Hátíðir

Nýi bílinn og fleira flott 122DjammogKaffibarinn077-vi

 bodB23

 

 

 

 

 




Það er merkilegt hvernig atburðir raðast.  Stundum fer ég ekki í afmæli mánuðum saman.  Í þessari viku er ég búin að fara í tvö 60 ára afmæli og eitt 40 ára.  Í þar næstu viku er ég boðin í 50 og 40 ára afmæli og ég er boðin í fjórar útskriftir.  Missi af tveimur afmælum og þremur útskriftum vegna eigin ferðalaga.   En eina hátíðina ætla ég að hýsa sjálf og hún ætti ekki að verða leiðinleg, það er væntanleg útskrift Kristínar dóttur minnar sem er að ljúka BA í sál og kynjafræði. 

Verð að viðurkenna að  ég er ekki alveg laus við spennutilfinninguna sem ríkti á heimilinu þegar Krissan, Gussan og Kristín Þóra útskrifuðust úr Menntaskóla.  Þær höfðu nýtt námsárin til allt annarra hluta en mennta og ég var farin að halda að þær myndu allar flosna úr námi og aldrei þroskast nógu mikið til þess að taka ábyrgð á sjálfum sér. En viti konur og karlar!  Þær settu undir sig hausinn síðasta árið og tóku a.m.k. tvöfalt nám, sem mér þótti alveg út í hött vegna fyrri afkasta.  Beit í tunguna á mér að halda ekki aftur af þeim og datt ekki í hug að þær héldu þetta  út.  Þegar þær svo fóru að huga að útskrift, var ég með hnút í maganum yfir vonbrigðunum sem þær hlytu að verða fyrir því ég taldi útilokað að þær stæðust próf.  Ég hafði mikla samúð með Gunnhildi námsráðgjafa sem var búin  að vera í fullu starfi við að greiða vonlitla leið þeirra, það var búið að úthýsa þeim úr mörgum áföngum.  Þær skemmtu sér konunglega eins og þær hafa alltaf gert og æfðu oft og nákvæmlega hvernig þær myndu setja  upp  húfurnar.  Þær bjuggu til eftirminnilegt  frumsamið söngatriði um námsárin og saumuðu glimmerbúninga í stíl Bobbysocks  á tveimur tímum og fluttu við mikla lukku á dimmisjon.  Þær náðu allar eftir ólýsanlegan próflestur sem flestir kennarar skólans, námsráðgjafar og stjórfjölskyldur þeirra komu að sólarhringum saman. Þar kom að þær settu upp húfurnar æfðum höndum við hátíðlega athöfn í skólanum sínum og mömmurnar táruðust smá.  Hér var svo haldin ansi lífleg og skemmtileg útskriftarveisla.

Í dag eru tilþrifin mun minni. Kristín Þóra hringdi um daginn og bauð okkur Tomma í útskrifina sína úr  Listaháskólanum.  Mikið þótti mér vænt um það.  Gussan liggur á sæng með Hekluna sína, en gengur ljómandi vel að læra jarðfræði.  Krissan mín mun útskrifast þann 16. júní og það verður ekkert minna en hljómsveit hér í garðinum ef hún fær að ráða.  Þroskaðar og gerðarlegar ungar konur sem eru allir vegir færir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband