Gleðileg jól elskulega fjölskylda, vinir og aðrir velunnarar!

IMG_0582"Aðfangadagur jóla er einmitt í dag".... og við erum komin aftur til Delhi. Set inn mynd af eina jólaskrautinu sem ég hef séð hér í landi.  Það var í borgarhöllinni í Jaipur.  Frábærri  ferð um Rajasthan er lokið, vorum að kveðja Harphool bílstjórann og kunningja okkar og komin á þráðlaust net.  Setti inn dagbók síðustu daga og loksins get ég sett inn dálítið af myndum......  Gleðileg jól og njótið hátíðar og samveru......

Hjartans kveðjur frá Indlandi

Guðrún og Tommi

Föstudagurinn 21. des. 2007 

Með Harphool í Rajasthan IMG_0513IMG_0547

Hér má sjá kúadellukökur sem indverskar húsmæður búa til með höndunum og nota sem eldivið í næstum skóglausu héraðinu.  Og svo einn af framleiðendunum sem krökt er af hvar sem er, meðal annars í hjarta borganna innan um sveltandi og köld börn.

Við höfum enn ekki alveg vanist því hvernig viðskipti ganga fyrir sig hér í landi.  Ágengni sölumanna er gífurleg og þeir sem við verslum við setja alltaf upp miklu meira en það sem þeir búast við að fá.  Við vitum bara ekki enn hver mörkin eru svo við höfum ekkert keypt.  Fáir eru harðari en “þóknunarhákarlarnir” svokölluðu sem setjast að ferðafólki eins og mý á mykjuskán, hlaupa á eftir því og bjóða gull og græna skóga.  Nær alltaf er um svik og pretti að ræða, fólk borgar himinháar upphæðir fyrir mjög lélega þjónustu og hákarlarnir maka krókinn.  Okkur var sagt af vinafólki okkar í Lonely Planet að bóka alltaf hótel sjálf og ákveða sjálf hvar eigi að matast. Bílstjórinn okkar hann Harphool fékk kurteisleg skilaboð um að við hefðum þegar gengið frá öllum bókunum og létti það á samskiptunum.  Hann bað okkur hins vegar um að segja hér í Ranthambohre að hann væri mjög góður bílstjóri og hefði sterklega mælt með þessu hóteli.  Ég held að hann hafi bætt við söguna einhverju sem ég ekki veit hvað er.   Hann fékk alla vega ókeypis gistingu og uppihald og gekk inn í matsalinn til okkar og bauð okkur upp á indverskt romm.  Þjónarnir litu greinilega á hann sem einkavin okkar og við bara tókum þátt í leiknum. Held að hann hafi komið með rommið til þess að sýna hversu náin við værum.  Hann keypti ekkert en bað um vatnsglas og kranavatn og drakk rommið að mestu sjálfur. En það sem Harphool gat gefið okkur og ekki er hægt að fá fyrir peninga var innsýn í eigið líf og þar með indverskt.  Hann er 26 ára hindúi og ræsir ekki bílinn fyrr en hann hefur beðið ferðabæn.  Ósköp fallegt og veitir ekki af að taka í notkun allar leiðir til þess að reyna að halda lífi í umferðinni hérna.   Hann er giftur og á von á barni í mars. Pabbi hans valdi handa honum konu sem hann þekkti ekkert.  Það hefði verið óhugsandi að hann hefði gifst stúlku úr þorpinu sínu.  Það er algjörlega bannað.  Þess vegna fann pabbi hans passandi stúlku af sömu stétt í 30-40 kílómetra fjarlægð.  Hann á þrjá bræður og þrjár systur.  Bræður hans heimta að velja sér konur sjálfir og geri þeir það mun pabbi þeirra reka þá að heiman og hann mun ganga lengra en það, hann mun þá ekki gefa  þeim neitt land og þar með  eru þeim allar bjargir bannaðar.   Harphool skildi mig ekki þegar ég spurði hvort hann elskaði konuna sína eða hvort hann væri ástfanginn.  Það er  bara ákveðið að með þessari konu muni hann búa. Þau leigja herbergi í Dehli á meðan hún er ólétt því það gengur ekki nógu vel með meðgönguna - fjórða tilraun og ég hamast við að bægja frá mér hugsuninni um að það vanti 8% upp á fæðingarhlutfall stúlkna í Rajasthan.  Honum finnst hins vegar svo rándýrt að búa þar að þau munu fara strax aftur í þorpið hans, heim til foreldra hans að fæðingu lokinni.  Pabbi hans á tíu herbergja hús og þar búa afi hans, foreldrar og ógift systkini. Konan hans mun hylja á sér andlitið gagnvart föður hans og hærra settum og það er óhugsandi að hún muni vinna önnur störf en að búa honum heimili, fæða hann og klæða.  Hún mun hins vegar sjá um hrísgrjónaskikann sem hann á von á að pabbi hans gefi honum.  Tvær systur hans eru giftar og þær eru að sjálfsögðu fluttar til tengdó og sjá foreldra sína einu sinni til tvisvar á ári.  Hugmyndin er að hann muni búa þarna alla ævi með bræðrum sínum og konunum þeirra.  Honum fannst hræðilegt að við ættum ekki syni – smá sárbót að eiga Tommsann okkar litla.  Jahérna hér...........svona er Indland í dag. Bestu kveðjur heim á Frón í jólaundirbúninginn, munið að njóta aðventunnar. 

Laugardagurinn 22. des. 

Jaipur

IMG_0527IMG_0519Í gær og í morgun ætluðum við í safaríferðir.  Það áttu að vera lokatilraunirnar til þess að hitta á villt tígrisdýr í þessari ferð.  Í fyrstu ferðinni vorum við í opnum jeppa um miðja nótt og það var svo kalt að ég kvefaðist rækilega.  Við sáum reyndar mörg skemmtileg dýr og greinileg fótspor eftir tígrisdýr svo ferðin var ekki til ónýtis.  Ung kona sem við hittum á hótelinu sagði okkur að í þjóðgarðinum væru fimm svæði sem jepparnir færu á – þrír á hvert svæði. Á svæði þrjú væru mestar líkur á að hitta á tígrisdýr, en einhverra hluta vegna væri alltaf búið að fylla það svæði.  Sannleikurinn er sá, sagði hún, að fólk mútar hótelunum til þess að komast á þetta svæði.  Þar er tígrisynja með hvolpa og miklar líkur á að hitta á hana.   Ég ákvað samstundist að reyna hæfileika mína í að múta fólki, en var orðin lasin með hita, svo við slepptum því.  Ákváðum að taka því rólega, lögðum okkur og vorum löt.  Fórum á fínan stað til þess að fá tilbreytingu frá karrýkjúklingi.  Á matseðlinum var aðeins karrýkjúklingur. Við höfum nú lifað á karrýkjúklingi í 16 daga og sjáum fram á að gera það til áramóta, fínt mál.  Í morgun keyrðum við svo 4 klst. ferð til Jaipur, höfuðborgar Rahjastan.  Fátt er skemmtilegra en að paufast áfram í umferðinni hérna og fylgjast með lífinu hérna.  Því verður ekki lýst með orðum, þess verður bara notið.   Í eftirmiðdaginn komum við borgarinnar og bókuðum okkur á fallegasta hótel sem við höfum séð fyrir innan við 5000 kr. ísl.  Hef ekki sagt það nógu oft hvað Lonely Plantet er góður ferðafélagi!   Gengum svo yfir í gamla bæinn. Iðandi mannlíf eins og annars staðar, en opin skólpræsi alls staðar – kjöraðstæður fyrir rottur.  Tommi orðinn svo aðlagaður að hann skellti sér á karlastand til þess að pissa, kom tilbaka með andateppu vegna lyktarinnar.  Leigðum okkur hjól með aftanívagni heim á hótel og erum nú að bíða eftir – daraddada.............nuddi! 

23.des.

Indversk “þorláksmessa” – sunnudagur 

IMG_0567IMG_0575Hér eru myndir af herbergisdyrunum okkar og brotabrot af borðsalnum á hótelinu sem við bjuggum á í Jaipur fyrir minna en 3000 kr. á sólarhring á mann.  Ég hef aldrei séð annað eins.

Í dag skipulagði bílstjórinn okkar hann Harphool skemmtiatriði dagsins.  Við vitum að tekjur hans byggjast aðallega á að telja hótelum, veitingahúsum og verksmiðjum trú um að hann hafi sannfært ferðafólk um að versla við viðkomandi.   Í dag stakk hann upp á að við færum í borgarhöllina, Ambervirkið og heimsæktum nokkrar verksmiðjur sem selja skartgripi, vefnaðarvöru, teppi og ýmislegt fleira.  Á öllum stöðum þurftum við að bíða eftir honum á meðan verið var að greiða honum þóknun og þjónusta hann á ýmsa lund. Okkur þótti þetta bara fínt mál og höfðum ekki hugsað okkur að versla nokkurn skapaðan hlut.  Á öllum stöðum var tekið á móti okkur með hvílíkum virktum og við fengum kynningar á því hvernig indversk teppi eru unnin, bæði kashmir, silki og úr úlvaldaull.  Svo fengum við að sjá hvernig gimsteinar eru skornir og slípaðir og ýmislegt fleira.  Okkur fannst það ágætis fræðsla – enginn fróðleikur einskis virði o.s.frv. Sjálfum okkur til mikillar undrunar féllum við fyrir fallegum efnum úr kashmir ull og vissum ekki fyrr en við vorum búin að panta tvenn jakkaföt á manninn minn og tvær silkiskyrtur fyrir spottprís.  Þetta gerðist kl. 13 í dag og okkur var lofað að fötin kæmu fyrir kl. 21 í kvöld, við mættum gera athugasemdir og fötin kæmu fullkláruð áður en við færum í háttinn.  Það er ekki á hverjum degi sem ég fæ manninn minn til þess að versla á sig fatnað, það verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Ef það verður ekki gott, þá nær það ekki lengra, hann hefur hingað til komist ágætlega af án tískuklæða.   

Á morgun aðfangadag förum við svo aftur til Delhi og þá fer að styttast í heimferð.  Ég verð að viðurkenna að ég sakna jólaundirbúnings, stelpnanna minna, barnabarnanna, tengdasona og þorláksmessukvölds með Ástu vinkonu sem við höfum eytt saman í meira en 40 ár þegar við höfum verið í sama landi og sama landshluta.   Sakna líka jóladags með mömmu og pabba og Rögnu.  En söknuðurinn er ekki alvarlegur – bara svona tregablandið góður.  Minnir mig bara á hvað ég elska fólkið mitt og það er holl áminning. Hlakka rosalega til gamlárskvölds á Hólnum og næstu jóla! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Gunna og Tommi

Njótið síðustu daga ævintýrisins og eigið góð og sérstök jól. Hlakka til að fá ykkur heim og ég lofa að gefa ykkur ekki karríkjúkling þann 30. Vona að aðrar Lipurtær lesi þetta líka og passi slíkt hið sama. Svo að þið þurfið ekki að éta karríkjúkling alveg til áramóta, bara næstum. Góða ferð heim, hlakka til að sjá Tomma í nýju fötunum!

Sigrún (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 12:03

2 identicon

Gaman að kíkja á ykkur þarna í fjarskanum og lesa um þessa upplifun. Framandi jól, líkast til! Rændi Ástu á Þorláksmessukvöld, í fjarveru þinni, í árlega skötuveislu minnar fjölskyldu. Njótið verunnar sem mest.

Svala Guðjóns (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband