Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
20.2.2007 | 21:25
Ánægðar mæðgur
Í dag hóf stóra stelpan mín umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur um alþjóðlega kaupstefnu klámiðnaðarins sem fyrirhuguð er á Íslandi. Borgarstjóri lagði fram tillögu gegn ráðstefnunni sem samþykkt var einróma. Foreldrar Sóleyjar sátu á pöllunum og horfðu á barnið sitt í nýja kjólnum sínum og voru enn einu sinni stolt af henni. Fóru svo heim í hreiðrið sitt þar sem nokkrir af burtflognu ungunum höfðu safnast saman sem oftar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.2.2007 | 21:27
Týra kom á Álfhól í fyrsta skipti
Í dag átti Katlan mín 11 mánaða afmæli. Við hjálpuðumst að við að vinna og æfa dýrahljóð og lesa og syngja svolítið í dag. Svo eldaði afi hennar sinn uppáhaldsmat 5 kíló af saltkjöti og baunum - í nýja frystinn. En svo bauð hann heldur Kristínu og Garðari og Þóru og Begga og Rósu og Týru litlu. Við Beggi erum ekkert sérlega óánægð með yngstu fjölskyldumeðlimina okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2007 | 18:20
Helgi á Álfhóli
Það góða við að þrífa sjaldan er að breytingin verður svo mikil og allt verður svo skínandi hreint og fallegt. Í gær þrifum við og fórum svo í mat til Begga og Rósu. Var að hugsa um að bjóða aldrei neinum heim, til þess að hreinlætið myndi vara sem lengst. Í morgun hringdi Sóley og vildi koma á Álfhól og baka bollur. Þær misheppnuðust alveg eins og þær gera alltaf hjá mér. Aldrei, aldrei, aldrei vatnsdeig aftur á þetta heimili. Fór út og keypti bollur sem minntu á bréf og svo kom bara brot af mínum allra nánustu.........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2007 | 23:35
Þegar íhaldssamir tréhestar lifna......
Þetta var einn af þessum góðu dögum. Var lasin í gær og var búin að tilkynna mig veika í vinnunni í dag. Hlustaði á elstu dóttur mína í morgunútvarpinu ræða um alþjóðlega kaupstefnu klámframleiðenda í Reykjavík. Á fimm mínútum skrifaði ég bréf sem tekið var fyrir í ríkisstjórn, af borgarstjóra, af ríkislögreglustjóra, af lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og í öllum fjölmiðlum. Borgarstjóri stóð sig eins og hetja og sendi frá sér yfirlýsingu. Sendi borgarstjóra blóm með kveðjunni: Stöndum þétt saman, Stígamótakonur.
Tommi dró mig á tónleika með rússlenskum körlum og Diddú. Dásamlegt. í hlénu hitti ég mann sem ég þekki ekki persónulega, en hef oft hugsað til sem eins af íhaldssömu tréhestunum á þingi. Þennan mann hitti ég í vetur sem fulltrúa sinnar nefndar á þinginu. Þetta er maður sem ég vænti einskis af, en hann beitti sér í vetur og bætti hag Stígamóta umtalsvert. Ég gat ekki annað en gengið til hans til þess að þakka honum óvæntan og gleðilegan stuðning. Honum brá. Hann rétti mér vinnulúinn hramm og faðmaði mig að sér. Sagði að við nytum góðs af því að hann hefði aldrei skilið ofbeldi og gæti ekki sætt sig við það. Ég ekki heldur, sagði ég. Ég veit sagði hann.
Bloggar | Breytt 17.2.2007 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2007 | 07:29
Það heyrðist í lítilli tönnslu á Álfhóli í gær.
Ég var búin að taka eftir því að Katla var loksins að byrja að bólgna í neðri góm og um morguninn og í hádeginu hlustaði ég eftir hljóði með því að strjúka skeið um góminn hennar Kötlu minnar. Um miðjan dag, þegar Ásta vinkona var í heimsókn hjá okkur, gerði ég enn eina tilraunina og viti menn? Það heyrðist tannhljóð, það var sprungið fyrir einni lítilli tönnslu í neðri góm. Það var ekki skrýtið þó Kristín mín og Kristín Alma "skábarnabarn" mitt kæmu æðandi á Hólinn og afinn væri að rifna úr monti lokaður inni á fundi. En Katlan var sallaróleg yfir þessu og hélt bara áfram að taka til fyrir afa og ömmu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2007 | 09:38
Fjölskyldulíf á Hóli
Mamma er á Kanarí með vinkonu sinni, frábært. Pabbi treystir sér ekki með og í gærmorgun hringdi ég og bauð honum í mat. Takk, svaraði pabbi, verða gestir? Ég sagði honum sem var að það væri bara morgun, venjulega gerðist mikið á einum laugardegi á mínu heimili. Ég fór í vinnuna og held að ég hafi m.a. skrifað 6 milljón króna bréf og Tommi tók út lifandis ósköp af lambakjöti. Datt í hug að það væri upplagt að frysta eitthvað í nýja ískápnum - fyrirhyggja sem við höfum ekki sýnt í um þrjátíu ár. Svo fór ég að undirbúa matinn og lagði á borð fyrir fjóra. Ljóst var að minnsta grjónið í fjölskyldunni ætlaði að vera hjá ömmu og afa um kvöldið. Það streymdi hlýja um mig þegar ég tók til hennar disk og smekk og glas og stólinn sem Pétur frændi fékk fyrir rúmum 20 árum og er enn í notkun fyrir börnin í fjölskyldunni.
Þá hringdi Hrossið mitt hún Krissa Hryssa og spurði hvað við værum að gera. Komiði í kjötsúpu sagði ég, glöð að fá þau. Garðar var kosningastjóri Röskvu og þau unnu stúdentaráðskosningarnar. Hafði ekki séð hann síðan og hann kom enn ekki upp orði vegna álagsins við að fagna kosningunum tveimur dögum fyrr. Ég bætti tveimur diskum við á borðið og hélt áfram að elda. Þá kom Tommi innan úr herbergi með stækkunarplötuna á borðstofuborðið og bætti við þremur diskum. Aart var að læra og Sóley var á leiðinni með Hjartagullið mitt og Tommsann minn. Þegar þetta er skrifað er kominn sunnudagsmorgun og Katlan mín er enn sofandi inni í rúmi. Afi hennar kemst ekki fram til mín í kaffi, því Kötlu finnst best að halda í putta þegar hún sefur, svo þá bara liggur hann þar til hún vaknar. Hlakka til þegar það fer að heyrast í henni, þá ætla ég inn að knúsa þau.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2007 | 22:34
Vinátta í heila kynslóð
Um helgina var gönguhópurinn Lipurtá í Skógarkoti í Þvrárhlíð. Hópurinn samanstendur af gömlum skólasystkinum mínum úr líffræðinni. Við kynntumst árið 1975 þegar við byrjuðum nám í líffræði, þó sum hafi þekkst enn lengur eða síðan í Menntaskólanum á Akureyri. Það er svo einkennilegt með samferðafólk manns og samnemendur að það hefur mismikil áhrif á mann. Ég hef verið í skólabekkjum sem ég hef næstum því gleymt og man t.d. aðeins örfá nöfn samnemanda minna úr félagsráðgjöf í Noregi. Sumir hópar rista dýpra og má t.d. nefna 12 ára bekkinn minn sem var ótrúlega sterkur hópur sem hefur nokkrum sinnum komið saman í gegnum árin. Í líffræðinni var eins og við værum lostin einhvers konar töfrum og námsárin voru eitt samfellt ævintýri. Gamall prófessor hefur sagt mér að árgangurinn minn hafi verið einstakur og ég held að hann hafi rétt fyrir sér. Við fórum í nokkrar ógleymanlegar námsferðir um landið. Í hópnum ríkti neistandi náttúrufræðiáhugi og úr varð magnaður vinahópur. Áhuginn var ekki bara fyrir náminu, úr árgangnum urðu líka til mörg pör sem sum hver hafa haldið saman fram á þennan dag. Í vinahópnum sem hittist um helgina eru allir líffræðingar nema Tommi og Svana, en þau voru búin að krækja í okkur Júlla Bigga áður en námið hófst og hafa tekið sér gott pláss í hópnum. Eftir að við vorum öll búin að eignast börn og koma þeim upp og farin að eiga tíma fyrir okkur sjálf, fór hópurinn að þéttast aftur og við fórum að taka meiri tíma til samveru og ferðalaga. Um helgina lögðum við línurnar fyrir sumarferðina. Við ætlum að skoða Suðurfirðina á Vestfjörðunum, Látrabjarg, Rauðasand, Örlygshöfn o.fl.
Ég finn það þegar ég kem heim úr svona ferð, hversu nærandi það er að eiga svona góða vini og áhugamál sem eru algjörlegaóskyld vinnunni minni sem ég annars er svo upptekin af.
Bloggar | Breytt 11.2.2007 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2007 | 20:03
Dæturnar þenja vængina
Á Hólnum eru húsráðendur sérlega stolltir þessa dagana yfir dætrunum þremur sem reyndar eru flognar úr hreiðrinu. Þær þenja nú vængina svo fallega að foreldrana hefði ekki órað fyrir því í sínum villtustu draumum. Þær Sóley og Kristín fara á kostum á heimasíðum sínum í feminískum pælingum, sjá tengla til vinstri á síðunni. Tók eftir því í sjónvarpinu í gærkvöldi að Þóra sem ég hef alltaf haldið að væri ljósrit af meðaltali af föðurfjölskyldunni sinni var eins og ljósrit af Kristínu systur. Hef aldrei tekið eftir því fyrr að hún líktist mínu fólki í útliti þó hún hefði húmor móður sinnar. Get alveg lifað með það. Hér koma myndir af þeim í aldursröð. Hvern hefði órað fyrir því að þessir sakleysingjar yrðu einhvern tíma svona sterkar og flottar konur?
Bloggar | Breytt 11.2.2007 kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)