Færsluflokkur: Bloggar

Bara að rifja upp taktana...........

Er í vinnunni að ganga frá svo ég komist í gott sumarfrí.  Fríið hefst á fimmtudag með þeirri undantekningu að ég ætla að skreppa í vinnuferð til Póllands í næstu viku.   Á Álfhóli erum við búin að njóta vorsins í  tætlur.  Blómin, grænmetið og kryddjurtirnar komnar í garðinn.  Tommi heldur sig á golfvöllum þessa lands og mun kynna sig fyrir mér aftur í haust þegar fer að snjóa.  Ég er búin að vera að labba á fjöll með samstarfskonum mínum og hundunum Freyju, Tinnu og Tjöru og ætla í tvær lengri ferðir í sumar.  Verst að stillingarnar á myndavélinni minni eru eitthvað breyttar, svo ég kem ekki inn myndum. Annars finnst mér svo reglulega skemmtilegt að myndskreyta þessa djúpu pistla mína með fallegum myndum.................

Með sól í hjarta og söng á vörum...............

IMG_2839IMG_2769Ég ætla að deila því með lesendum Álfhólsnetmiðilsins að ég er á leið til  Kanaríeyja  með mömmu minni og Kristínu systur  minni.  Við ætlum  að fara í  viku stelpnaferð og njóta hverrar einustu mínútu.   Við hlökkum allar rosalega til eftir þennan dimma  og snúna vetur. 

Sjálfri finnst mér  helmingurinn af  skemmtuninni að hlakka  til og sérstaklega að hlakka til með ferðafélögum mínum.  Ég hringi til mömmu nokkrum  sinnum á dag og syng fyrir hana sólarlög.  Ég er búin að syngja "Ég fer í fríið" og "á Spáni get ég skemmt mér  fyrir  lítið fé"  reyndar örugglega ekki satt. Var að ljúka við sönginn "Með sól í hjarta" og er að semja  prógrammið fyrir  morgundaginn.   Ég á eftir  að syngja "Ó blessuð vertu sumarsól" "Sól, sól skín á mig" og ýmislegt fleira.  Ég syng fyrir mömmu eins  og lungun leyfa og mér finnst ég syngja  þetta listavel!  Fór meira  að segja  í  ljósatíma áðan  til þess að  undirbúa húðina.  Skelli með myndum sem eru táknrænar fyrir stemninguna  sem ég er með í huga.


Hrikalega stolt af þessari konu!

IMG_0956Sigrún vinkona mín Helgadóttir fékk í gær viðurkenningu Hagþenkis fyrir bestu fræðibók ársins.  Hún skrifaði um Jökulsárgljúfrin sín og gaf okkur öllum aðgang að sinni persónulegu útgáfu af þessu tröllvaxna ævintýralandi.   Hún hefði getað skrifað verðlaunabók um ýmislegt annað þessi fjölhæfa kona.   Hún býr yfir einstakri þekkingu og reynslu í náttúruverndarfræðum. Ég held að hún sé klárasta kona á Íslandi þegar kemur að þjóðbúningagerð og ýmsum öðrum ómetanlegum fróðleik um verklag og næstum týnda menningu okkar. 

Ég er ánægð með Hagþenkisfólk að kunna að meta fræðimennsku hennar.   Á meðfylgjandi mynd er hún upp á Mælifellshnjúk í Skagafirði ásamt Júlla Bigga og Óla.   Hjartanlega til hamingju elsku Sigrún! 


Sumarið nálgast............

IMG_0712IMG_0719IMG_0726Er komin í heilsuátak nr. ca. 1500.  Markmiðið er  að  verða í  nógu góðu formi í  sumar til þess að njóta góðra  gönguferða.  Á dagskrá  er ganga um gamla Kjalveg frá Hveravöllum að Hvítárvatni - með vinunum mínum lipru.  Eftir það  stefni ég á Sveinstind  við Langasjó í fjögurra daga  göngu með Sóleyju systur  minni, manninum mínum og þeim öðrum sem vilja vera með...

Þarf að fara  að klífa  tinda í rólegheitum. Byrja t.d.  á Helgafelli, svo e.t.v. að labba að Glym, svo fer  ég á Akrafjall og það meira  sem ég nenni.  Ákveðin í að fara  a.m.k. tvær Esjuferðir.   Meðfylgjandi myndir eru úr Stakkholtsgjá og ofan af Valahnjúk.   Ágætu vinir  og ættingjar hnippið í mig ef  þið viljið vera með.................mér finnst  ekkert skemmtilegra en góð gönguferð með skemmtilegu fólki ef ég  kem mér  út úr húsi.


Hugleikur

Álfhólsmiðillinn er fjölbreyttur og segir frá ýmsu. Nú verður sagt frá nýjasta hugleiknum mínum.   Ég er stundum í vandræðum með að sofa á nóttunni og hef fitjað upp á ýmsu til þess að svæfa sjálfa mig. Hér hef ég áður sagt frá talnaleiknum sem ég flikkaði upp á með því að bródera í huganum tölustafina, eða búa þá til úr gulli og demöntum eða úr blómabreiðum.  Ég er orðin hundleið á þeim leik, dettur ekkert nýtt í hug, svo nú er ég komin í annan á nóttunni sem mér finnst bráðskemmtilegur.  

Mér finnst vinnan mín dásamleg og vinnustaðurinn undurfallegur en staðsettur í hræðilegu steinsteypuumhverfi. Mér finnst heimili mitt yndislegt og fallegt, en staðsett á Álfhólsveginum sem mér finnst leiðinlegur og ekki fallegur.

Undanfarnar nætur hef ég verið að leika mér að því að flytja þessar stofnanir í skemmtilegt umhverfi.  Ég er búin að fara með Stígamót í alls konar umhverfi og búa til mismunandi garða og trjálundi í kringum húsið.  Það hefur farið upp á Kjöl, upp í sveit og þar hef ég byggt lítil og falleg útihús með nokkrum skepnum og grænmetisgarði. Svo hef ég byggt við húsið ýmislegt sem gæti komið að gagni; almennilegan sal til þess að safna í mörgu fólki, fleiri herbergjum o.s.frv. 

Í nótt flutti ég heimili mitt og skar af efri hæðina sem nágrannarnir búa á.  Ég setti glerþak þannig að ég gæti alltaf fylgst með himninum og veðrinu.  Svo skar ég líka af ýmsa veggi og setti gler í staðinn þannig að ég gæti næstum búið úti.  Staðsetningin kom mér á óvart, mér fannst það einhvern veginn koma best út að staðsetja heimilið nálægt Reykjavík en í stórbrotinni klettafjöru, svo brimið lemdist við klettana og það skvettist á rúðurnar.  Ég var búin að stækka pallinn þannig að hann var á súlum út í sjóinn.  Var að basla við að hanna heitan hver nálægt húsinu, þannig að það væri náttúrleg laug í göngufæri við mig.  ekki komin lengra ennþá, en ég mæli með þessum leik, hann er bráðskemmtilegur, það er hægt að gera hvað sem konu dettur í hug og hann kostar ekki krónu.   


Uppdressuð á góðri stundu

Það er gaman að segja frá því hvað dætur mínar eru í góðu sambandi við frændsystkini sín í föðurætt.  Í hópnum er aldrei nein keppni eða læti.   Hefðin er að ungmennin klæða sig í sitt fínasta púss og setjast að spjalli.  Þessar myndir eru frá síðasta fundi hjá Vímulausri æsku.  Yndislega stúlkan á neðstu myndinni er Silja Ósk Birgisdóttir að hvetja æskuna til þess að feta í fótspor sín og stunda heilbrigt líferni.  Jafnframt má sjá Árna og Elvu sýna unga fólkinu létta sveiflu ef þau einhvern tíma hætta sér á dansgólfið.  prúðbúnardrengirnirsiljaárni og elva

Lítil stúlka fór til læknis í gær

Katlan mín var með  snert af blöðrubólgu í gær og mamma hennar kom að sækja hana á Hólinn og tók hjá henni þvagsýni og sagði henni að þær þyrftu að skreppa til læknisins.  "Þá ætla ég að fara að gráta" sagði litla stelpan mín, sjálfri sér samkvæm. 

Þegar mamma hennar bauð upp að þær myndu bara velja sér góðan lækni, var hún tilbúin að endurskoða ákvörðun sína.  Ég undrast endalaust yfir því hvað ég er ánægð með hana. Held alltaf að hún sé á skemmilegasta aldrinum - að hún hljóti bráðum að fara að versna, en það bara gerist ekki og það sama á við um hina ormana mína.


Hvað er málið? Eruði ekkert forvitin??

Núna þegar  ég er búin að  setja inn mynd af nýjasta  afkomenda mínum, sem  er enn í framleiðslu, finnst mér fréttin vera að verða raunveruleg.  Þegar mér var sagt að  vinnuheiti á barninu væri Guðrún varð ég himinlifandi og mig dreymir  um  að það sé stúlka.  Leyfði mér  í dag að kaupa undurfallegan handbróderaðan kjól með vöfflusaumi handa Nöfnu minni hugsanlegri. 

Verð reyndar í vandræðum með að verða  vonsvikin yfir dreng. Er  með eina drenginn minn hjá mér núna.  Mér finnst hann svo dásamlegur að ég kikna í hnjánum  þegar  ég horfi á hann.  Hann var  búinn að  semja  við foreldra sína um að sofa  í sínu rúmi í 5 nætur og þá  átti hann að  fá að kaupa dót sem hann  dreymdi um.  Í dag er hann búinn að afplána 4 nætur í  sínu rúmi.  Svo þegar  í ljós kom að  hann  ætti að gista á Hóli í nótt, tókst honum  að  herja út dótið í dag.   Í nótt kemur foreldrum hans  ekkert við í hvaða rúmi hann sefur, hann mun því bara  sofa  á  sínum venjulega stað - á milli ömmu og  afa. 


Vinnuheiti: Guðrún

Guðrún

Fljótstungufólk

Það er að togast á í mér hvort ég nenni að blogga og vera með á andlitsbókinni.... Eitt skemmtilegt að gerast þar - það er búið að stofna lokaðan hóp frændsystkina minna frá Fljótstungu í Hvítársíðu þar sem við setjum inn myndir og rifjum upp gamlar minningar úr Fljótstungu. Meðfylgjandi myndir eru teknar í júlí 1965 af ömmu minni Kristínu Pálsdóttur og börnunum hennar sjö, börnum þeirra og mökum.  Sjálf sit ég í grasinu fyrir framan foreldra mína.  júlí 65 á 80 ára afm.ömmuFljótstungusystkini og amma  júlí 1965

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband