6.1.2008 | 11:59
Samband mitt við peninga
Eftir vælið í mér í gær hefur fólk = konur boðist til þess að skemmta mér og stytta mér stundir á ýmsan hátt. Takk fyrir það kæru vinkonur, ég er öll að koma til. Margrét systir kom með Arnald í gær, en laumaði líka að mér bókinni "The Millionaire next door" um það hvernig fólk hafi orðið ríkt í Bandaríkjunum og hvað það þýði að vera ríkur.
Ég fékk kunnuglegan sting í magann. Veit ekkert um lífeyrisréttindi mín, á slatta í ýmsum lífeyrissjóðum hérlendis og í Noregi. Er ekki líftryggð og hef ekki sýnt neina fyrirhyggju í fjármálum. Ég hef keppst við að lifa eins og hver dagur gæti verið minn síðasti og ætla að halda því áfram.
Er komin á þann stað í lífinu eftir áratuga basl að ég á fyrir salti í grautinn og get borgað af skuldunum mínum og er alsæl með það. Þegar við systur fórum að ræða fjármál í gær leist mér ekki á blikuna. Finnst þessi bók og MBA námið sem Margréti fannst hún þurfa að taka eftir doktorsprófið hafi gert hana óþægilega skynsama. Hún er komin með yfirgripsmikla þekkingu á peningum og fjármálamarkaði. Ég dáist að henni eins og alltaf, en það minnir mig á algjöran aulahátt minn. Er að velta fyrir mér hvort ég ætti að renna í gegnum bókina eður ei.
Eitt af því sem situr eftir úr náminu mínu í Noregi er æfing sem við gerðum einu sinni í litlum hópi. Þar áttum við að flytja stutt innlegg um samband okkar við peninga. Það var afhjúpandi fyrir mig og ég man að ég varð alveg hvumsa yfir því hvað skólasystkini mín höfðu miklu jákvæðara samband við þá en ég. Þau áttu drauma um að verða rík og langaði í demantshringi, glæsikerrur og ýmislegt annað sem mig hefur aldrei langað í. Mig hefur aldrei dreymt stærri drauma en að eiga fyrir skuldum og hef litið á það sem heilaga skyldu mína að eyða jafnóðum því sem mér áskotnast og aldrei verið í vandræðum með það. Minnug þess sem Stína móðursystir hans Tomma minnti mig á að það eru engir vasar á líkklæðum. Ég hef lagt metnað minn í að ala dætur mínar þannig upp að þær séu sjálfbjarga og þurfi ekki að eyða lífinu í að bíða eftir að foreldrar þeirra hrökkvi uppaf. Heyri þegar ég skrifa þetta bergmálið frá foreldrum mínum, hef aldrei hugsað um peninga nema þegar mig hefur sárvantað þá.
Nú er ég búin að lesa preface í bókinni frá systur minni sem hefur alveg sama bergmál í eyrunum og ég og lifir líka sínu lífi til fulls. Spurning hvort ég held áfram.................eða hvort ég kíki á Arnald? Sé til.
Athugasemdir
Heyrist nú á öllu að ég hafi svipað viðhorf til peninga eins og þú. Tel það líka alveg ágætt viðhorf
Dísa Dóra, 6.1.2008 kl. 12:06
Jahá. Þessi fjármál eru nú líka tengd því á hvaða aldri manneskjan er. Ég hugsa öðruvísi um peninga núna en þegar ég var yngri - þá snerist peningahlið lífsins um að komast í gegnum mánuðinn hverju sinni. Lestu nú bókina og segðu mér svo frá...
Halldóra Halldórsdóttir, 6.1.2008 kl. 15:33
Við Dóra þyggjum eflaust létta töfralausn ef hún er í bókinni - spron myndi eflaust þyggja að ég ætti örlítið meiri pening og svona þegar ég hugsa um það þá er eitt og annað sem gaman væri að spreða í.... þe. annað en sparnað.
kv. Hafnarfjarðarpían.
diana (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 17:10
Gott að heyra elsku Guðrún að þú ert að hressast. Gleðilegt ár og takk fyrir frábært 2007. Mér datt í hug eftir að hafa lesið bloggið þitt í gær um að leiðast eða ekki leiðast, maður sem ég heyrði tala á fundi um daginn um þetta. Hann var staddur erlendis við kennslu í nokkra mánuði langt frá fjölskyldu og vinum og uppgötvaði þá að það er ,, mikil gjöf að geta þolað sjálfan sig". Mér fannst þetta svo umhugsunarvert og algerlega mikilvægt takmark. Miklu mikilvægara en hitt að eiga fyrir öllu sem mann langar í. Þannig hugsa ég það. Er annars í hrikalega góðum gír og langar til að deila því með þér mjög fljótlega elsku þú. Hugsaðu vel um þig, kveðja Karla
Karla (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 22:08
Hverjum andskotanum er ég búin að hrinda af stað elsku systir? Get ég ekki þagað yfir nýja áhugamáli mínu, sambandi kvenna við peninga? Mér finnst það hafa verið í gær sem samband mitt við peninga var compúlsívt og byggt á því að halda því stöðugt fram, mitt í öllum áhyggjum mínum af þeim, að þeir skiptu mig engu máli. Skorturinn á peningum gat af sér endalausa tilganglausa neyslu. Líklegast eyddi ég mun meiri orku í að segja sjálfri mér að ég hefði engan áhuga hvað þá áhyggjur af peningum en ég eyði nú í að taka upplýstar ákvarðanir um fjármál mín.
Ein frelsuð!
Margrét systir þín (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.