfa hana í "innanfótarsparki" hver fjandinn sem það er nú.  

Sömu umræður og sömu aðstæður fór hann í gegnum með allar stelpurnar okkar.  Keypti á þær fótboltagalla og fótbolta sjálfum sér til mikillar gleði og reyndi að fá þær til að æfa án árangurs.  Þær sýndu engan áhuga og enga hæfileika og þar með var málið dautt.  IMG_3054Þau ykkar sem sjá ósvikna hamingju á þessu barnsandliti sem mér  er  svo kært, látið vita!

Sjálf sagði Hjartagullið mitt mér frá því sem henni fannst vera ævintýri sumarsins.  Það var reiðnámskeið sem Margrét systir bauð henni á. Þetta var annað árið sem barnið fór á slíkt námskeið og fékk sama hest í bæði skipti sem heitir Dúra.  Nema hvað að í lok frásagnarinnar brast barnið í  grát og sagði að hún hefði þurft að kveðja Dúru fyrir fullt og allt, þar sem merin væri á leið í Sláturhús! Takk fyrir. Í fyrsta lagi hver sagði barninu þetta? Það var alveg óþarfi. Í öðru lagi komu athugasemdir frá bæði Kristínu og Sóleyju þegar Anna fór að  gráta.  "Anna mín ekki fara að gráta einu sinni enn yfir þessu".  "Þetta er í tíunda skiptið sem hún viknar yfiressu"  sögðu þær við mig, þreytulega.

Hvað  mistókst í uppeldi dætra minna?   Þær gráta enn yfir hamstri sem dó úr  sýkingu í endaþarmi og yfir ketti sem var fárveikur og svæfður fyrir tuttugu árum og yfir hundi sem fótbrotnaði.  Þær hafa engan skilning eða þolinmæði gagnvart sorg yfir hesti sem Anna hefur þekkt í tvö ár!  Mér datt helst í hug að fara og bjarga hrossinu.  Fá það gefins og fóðra  það í vetur og gefa Önnsunni tækifæri til þess að ástunda áhugamál sem hún hefur áhuga á.  Við nefndum þennan möguleika við aðra fjölskyldumeðlimi, en fengum sem svar að Anna ætti að  skilja að auðvitað væri best að drepa hrossið sem væri orðið 19 ára.

IMG_3052Þegar Annsan var að skæla yfir fáknum kom hún í fangið á ömmu sinni sem knúsaði hana að sjálfsögðu.  Þá kom skyndilega annað barn hlaupandi og kastaði sér líka í fang ömmu sinnar til þess að árétta að hún ætti sama aðgang að því. Þetta barn verður vonandi aldrei þvingað á fótboltaæfingar  sem það langar ekki á og gefið að launum búningur til þess að halda áfram að ástunda eitthvað sem hún vill ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er mesta bull sem ég hef nokkru sinni séð þig skrifa! Ég hef ekki séð barnið jafn ánægt í langan tíma og eftir fyrstu fótbolta æfinguna sína og viðbrögð okkar eru að sjálfsögðu að hvetja hana áfram í því sem hún hyggst taka sér fyrir hendur. Það er nefninlega gaman að verða góður, en það krefst þjálfunar. Ég

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 14:30

2 identicon

veit heldur ekki betur en að ég hafi sjálf fellt tár þegar Anna sagði mér frá hestinum og voga mér ekki að gera lítið úr ofvirkum tárakirtlum hennar. 

Kristín von Tómasd 

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 14:31

3 identicon

Sæl Ofuramma,

komdu strax með ömmustelpurnar þínar (þessum sem enn er við bjargandi af stelpuskaranum þínum) á Hólabrautina og við skulum halda alvöru stelpuveislu með hesti og öllu því sem þeim langar til -

ég meina það troða hjartagulli í KR búning og láta hana hlaupa úti í grenjandi rigningu á eftir tuðru !!!!! halló

þú átt minn stuðning að venju Guðrún mín

Hef kynnt mér málið og barnsrán er alls ekki ólöglegt í þessu tilviki

kv. stelpurnar á Hólabrautinni

día (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 15:44

4 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Merkilegt. Sést í hnotskurn hversu flókið mannlífið er. Svo er maður alla ævina að vinna úr þessu öllu! Ég er til í stelpufund á Hólabrautinni hvenær sem er - á margar reynslusögur af dýrum og tárum og baráttu fyrir sjálfræði.

Halldóra Halldórsdóttir, 11.8.2007 kl. 16:40

5 Smámynd: Garún

Ég æfði spjótkast í þrjú ár, vegna þess að mamma vildi það.  Það var ekki fyrr en ég hótaði að kasta spjótinu í hana sem hún hætti að þrýsta á mig og leyfði mér að æfa fótbolta.  Held reyndar að mamma hafi verið secretly in love með Írisi Grönfeldt spjótkastara íslands

Garún, 11.8.2007 kl. 18:04

6 identicon

BWHAHAHAHAHA Anna ætti bara að vera sátt við fótboltann. Mig hefur nefninlega alltaf langað til þess að læra spjótkast...

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 20:01

7 Smámynd: Garún

Spjótkast er af hinu illa..........................Dont go over to the darkside Kristín. 

Garún, 11.8.2007 kl. 20:33

8 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Ég var látin æfa dans af því mamma vildi það - með engum sýnilegum árangri. Þar er komin skýring a mörgu...

Halldóra Halldórsdóttir, 11.8.2007 kl. 20:56

9 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Ég fékk aldrei að æfa nokkurn skapaðan hlut fyrr en ég var 14.  Mér til yndisauka í staðinn klifraði ég í skipum sem voru í slipp, stökk á milli bátanna í smábátahöfninni, fór í klifurkeppnir upp stillansa í hverfinu og renndi mér í slori þangað til ég drukknaði næstum í úrgangspytti við eitt frystihúsið.  Ég saknaði fótboltans ekki neitt

Thelma Ásdísardóttir, 11.8.2007 kl. 21:33

10 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Ps.  Garún, ertu Star Wars fan?

Thelma Ásdísardóttir, 11.8.2007 kl. 21:33

11 identicon

Ég man þegar þú rakst mig út til að skrá mig í Skólahljómsveit Kópavogs án þess að ég hefði á því minnsta áhuga. Veit ekki við hverju þú bjóst, en gleymi ekki svipnum þegar ég kom heim með básúnuna. -Né heldur ómældri ánægju fjölskyldumeðlima og annarra íbúa blokkarinnar af æfingum mínum á bakröddum við hin ýmsu dægurlög og marsa.

Er annars svo stolt af litlu fótboltastelpunni minni sem er búin að vera úti í garði síðan á fimmtudag með forljóta fótboltann sem afi hennar gaf henni að æfa innanfótarspörk. Kæmi mér ekki á óvart þótt amman þyrfti að kyngja stoltinu einn góðan veðurdag og mæta á völlinn að fylgjast með Hjartagullinu spila landsleiki...

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 21:52

12 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Þegar ég var ekki í danstímum eða píanótímum ( ég átti að verða lítil dama) þá var ég á bak við byggjó með krökkunum í götunni að byggja kofa. Hlóðum upp tveggja hæða húsi úr stillansaspítum. Fórum í leiðangra í Öskjuhlíðina sem var bara urð og grjót - ekki tré að sjá neinstaðar eða kanínur. Klifruðum upp á gömlu tankana, reyndum það alla vega...

Halldóra Halldórsdóttir, 11.8.2007 kl. 21:53

13 identicon

Halldóra Halldórsdóttir nú er nóg komið - þar sem þú heggur ansi nærri mér -

mamman er nefnilega búin að skrá sína í DANS og tveggja ára barnið sagði mér í dag mjög ákveðin að hún ætlaði EKKI að læra dans hjá kennaranum -......er samt að spá í að halda fast við mitt því ekki vil ég að hún fari að stunda áhættuíþróttir eins og í Thelmudæmi og ég meina dans er mun vinalegri íþrótt en Spjótkast !!!

Día

p.s. hvar fást annars þessir forljótu fótboltar, frétti nefnilega í dag að sumir fótboltastrákar hafi 400 miljónir í árslaun .... er það ekki örugglega sömu laun og stelpur fá í boltanum ????

diana (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 02:43

14 Smámynd: Tómas Jónsson

Þetta er stór miskilningur með boltann.   Hann er bæði fallegur og góður. Þetta er Puma bolti rándýr með sérstakri húð sem auðveldar byrjendum að spyrna innanfótarspyrnu.  Annað sem stendur í greininni verður að vera á ábyrgð höfundar og hann verður að taka afleiðingum skrifa sinna. 

Tómas Jónsson, 12.8.2007 kl. 09:51

15 identicon

áfram fótboltastelpur.

mýrarstelpur Marta og Anna verða góðar í framtíðarkvennalandsliðið.

hitti tomma(jr) aðeins í vikunni hann er sami draumurinn og áður.

áfram mýri. áfram ísland .

Anna Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 11:57

16 identicon

HAhahhahaha! Frábær færsla.

Hekla-Stella (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 15:44

17 identicon

Hahahaha já frábær færsla og ég sé Kristínu alveg fyrir mér með þetta dramatíska augnaráð. 

Dagný Rut Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 15:58

18 Smámynd: Álfhóll

Eins og þið vitið er annsan mín ný birjuð í fótbolta og er nú þegar orðin ógeðslega góð. Hjartagullið æfði líka í fyrra og var ekkert að spá í að hætta

Álfhóll, 12.8.2007 kl. 16:52

19 identicon

anna verður sett í fótbolta þar til henni þykir hann skemmtilegur

svona meðvirkni þýðir ekkert mamma, hún verður bara aumingi ef þú færð einhverju ráðið. 

þóra (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 22:55

20 identicon

Finnst nú heldur dapurlegt að heyra að 8 ára barnið sé pínt í fótboltaæfingar bara til þess eins að Tommís eigi einhver möguleika á að veita Biggýs smá keppni á knattspyrnuvellinum. 

Aftur á móti er Fótbolti af hinu góða GUÐRÚN mín og gerir manni bara gott.  Plús það að ég er alveg til í að taka hana Önnu og þjálfa hana pínu því ég veit hún hefur fótboltagengið í sér, bráðefnileg fótboltastjarna þarna á ferð sé það bara á myndin af henni í KR gallanum - svo valdi hún nú líka alveg rétt lið.

Kv

Spilandi þjálfari Biggýs

Snjólaug Biggýs (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 14:43

21 Smámynd: Álfhóll

Snjólan mín.

Satt segirðu, þetta gæti verið undirliggjandi þáttur í þrýstingi Tommýs á barnið!  Spurning hvort við Anna heimsækjum þig ekki til  að kanna hvort þú getir greint á milli hennar eigin áhuga og möguleikum og svo þrýstingi ættingja.

Ef vesalings barnið þarf að komast í fótboltalandslið til þess að halda hylli kvenleggsins í fjölskyldunni mínus minni hylli, þá er það alvarlegt mál.  Veit að við Anna eigum alltaf innhlaup í Biggýs liðið sem er langt komið með að framleiða tvö lið og þar með frelsa okkur frá fótboltaiðkun.  Það fer að verða spurning hvort við Hjartagullið segjum okkur ekki bara úr Tommýs ef fram heldur sem horfir. 

Bestu kv. Gunna

Álfhóll, 13.8.2007 kl. 14:57

22 identicon

Verið þið hjartanlega velkomnar ætíð og ávallt.  Finnst rétt að minna líka á smá myndasýningu af hjartagullinu mínu á www.barnaland.is/barn/25010  þar sem ég á nú eitt slíkt

Vona að þú hafir það sem allra best í vinnunni eftir langt og gott sumarfrí.  Flott mynd sem þú tókst af foreldrum mínum í útlandinu.

kv

Þjálfarinn með meiru

Snjólaug (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 19:55

23 Smámynd: Árni Birgisson

Í guðanabænum Gunna, bjargaðu barninu undan þessa fótboltafári.  Fótbolti er í raun mjög alvarleg veiki sem legst á miðtaugakerfið og veldur skapgerðarbrestum hjá hinum sýkta.  Þessi skapgerðabrestir leiða gjarnan af sér andfélagslega hegðurn og múgæsing.  Máli mínu til stuðnings bendi ég á svonefndar fótboltabullur í Bretlandi, en þar er um að ræða einstaklinga með sjúkdóminn á loka stigi.  Af lýsingum þínum og skrifum dætra þinna bendir frumgreining til þess að þær séu nú þegar sýktar og við því þarf að bregðast.  Bólusetning er málið, en á meðan hún er að ná virkni 1-3 dagar mæli ég með tímabundinni einangrun frá fótboltaleikjum, sjónvarpi og öðrum sýktum einstaklingum.

Ég veit að þessi bólusetning virkar.  Það sést best á okkur börnum Birgis.  Reyndar hefur Snjólaug myndað ónæmi við bóluefninu, en það er mjög sjaldgæft.

Augljóst að Anna er fullfrísk stúlka og alveg laus við þessa veiki.

Með bata kveðju; Dr. Árni frændi. 

Árni Birgisson, 14.8.2007 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband