3.11.2008 | 23:03
Gull og demantaleikurinn minn..........
Ég skrifaði um afleggjaraleikinn okkar Tomma fyrir stuttu. En ég á fleiri leiki sem e.t.v. gætu verið skemmtilegir fyrir fleiri um þessar mundir og ég hef aldrei sagt frá. Gull og demantaleikurinn hljómar e.t.v eins og að mig dreymi um veraldleg auðæfi. Svo er samt ekki. En þegar mikið gengur á í lífi mínu - og það er oft - á ég erfitt með svefn. Ég hef reynt ýmislegt til þess að sofna, m.a. að telja hægt og rólega sem mér finnst ótrúlega leiðinlegt. Það dugar þó stundum en til þess að flikka upp á svæfinguna leik ég mér að því að hanna tölustafina.
Stundum bý ég til í huganum útsaumaða tölustafi í ýmsum litum og með ýmsum saumaaðferðum. Stórskemmtilegar og fljótlegar hannyrðir. Þær einu sem ég ástunda. Stafirnir verða hver öðrum fallegri. Stundum bý ég til tölustafi úr mismunandi villtum blómum. Þá er t.d. einn úr sóleyjum á fallegu engi, tveir gætu verið búnir til úr sterkbleikum geldingahnappsbreiðum í svörtum sandi og þrír úr holtasóleyjum í fallegum móa. Ég stjórna því gjörsamlega hvernig blómin raða sér og heillast alveg af fegurðinni.
Í þessum svæfingaleik hef ég komist að því að ég er potensial skartgripasmiður. Ég get hannað svo fallega tölustafi úr gulli, silfri, kopar og hvítagulli að annað eins hefur ekki sést með berum augum. Ég byrjaði þennan leik af mikilli hógværð, en áttaði mig svo á að ég mætti nota allar þær gersemar sem mér detta í hug. Ég nota demanta, perlur og eðalsteina að vild, en er samt hrifnust af hrafntinnu, silfurbergi opal og öðrum steinum sem eru e.t.v. ekki til í alvörunni. Því miður get ég ekki birt myndir af listaverkunum, þær eru í einkasafninu mínu.
Athugasemdir
Guðrún - þú ert algjörlega dásamleg! Gleðigjafi!
Njóttu þín nú með vinkonum þínum og okkar.
Halldóra Halldórsdóttir, 4.11.2008 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.