Dansað við afa


Og ég sem hélt að ég væri sérfræðingur í ofbeldismálum!

Ég var að koma frá  Litháen af ráðstefnu og fundum Evrópsku athvarfahreyfingarinnar.  Á þeim vettvangi fílaði ég mig pottþétta,  reynda og með fyllstu yfirsýn yfir ofbeldisrannsóknir, aðgerðir og úrræði.

Í fyrrakvöld lagðist þessi sjálfsörugga og reynda kona til svefns og vaknaði um miðja nótt við einkennileg hljóð.  Fyrst fannst mér eins og það væru breimandi kettir fyrir  utan og svo fannst mér  hálfpartinn eins og verið væri að pína einhvern.  Hlustaði vandlega eftir því hvort það heyrðust kvenraddir, en það var  ekki og ég ákvað að þetta væru einhverjir fullir kallar að rugla úti á  götu og sofnaði aftur.  Skömmu síðar vaknaði ég við öskureiðar raddir karla sem kölluðust á líklega yfir götuna á máli sem ég skildi ekkert í.  Hávaðinn magnaðist en ég sá ekkert þar sem  ég var á efstu hæð og sá aðeins litháensk húsþök.  Allt í einu hvað við skothvellur. Raddirnar þögnuðu smástund, en svo kom annað skot og loks það þriðja.  Það þagnaði allt.  Mér  fannst þetta ansi óhuggulegt, leit á klukkuna og hún var 04.08 þegar síðasti skothvellurinn heyrðist.  Ég beið í ofvæni eftir  sírenum og látum en ekkert gerðist.  Ég var alveg handviss um að allir á hótelinu hefðu heyrt þetta og öryggisverðirnir hefðu kallað á lögreglu ef einhver  hefði  særst.  Skömmu síðar heyrðist í bíl sem kom æðandi á hvínandi ferð og skransaði eins og í dúndrandi hasarmynd og fór svo aftur  á  fullri ferð.  Þar  sem ég heyrði ekki meira ákvað ég með sjálfri mér að þessir brjálæðingar hefðu verið að ógna hverjir  öðrum og málið væri úr sögunni. Svaf þó ekki meira þessa  nótt.  Þegar  ég kom niður  um morguninn könnuðust vinkonur  mínar ekki við neinn hávaða en sögðust hafa séð sjúkrabíl utan við hótelið snemma  um morguninn.  Önnur sagðist hafa séð blóð úti á  götu.  Þegar ég fór út sá ég þrjá blóðpolla þrátt fyrir  rigninguna úti.  Mér fannst augljóst að einhver hefði a.m.k. verið særður. Hringdi í lögregluna sem staðfesti að það hefði verið skotbardagi fyrir utan hótelið og þeir vissu allt um málið. 

Á flugvellinum á leiðinni heim gat Sashja vinkona mín frá Serbíu ekki tékkað sig inn um leið og ég, svo við fengum okkur kaffi á  kaffiteríunni. Þar tók ég eftir að það sátu einir 18-20 karlar saman við langt borð við hliðina á okkur.  Það var verið að bera í  þá  mat og þeir voru með vín og virtust æði glaðir og yndælir karlar, greinilega frá Rússlandi.   Skömmu síðar er mér  litið í átt til  dyra.  Þar stóð kona sem leit yfir hópinn og það bókstaflega gneistaði af henni.  Hún var svo reið að að ég hef sjaldan séð annað eins.  Hún gekk rakleiðis að hópnum sem ekki hafði orðið hennar var, gekk að einum karlinum og sló hann roknahöggi í andlitið.  Hún lét ekki staðar numið, heldur tók matardiskinn hans sem var kúfaður af mat og þeytti yfir karlinn svo hann  sat lamaður með salat og sósu drjúpandi niður eftir sér.  Það lamaðist allur matsalurinn og mómentið fraus.  Einhver  friðelskandi karl reyndi að ganga á milli og róa konuna, en hún lét ekki segjast og hefði örugglega drepið karlinn sem hún var svona reið við ef hún hefði bara getað það.  Karlinn stóð upp, fór í jakkann sinn og svo gengu þau saman út.  Við Sashja á eftir til þess fylgjast með hvort hann réðist á hana, en svo var ekki.  Þau leiddust bara  í burtu.

Var eiginlega alveg orðlaus eftir  þessa reynslu og finnst ég lítið vita um þennan ljóta heim.  Gott að vera komin heim til mín þar sem allt er bara gott.


Stemman er svona núna á Hóli

IMG_0292Ég er að  fara til Litháen í annað skipti á hálfum mánuði.  Ferðinni er heitið á  ráðstefnu WAVE - evrópsku kvennaathvarfahreyfingarinnar og taka þátt í panelumræðum um empowerment.  Ætla að reyna að fá sem allra mest út úr ferðinni og koma heim með ferska vinda.

Engin færsla fyrr en síðar............


Verðum við þá brún?

20060531204125_6[1]Hann Tommsi minn, þessi  sem tekur bakföll af hlátri er dálítið að velta fyrir sér hlutunum. 

Hann spurði mömmu sína um daginn: "mamma ef við verðum einhvern tíma fátæk, verðum við þá brún?"

Um daginn heyrði ég hann segja við Önnu systur sína; "Anna þegar við erum orðnir englar, eigum við þá að prófa að hoppa á skýjunum?"


Ættarhöfðinginn í bænum.............

IMG_3302Bigginn er í bænum.  Ég held að karlinn sé að eldast. Nú gengur hann um með þéttskrifaðar stundaskrár til þess að reyna  að hafa yfirsýn yfir það sem hann ætlar að gera.  Hann á orðið 13 barnabörn sem hann reynir að sinna þegar hann kemur . Hann hugsar um Bettýju systur sína og Hödda bróður sinn, Hjöddu frænku og heimsækir aragrúa af öðrum vinum og vandamönnum og svo er hann á útskurðarnámskeiði og ég held einhverju fleiru líka....... 

Núna í þessum  töluðum orðum eru þeir bræður í badminton með Hring.......aldrei neitt droll á Bigga.....uppáhaldsgestur á mínum bæ...


Hversdagslíf á Hóli


Góðan daginn!

IMG_0458Annsan mín var að teikna og skrifa og bað mig um að koma með einhver orð svo hún gæti æft sig í stafsetningu.  Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað stelpurófan mín er ótrúlega klár.  Ef einhver man það ekki, þá  minni ég á að hún er nýorðin 8 ára.  Ég sem ætlaði að koma með verulega  erfið orð, en mér tókst ekki að koma henni á gat.  Og má ég benda á skriftina!  Ég gæti ekki skrifað svona vel þó ég reyndi.

 Ömmur mega alveg segja frá afrekum barnabarnanna sinna og eiga að gera það og hana nú!


Eru þau kannski ekki dásamleg?


Á ferð og flugi

IMG_0444IMG_0449Kom heim í gærkvöldi frá Litháen.  Þar var ég á fundi í tengslum við öflugt mansalsverkefni og í framhaldinu á ráðstefnu um sama efni.  Hafði innlegg báða dagana um stöðuna á Landinu bláa.  Stundum gæti ég eins haldið til á Grandhóteli eða Sögu, var sótt á flugvöllinn og vann allan tímann fram að brottför.  Stalst út að borða tvisvar og var með vonda samvisku því dagskráin var svo þétt. Það vill til að þátttakendur í verkefninu eru að hristast vel saman og verkefnið að byrja að skila árangri.  Gott að tilheyra Nordisk/Baltiskri fjölskyldu sem er  að paufast í sömu verkefnum. 

Er að fara í fyrramálið til Portúgal á mansalsráðstefnu hjá Evrópusambandinu og eftir þá ráðstefnu og eftir Litháenferðina og Geysisverkefnið góða verð ég rosalega vel nestuð til þess að selja stjórnendum íslenskra stofnanna  og ráðherrum framkvæmdaáætlun gegn mansali, byggða á nýjustu og bestu þekkingu og yfirsýn!

Verð svo heima í viku áður en ég fer aftur  til Litháen til þess að tala á ráðstefnu Evrópsku kvennaathvarfahreyfingarinnar um empowerment.   Verð svo heima í mánuð áður en ég fer af stað aftur............meira um það síðar. 

En ég verð að segja  að heima er best!!! Búin að eiga góðan dag með Tomma, mömmu og pabba, Begga og Rósu, Sóleyju Aart, Tomma  og Önnu og Þóra  er á leiðinni með litla ungann minn sem ætlar að lúra hjá  ömmu og afa. Tomminn minn frammi í eldhúsi að elda  handa mér góðan mat.......lívet er ikke det verste jeg vet...........


Góð ráð óskast um ferðamáta í Asíu

Á heimasíðu Álfhóls hefur ekkert sérstaklega verið óskað eftir viðbrögðum við skrifum húsmóðurinnar, enda þau ekki til þess fallin að hafa um þau gáfulegar athugasemdir.  Nú ætla ég að prófa hvernig þessi skrýtni miðill virkar og óska eftir ráðum frá lesendum. 

Við hjónin eigum  við lúxus"vandamál" að stríða. Við erum að fara til Nepal í byrjun desember sem er mikið ævintýri í sjálfu sér, en í leiðinni  viljum við skoða fleiri lönd í nágrenninu.  Indland t.d. er ótrúlega spennandi, en svo yfirþyrmandi að okkur fallast hendur við að ákveða hvert við ættum að fara og hvernig við ættum að haga okkur.  Við óskum eftir góðum ráðum um staði og ferðamáta......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband