21.8.2007 | 13:38
Dúra er sprelllifandi!
Ég hef velt því lauslega fyrir mér hvað mér finnist um þá nýju samskiptaaðferð sem felst í blogginu. Finnst það hafa ýmsar hliðar, bæði góðar og slæmar. Á Álfhólssíðuna skrifa ég t.d. ekki um viðkvæm eða mjög persónuleg mál og hún var hugsuð fyrst og síðast fyrir fjölskylduna og okkar nánustu vini og mig langaði að leika mér aðeins í þessum heimi. Ég velti fyrir mér að hafa síðuna lokaða, en fannst líka kitlandi að gá hvaða viðbrögð svona blaður fengi og hverjir myndu bregðast við því.
Ólíklegasta fólk hefur sagt mér að það hafi rekist inn á síðuna. Það eru ekki orðnar til neinar samskiptareglur í þessum netheimi og margir fylgjast með skrifum fólks, án þess að gera vart við sig. Það er boðið upp á það með því að kasta út í bláinn svona skrifum og að sjálfsögðu tek ég ábyrgð á því sem ég "birti". Stundum verð ég forvitin og langar að vita hvaða fólk er það eiginlega sem ég leyfi að fylgjast með völdum þáttum í lífi mínu?
Eftir þessar vangaveltur kem ég mér að efninu. Ég skrifaði færslu fyrir stuttu síðan um misheppnað uppeldi á dætrum mínum og endaði svo á að skrifa um hestinn Dúru sem Anna mín fékk lánaða á reiðnámskeiði í sumar. Hún var svo ánægð með námskeiðið og hestinn en grét þegar hún sagði mér að Dúra væri á leið í sláturhús, svo hún hefði þurft að kveðja hana fyrir fullt og allt eftir námskeiðið.
Nema hvað, haldiði ekki að dyggur lesandi Álfhólssíðunnar hún Inga hafi hringt til mín um helgina. Hún hafði líka verið með dætur sínar á reiðnámskeiði á sama stað og önnur dætra hennar hafði einmitt tekið ástfóstri við Dúru. Hún þekkir eigandann og hringdi til þess að spyrja hana um hestinn. Eigandinn kom af fjöllum og sagði að Dúra væri sprelllifandi og yrði á fóðrum á Húsafelli í vetur. Takk fyrir! Anna hefur því ýmsa möguleika á að heimsækja hrossið hjá ættingjum okkar í sveitinni minni. Getiði bara hvað barnið var glatt þegar ég gat leiðrétt þennan misskilning. Nú blogga ég galvösk, eftir þessa jákvæða reynslu af bloggheimum. Meðfylgjandi er mynd af okkur ömmgum ásamt hrossi sem við fundum í einhverjum haga einhvern tíma.
Athugasemdir
Hæ, já ég viðurkenni það að ég vafra hér inn flesta daga á mínum venjulega bloggrúnti, og hef mikið gaman að. Þekkjumst víst lítið en höfum hist, takk fyrir það Hef ekki áður kvittað fyrir mig en geri það núna og þakka fyrir. Minntist einmitt á það um daginn við Erlend og Guðrúnu Hörpu er þau voru hér á ferð (golf) hjá mér.
Kveðja Alma eitt barnabarnanna hennar Laufeyjar Jak.
Alma (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 21:45
Æi hvað ég er fegin. Var litlan ekki ánægð með ömmu sína?
Garún, 22.8.2007 kl. 22:10
Sæl Guðrún
Fyrir kurteisis sakir læt ég hér vita að ég fylgist með sögum þínum úr hversdagslífinu. Finnst þessi lesning mjög hressandi og gefa jákvæða sýn á lífið og tilveruna. Það er frískandi að sjá sterka fjölskyldu takast á við hversdaginn.
Mér hefur fundist ég vera að njósna en nú veistu allavega af njósnum mínum.
harpa rut hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 22:41
Takk fyrir þessar skemmtilegu játningar. Meira svona.......
Guðrún
Álfhóll, 24.8.2007 kl. 11:21
Blessuð Stígamóta-Rúna Johns-
Kvitta hérmeð, en finnst ég nú enginn njósnari- er bara að tékka á fréttum af stórfjölskyldunni minni, hvað hrossið mitt er að bardúsa á sunnudagskvöldum og svona.
Kveðja
Hekla- Björt
Björt Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 15:32
Velkomin á síðuna okkar Björt okkar. kv. gj
Álfhóll, 24.8.2007 kl. 20:24
Sæl,
Ég er 27 ára gömul tveggja barna móðir sem rakst á síðuna þína og hef verið háð henni síðan. Ég ætla að taka þig til fyrirmyndar í móðurhlutverkinu. Álfhóll er einmitt heimili eins og mig langar að skapa fyrir mín börn :) Takk fyrir skemmtilega lesningu sem gefur manni jákvæða og upplífgandi sýn á lífið :)
Guðrún (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.