1.4.2008 | 10:36
Er að vinna með samviskuna
Það er til í mér næstum því þrælslund gagnvart því að taka að mér verkefni og leysa þau eins og ég held að ætlast sé til að ég vinni. Ég hef tekið að mér verkefni sem mig langar ekki að vinna af því ég hef ekki haft hugmyndaflug til þess að segja "nei takk, þetta vil ég ekki gera". Óþolandi og engum um að kenna nema sjálfri mér. Ógagnrýnin samviskusemi er engum til góðs, ég vildi að ég gæti losað mig við hana!
Nú er ég að vinna verk sem ég held að ætlast sé til að ég vinni á annan hátt en ég tel sjálf árangursríkast. Ég er að engjast yfir því annars vegar að hlýða og uppfylla ónefndar væntingar eða gera það sem mér sjálfri finnst rétt og mikilvægt. Um leið og ég skrifa þetta finn ég að ég ætla að kasta hlýðninni og samviskuseminni út í hafsauga. Henda því hundleiðinlega efni sem ég er búin að vinna með í tvo daga og byrja upp á nýtt. Þar verð ég trú sjálfri mér og eigin gildum, reynslu og þekkingu. Þá get ég hnakkakert kynnt efnið með góðri samvisku og verið sátt við sjálfa mig. Ég held að það sé mikilvægara að ég sé sjálf sátt við mig en að mögulega einhverjir aðrir séu það, ef ég þarf endilega að velja.
Athugasemdir
Góð Guðrún!
Halldóra Halldórsdóttir, 1.4.2008 kl. 19:55
Vera sjálfum sér samkvæmur, það er best
Unnur R. H., 4.4.2008 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.