23.3.2007 | 11:31
Vinnufriður á föstudegi
Svo ágætar sem bæði fjölskylda mín og samstarfskonur eru, finnast mér dýrmætar þessar stundir þar sem ég fæ - eða tek mér - aljört næði til þess að vinna. Nú erum við Birta mín að skrifa ársskýrsluna sem aldrei þessu vant var seinkað í ár vegna anna. Dásamlegur og rólegur morgun hjá okkur Birtu minni. Hlunkur bróðir hennar er frammi að fá sér smásnarl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2007 | 11:39
Hjartagull sver sig í ættina!
Þessi fallega stúlka var lasin í morgun og fór á læknavaktina. Þar var hún greind með urtekaria ofnæmi. Ekki alveg óþekkt í fjölskyldunni. Þetta sama ofnæmi eru Kristín og Margrét systur mínar með, líklega líka pabbi og Þóra. Dálítið flott að hún skuli vera svona greinilega frá Kóngsbakka, en verra ef hún pikkar upp rusllitninga - sem eru auðvitað fáir í mínu fólki!
Amman ætlar að vera heima með henni í dag, Annsan að horfa á video og amman að skrifa ársskýrslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2007 | 14:22
Lítil stúlka í sjúkrabíl
Katlan okkar er svoddan grjón að hún smýgur alls staðar. Hún var í pössun hjá Kristínu móðursystur sinni í dag og tókst að detta úr stólnum sínum þó hún væri bundin. Hún missti meðvitund og frænkan hennar þurfti að skvetta á hana vatni til þess að hún rankaði við sér. Svo var hún að detta inn og út um stund. Hún fór í sjúkrabíl upp á spítala í skoðun og þar var sagt að allt væri í lagi með hana. Hún sofnaði strax, en ef hún fer að kasta upp á að fara með hana uppeftir. Hræðilegt alveg, en fór betur en það hefði getað gert. Vorkenni Krissunni minni eiginlega enn meira.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2007 | 12:23
Hún á afmæli hún Katla!
Úrvalssenur af barnabörnum frá því um helgina. Hjartagull sá um eftirrétt í gærkvöldi þegar Kristín systir og Kristján voru í mat. Það voru gult, rautt og appelsínugult hlaup sem hún bar fram af mikilli ánægju, skildi smá eftir handa mömmu sinni sem hún hlakkaði mjög mikið til þess að sjá, eftir 8 daga aðskilnað. Tommi sem segist aðallega hlusta á hræðilegar sögur og horfa á voðalegar myndir, velti fyrir sér hvað hefði orðið um þau systkinin ef við hefðum líka farið til útlanda og líka Þóra og Kristín og langamma og langafi? Og líka Margrét og allir aðrir sem hefðu getað passað þau. Hvað þá? Þau systkinin fóru í morgun kl. 9 og svo kom afmælisstúlkan með tíkó og sofnaði i hálsakotinu á ömmu sinni. Hér er flaggað í dag!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2007 | 10:59
Í samband aftur eftir viðrun í New York
Jæja gott fólk. Eftir sambandsleysi í nokkurn tíma vegna týnds lykilorðs er ég komin aftur inn í vafasama netheima. Síðan síðast er ég búin að viðra mig í New York. Fór þangað sem fulltrúi Íslands og Stígamóta á fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hélt tvö erindi, annað um kvennalistana á vegum íslensku sendinefndarinnar og hitt á vegum Coalition Against Trafficking of Women þar sem ég talaði m.a. um slaginn við klámiðnaðinn. Finnst merkileg tilfinning að ganga um Sameinuðu þjóða bygginguna og hlusta á og ræða við fólk sem eins og ég lifir og hrærist í kynjaðri veröld. Til mín kom svo ástkær eiginmaður minn í lokin og svo skemmtilega vildi til að Rachel Paul, mín kæra góða vinkona frá Indlandi/Noregi var í New York vegna Íraksverkefnis. Ferðin var því hin ánægjulegasta. Nú er ég lent heima á Fróni og komin á kaf í skemmtilegt rútuverkefni, meira um það á öðrum vef.
Skelli inn myndum af Kötlunni minni og annarri af henni og mömmu hennar, ömmu og langömmu að dáðst að henni og svo af Hlunkinum mínum. Um helgina verða stóru krakkarnir mínir hjá mér þar sem foreldrar þeirra eru í útlöndum. Sæli þau á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2007 | 21:25
Ánægðar mæðgur
Í dag hóf stóra stelpan mín umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur um alþjóðlega kaupstefnu klámiðnaðarins sem fyrirhuguð er á Íslandi. Borgarstjóri lagði fram tillögu gegn ráðstefnunni sem samþykkt var einróma. Foreldrar Sóleyjar sátu á pöllunum og horfðu á barnið sitt í nýja kjólnum sínum og voru enn einu sinni stolt af henni. Fóru svo heim í hreiðrið sitt þar sem nokkrir af burtflognu ungunum höfðu safnast saman sem oftar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.2.2007 | 21:27
Týra kom á Álfhól í fyrsta skipti
Í dag átti Katlan mín 11 mánaða afmæli. Við hjálpuðumst að við að vinna og æfa dýrahljóð og lesa og syngja svolítið í dag. Svo eldaði afi hennar sinn uppáhaldsmat 5 kíló af saltkjöti og baunum - í nýja frystinn. En svo bauð hann heldur Kristínu og Garðari og Þóru og Begga og Rósu og Týru litlu. Við Beggi erum ekkert sérlega óánægð með yngstu fjölskyldumeðlimina okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2007 | 18:20
Helgi á Álfhóli
Það góða við að þrífa sjaldan er að breytingin verður svo mikil og allt verður svo skínandi hreint og fallegt. Í gær þrifum við og fórum svo í mat til Begga og Rósu. Var að hugsa um að bjóða aldrei neinum heim, til þess að hreinlætið myndi vara sem lengst. Í morgun hringdi Sóley og vildi koma á Álfhól og baka bollur. Þær misheppnuðust alveg eins og þær gera alltaf hjá mér. Aldrei, aldrei, aldrei vatnsdeig aftur á þetta heimili. Fór út og keypti bollur sem minntu á bréf og svo kom bara brot af mínum allra nánustu.........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2007 | 23:35
Þegar íhaldssamir tréhestar lifna......
Þetta var einn af þessum góðu dögum. Var lasin í gær og var búin að tilkynna mig veika í vinnunni í dag. Hlustaði á elstu dóttur mína í morgunútvarpinu ræða um alþjóðlega kaupstefnu klámframleiðenda í Reykjavík. Á fimm mínútum skrifaði ég bréf sem tekið var fyrir í ríkisstjórn, af borgarstjóra, af ríkislögreglustjóra, af lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og í öllum fjölmiðlum. Borgarstjóri stóð sig eins og hetja og sendi frá sér yfirlýsingu. Sendi borgarstjóra blóm með kveðjunni: Stöndum þétt saman, Stígamótakonur.
Tommi dró mig á tónleika með rússlenskum körlum og Diddú. Dásamlegt. í hlénu hitti ég mann sem ég þekki ekki persónulega, en hef oft hugsað til sem eins af íhaldssömu tréhestunum á þingi. Þennan mann hitti ég í vetur sem fulltrúa sinnar nefndar á þinginu. Þetta er maður sem ég vænti einskis af, en hann beitti sér í vetur og bætti hag Stígamóta umtalsvert. Ég gat ekki annað en gengið til hans til þess að þakka honum óvæntan og gleðilegan stuðning. Honum brá. Hann rétti mér vinnulúinn hramm og faðmaði mig að sér. Sagði að við nytum góðs af því að hann hefði aldrei skilið ofbeldi og gæti ekki sætt sig við það. Ég ekki heldur, sagði ég. Ég veit sagði hann.
Bloggar | Breytt 17.2.2007 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2007 | 07:29
Það heyrðist í lítilli tönnslu á Álfhóli í gær.
Ég var búin að taka eftir því að Katla var loksins að byrja að bólgna í neðri góm og um morguninn og í hádeginu hlustaði ég eftir hljóði með því að strjúka skeið um góminn hennar Kötlu minnar. Um miðjan dag, þegar Ásta vinkona var í heimsókn hjá okkur, gerði ég enn eina tilraunina og viti menn? Það heyrðist tannhljóð, það var sprungið fyrir einni lítilli tönnslu í neðri góm. Það var ekki skrýtið þó Kristín mín og Kristín Alma "skábarnabarn" mitt kæmu æðandi á Hólinn og afinn væri að rifna úr monti lokaður inni á fundi. En Katlan var sallaróleg yfir þessu og hélt bara áfram að taka til fyrir afa og ömmu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)