12.4.2008 | 16:24
Það er þetta með dótamenninguna í fjölskyldunni
Flottasta gjöf sem ég hef á æfinni fengið og verið glöðust með var reiðhjólið sem foreldrar mínir keyptu handa mér á brunaútsölu og gáfu mér í jólagjöf þegar ég var tíu eða ellefu ára. Aldrei hef ég orðið jafn yfir mig hissa og glöð. Slíkar gjafir voru almennt ekki keyptar af mínu fólki. Ég fór út að hjóla á jóladag í glerahálku og var að rifna úr ánægju. Það var bara einn galli á þessu hjóli og hann var sá að það var svo stíft að það var eiginlega ekki hægt að hjóla á því. En það var reiðhjól, fallega grænblátt og ég átti það.
Í dag fórum við fjölskyldan á Ljósvelli að horfa á Tommsann minn sem er búinn að læra að hjóla sjálfur. Hann kann að hjóla, en ekki bremsa eða stoppa svo hann skutlar sér í götuna af hjólinu. Fallegri eða ánægðari hjóladreng hef ég aldrei séð.
Ánægja barnsins var slík að við hin smituðumst og við Tommi og Sóley brugðum okkur í búð og keyptum okkur reiðhjól. Þetta er annað hjólið sem ég eignast á æfinni - valdi það sjálf án þess að kíkja á verðmiða og það er eins og sérhannað fyrir mig. Nú á eftir að setja á það græjur svo ég fæ það ekki fyrr en á þriðjudag. Rosalega hlakka ég til og rosalega er ég ánægð með mig að brjóta dótleysishefðina og kaupa mér dót!
Athugasemdir
o ég var einmitt að hugsa um mitt hjól rétt áðan .... því ég gerði mistök þegar ég keypt það á sínum tíma... og mig langar svo í almennilegt hjól með breiðum dekkjum. Minn er svart með mjóum dekkjum ... og jú það lúkkar vel, humm valdi það frekar eftir því!!!!
til hamingju með hjólið kæra vinkona.....og hamingjuóskir til duglega Tommsans.
kv. úr sólinni í Hafnarfirði
día (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 19:20
Hér er mynd af mínu hjóli. Mömmu er svipað - bara hippalegra.
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 19:23
Gunna, hjól er ekki bara "dót" það er farartæki - svo nú förum við að hjóla úti í vorinu - þegar hættir að snjóa.
Sigrún Helgadóttir (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 09:11
Já Sigrún, verð í sambandi þegar hjólið er komið á Álfhól, en helst þyrftum við nú að fara að klýfa fjallstinda hér á höfuðborgarsvæðinu..........ef við drífum upp.
Álfhóll, 13.4.2008 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.