Ömmustrákur

fjölskyldan 10.2.07 004IMG_0737IMG_0110Þetta  er hann Tómas Schalk Sóleyjar og ömmuson.  Í gærkvöldi var hann orðinn þreyttur  og fjölskyldan lá í hrúgu að horfa á sjónvarpsþátt sem hann hafði engan  áhuga á. Til þess að hafa hann góðan, bauð amman honum að skrifa á bakið á honum.  Vinsæl atlot á mínu heimili, sem felast í því aðallega að svæfa en líka í því að teikna á bakið með puttanum.  Hann lá grafkyrr og spurði svo hvað ég væri að teikna.  Ég sagðist vera  að teikna leikskólann hans  á  Mýri.  Ég var  búin með húsið, dótið, leiktækin úti, hann sjálfan, Óla og Tuma og átti bara eftir hina krakkana og fóstrurnar og svo strauk ég yfir bakið á honum.  Það átti ég ekki að gera, hann fór að gráta og sagði að ég væri búin að stroka út leikskólann hans. 

Hrikalegur klaufaskapur auðvitað.  Svo ég bætti fyrir með því að teikna Tívolíið í Kaupmannahöfn.  Öll leiktæki, veitingahús, bangsabúðina utan við Tívolíið, allt skrautið og fólkið, gotteríið og grindverkið í kring.  Og til þess að tryggja að ég eyðilegði ekki þá  mynd líka, hélt hann nærskyrtunni sinni uppi á  haus og fór  og sýndi afa sínum tívolíið. 

Í gær fór hann  einhverra hluta  vegna með mömmu sinni í Hallgrímskirkju.  Þau mæðgin hafa ekki oft farið í guðshús, svo mamma hans útskýrði fyrir honum hvað þar færi fram.  Þegar  kom að jarðarförunum útskýrði hún fyrir  honum að þegar fólk létist væri það sett í  kistu, kistan væri svo borin í kirkjuna og þar færi athöfnin fram.  Þetta  var  of mikið fyrir minn mjúka mann, hann fór  að hágráta  yfir öllu dána fólkinu.  Dásamlegur strákur sem er  alveg  að  verða stór.  Hann fer í skóla í haust og við höldum fast í að njóta þeirra  augnablika sem enn minna á  litla  strákinn okkar.   Það vill til að ég er sannfærð um að hann verður líka dásamlegur þegar  hann  verður stór.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er líka klassískt að syngja "Augun mín og augun þín" með Tomma. Viprur í munnvikunum allt lagið og brestur á með gráti þegar kemur að "...mædd af táraflóði". Honum finnst það allt of sorglegt lag!

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 21:49

2 Smámynd: Dísa Dóra

Yndislegt þetta með að teikna á bakið.  Þetta ætla ég sko að nota á skottuna mína

Dísa Dóra, 16.2.2008 kl. 22:58

3 identicon

Ég á hann líka...

Kristín Tómasdóttur (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 20:58

4 identicon

Mikið hef ég lagt góðan grunn í uppeldinu...........alltaf gaman að kíkja á síðuna.

Anna Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 22:02

5 Smámynd: Álfhóll

Gaman að fá lífsmark frá þér Anna, því verður  ávallt haldið til haga að þú átt hlut í þessum vel heppnaða dreng með okkur Kristínu dóttur minni og nokkrum öðrum! Og saman eigum við hlut í fleiri lukkuðum drengjum eins og Snollanum mínum.  Ætla reyndar  ekki að keppa við þig um öll þau börn sem þú hefur  komið til manns í uppeldisstörfum þínum.

Álfhóll, 18.2.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband