Hugleikur

Álfhólsmiðillinn er fjölbreyttur og segir frá ýmsu. Nú verður sagt frá nýjasta hugleiknum mínum.   Ég er stundum í vandræðum með að sofa á nóttunni og hef fitjað upp á ýmsu til þess að svæfa sjálfa mig. Hér hef ég áður sagt frá talnaleiknum sem ég flikkaði upp á með því að bródera í huganum tölustafina, eða búa þá til úr gulli og demöntum eða úr blómabreiðum.  Ég er orðin hundleið á þeim leik, dettur ekkert nýtt í hug, svo nú er ég komin í annan á nóttunni sem mér finnst bráðskemmtilegur.  

Mér finnst vinnan mín dásamleg og vinnustaðurinn undurfallegur en staðsettur í hræðilegu steinsteypuumhverfi. Mér finnst heimili mitt yndislegt og fallegt, en staðsett á Álfhólsveginum sem mér finnst leiðinlegur og ekki fallegur.

Undanfarnar nætur hef ég verið að leika mér að því að flytja þessar stofnanir í skemmtilegt umhverfi.  Ég er búin að fara með Stígamót í alls konar umhverfi og búa til mismunandi garða og trjálundi í kringum húsið.  Það hefur farið upp á Kjöl, upp í sveit og þar hef ég byggt lítil og falleg útihús með nokkrum skepnum og grænmetisgarði. Svo hef ég byggt við húsið ýmislegt sem gæti komið að gagni; almennilegan sal til þess að safna í mörgu fólki, fleiri herbergjum o.s.frv. 

Í nótt flutti ég heimili mitt og skar af efri hæðina sem nágrannarnir búa á.  Ég setti glerþak þannig að ég gæti alltaf fylgst með himninum og veðrinu.  Svo skar ég líka af ýmsa veggi og setti gler í staðinn þannig að ég gæti næstum búið úti.  Staðsetningin kom mér á óvart, mér fannst það einhvern veginn koma best út að staðsetja heimilið nálægt Reykjavík en í stórbrotinni klettafjöru, svo brimið lemdist við klettana og það skvettist á rúðurnar.  Ég var búin að stækka pallinn þannig að hann var á súlum út í sjóinn.  Var að basla við að hanna heitan hver nálægt húsinu, þannig að það væri náttúrleg laug í göngufæri við mig.  ekki komin lengra ennþá, en ég mæli með þessum leik, hann er bráðskemmtilegur, það er hægt að gera hvað sem konu dettur í hug og hann kostar ekki krónu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband