Í klóm glæpagengis á jóladag!

Þetta hefur verið fremur óvenjulegur jóladagur.  Við áttuðum okkur á að við höfum nær ekkert verslað í þessari ferð og ákváðum að eyða deginum í að skoða í búðir.  Byrjuðum á að fara í Central Cottage  Industries Emporium - ríkisrekið kaupfélag þar sem ekki þarf að prútta.  Skiptum liði og skönnuðum staðinn.  Þar sem ég var ein að kíkja á varninginn skaust mús yfir gólfið og undir næsta búðarborð.  Ég tók kröftugt valhopp, en stoppaði svo og hugsaði; mús, ætla ég að sleppa mér og hlaupa út eins og mér er tamt að gera við slíkar aðstæður eða hvað?  Ég hélt ró minni, færði mig tiltölulega rólega yfir á næstu hæð og hélt áfram að skoða eins og ekkert hefði ískorist.  Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef slíkt vald yfir músa/rottuaðstæðum og ég fann að ég var ekki yfirkomin af órökréttri hræðslu.  Meiri sigur en flesta grunar!

Þurfti  að endurnýja Stígamótatöskuna mína sem skemmdist í Nepal og við keyptum hræódýrar leðurtöskur sem líklega hafa litið fullpeningalega út. Vorum komin í stuð og ætluðum í State Emporium að skoða meira, en þurftum að spyrja til vegar.  Að okkur kom sem oftar ungur ofurelskulegur maður og vildi endilega segja okkur til vegar.  Ekki bara það heldur fylgja okkur og tók skýrt fram að hann vildi bara vera hjálpsamur.  Hann vildi ekki fá  neitt frá okkur.  Þetta er orðinn gamalkunnur söngur ákaflega ágengra  manna sem svo elta okkur langar leiðir.  Eru meðal annars kallaðir þóknunarhákarlarnir.  Ég hef stoppað, þakkað fyrir óumbeðna hjálp og svo beðið þá ákveðið en kurteislega um að "please don´t follow us"!  Þessi stoppaði við, en gekk þó í humátt á eftir okkur langa leið og var að tala í símann.  Við viljum gjarnan geta treyst fólki og gengum eftir leiðsögn hans.  Við tókum eftir því að hann elti okkur í fjarlægð og skiptum því um stefnu og ráfuðum eftir ókunnugri götu. 

Þar kom til okkar maður sem við höfðum ekki séð og sagði okkur að State Emporium væri í annarri átt, það er ekkert í þessari götu sagði hann hálfpirraður. Ég stoppaði og spurði af hverju hann héldi að við ætluðum þangað og hann varð hálforðlaus.  Sagði okkur að við hefðum ekkert að gera í þessari götu og benti í allt aðra átt.  Við þökkuðum pent og héldum áfram eftir þessari skuggalegu götu þar til þriðji maðurinn gekk að okkur sykursætur og benti mér á að hafa ekki bakpokann á bakinu.  Það væri ekki öruggt, ég ætti að hafa hann framaná mér, reyndi að vera traustvekjandi, en virkaði undir annarlegum áhrifum og ansi ógnvekjandi.    Svo sagði hann mér að State Emporium væri ekki í þessari átt heldur annarrri.  Þessi maður hafði ekki heyrt okkur tala við hina tvo og við stoppuðum við og ætluðum að malda í móinn en þá hafði þyrpst í kringum okkur gengi fimm til sex ungra manna sem gekk ansi nærri okkur og hálfumkringdu okkur.  Þá vissum við að um skipulagt glæpagengi væri að ræða sem hringdist á til þess að króa af ferðafólk og afvegaleiða það.   Sem betur fer var þríhjólabíll rétt við og við hentumst upp í hann og sögðumst ætla á Tourist Information með adrenalínið á fullu.  Þá réðist sá síðasti í bílstjórasætið og talaði ógnandi við bílstjórann á hindi og við heyrðum að hann nefndi Tourist Information, ekki bara það, heldur  hentist hann og maður tvö úr genginu upp í næstu bílakerru og keyrðu á eftir okkur.  Tveir settust á mótorhjól.  Löngu síðar í magnaðri umferðinni, sá Tommi að hans bílakerra var beint á eftir okkur.  Við sögðum bílstjóranum að við ætluðm að York hótelinu, alls  ekki að Tourist Information og hann  skipti um stefnu og keyrði þangað í þungri umferðinni.   Þegar við komum að York hótelinu hlupum við til varðanna og sögðum þeim að við værum elt af glæpagengi, hvort við mættum standa hjá þeim um stund.  Í sömu mund gengu mótorhjólagæjarnir framhjá, horfðu í augun á okkur og tóku upp símann.  Ég hugsaði með mér að þetta hlyti að vera vitleysa, ég væri nú ekki góður  mannþekkjari.  Í því snéru þeir við og gengu aftur beint að okkur óþægilega nærri og voru að tala í símann og aftur horfði hann ógnandi í augun á okkur, þetta var ekki bara mín ímyndun,  Tommi þekkti þá líka. Við fórum inn á hótelið og fengum að bíða þar í góðan tíma,  sögðum hvernig staðan væri og öryggisverðir hringdu svo á lokaðan leigara og fylgdu okkur í hann og við komumst heil heim á hótel Icon Villa og höfum hugsað okkur að vera hér það sem eftir er kvölds.  Þegar við fórum að skoða kortið sáum við að áttin sem þeir vildu að við færum í hefði leitt okkur inn í almenningsgarð þar sem auðvelt hefði verið að ræna okkur og/eða meiða, State Emporium var í þveröfugri átt.   Ógnandi upplifun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff, það er eins gott að þið farið að koma ykkur heim. Farið varlega. Það verður gott að geta rækilega knúsað ykkur, heil og sæl, þann 30.

Sigrún (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 17:57

2 identicon

sæl aftur,

guð minn góður ég var logandi hrædd að lesa þetta, viljið þið fara extra varlega ég vil fá ykkur heil heim.

kveðja úr snjóalandinu mikla - hér er allt bókstaflega á kafi.

Día

diana (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband