22.12.2007 | 10:26
Dagur kvenleika og sterkra lita
fimmtud. 20.12.07
Dagur kvenleika og sterkra lita
Í dag kvöddum við fuglaparadísina í Keoladeo Ghana og keyrðum í 6 klukkutíma til Ranthambhore í leit að tígrisdýrum. Nú er ég næstum búin að sjá tígrisdýr í Nepal og næstum Phyton slöngu á Indlandi. Nú ætlum við að fara í þrjá leiðangra í þjóðgarðinum Ranthambhore og athuga hvað fyrir augu okkar ber. Hér eru 35-40 tígrisdýr, spurning hvort þeim þóknast að láta sjá sig. Í þetta skiptið munum við ferðast með öðrum túristum á jeppum ekki eins persónulegt og í fyrri görðum, en hvað erum við annað en túristar? Það var ansi gaman að ferðast um sveitir og þorp og fylgjast með því iðandi mannlífi sem alls staðar er. Í dag velti ég því fyrir mér hvað ég hafi verið að þrasa yfir smárusli í Nepal. Mér finnst við vera farin að slappa vel af og njóta þess sem við sjáum. Alls staðar var fólk að störfum, margir beint fyrir utan heimili sín og alls staðar var vinnuaðstaðan nákvæmlega engin. Allir sem við sáum sátu á hækjum sér og unnu á jörðinni. Hvort sem það voru blikksmiðir, steinhöggvarar, konur að elda, sauma, yrkja jörðina eða hvað það nú var sem fólk hafði fyrir stafni. Berrassaðir smákrakkar á vappi, beljur, buffalar, geitur, hundar, svín og fyndin kameldýr. Það sem mér fannst skemmtilegast í dag var að fylgjast með konunum hérna. Þær voru að vinna á ökrunum, við eldinn, í vegavinnu, við grjótnám og ýmislegt fleira. En næstum allar voru þær klæddar í sahri, djúpsterk bleika, gula, appelsínugula, æpandi bláa, rauða, græna, allar alltaf með slæður hvort sem þær voru að tína upp grjót eða mold með höndunum, setja í skálar og bera úr vegastæðinu á höfði sér, eða að þær voru að sækja vatn í risastór vatnsker sem þær báru á höfðinu, oft með krakka í fanginu eða við hlið sér. Alltaf teinréttar, dulúðugar og ótrúlega fallegar. Þær voru með haka, og lítil handverkfæri eða engin handverkfæri að leitast við að bjarga sér. Margar voru að búa til moldar/kúadellukökur sem þær þurrka og safna og nota fyrir eldivið. Ótrúleg erfiðisvinna úti í moldarpyttum og engin verkfæri nema hendurnar. Allar virtust þær svo fínar og hreinar í öllu sem þær tóku sér fyrir hendur. Allar voru þær að vinna, þær voru ekkert að drolla konurnar á Indlandi. Ég kunni aldrei við að taka mynd af þeim, það hefði einhvern veginn rýrt virðingu þeirra. Gengum svo um þorpið hérna og spjölluðum við fólk, fengum leyfi til þess að taka myndir sem við sýndum fólkinu við mikinn fögnuð og teyguðum að okkur hversdagsleikanum þeirra sem er ansi framandi fyrir okkur. Gaman, gaman.
Athugasemdir
Ég ætla rétt að vona að tígrarnir láti ykkur ekki fara alla leið til Indlands án þess að sjá svo mikið sem nokkrar rendur af sér. Skemmtilegt að fá þessa innsýn hjá þér Guðrún mín. Allar þessar litríku konur.
Bestu jólakveðjur frá mér, Dóra
Halldóra Halldórsdóttir, 22.12.2007 kl. 22:06
Gaman að lesa um ferðirnar ykkar, gleðilega hátíð!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.12.2007 kl. 02:20
Kæru Guðrún og Tómas.
Það er búið að vera ævintýri líkast að lesa um ferðir ykkar.
Innilegar óskir um gleðileg jól og farsælt nýtt ár. Við þökkum ykkur góðar stundir á liðnu ári.
Stefán, Guðbjörg (Dídí) og Aðalsteinn á Langholtsveginum.
Guðbjörg Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 12:24
Elskulegu Guðbjörg, Stefán og Aðalsteinn. Hjartans þakkir fyrir góðar kveðjur. Við erum alsæl með ykkur og dásamlega tengdasoninn okkar. Vonandi gengur allt vel hjá börnunum okkar í Dóminikanska. Gleðileg jól.
Guðrún og Tommi
Álfhóll, 24.12.2007 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.