14.12.2007 | 17:53
Og áfram blogga foreldrar mínir frá Nepal...
Hæ
Mamma bað mig um að setja inn þessa færslu. Netið í Nepal er eitthvað að stríða þeim. Bendi áhugasömum á að Pabbi hefur líka sett inn færslu um ferðina á www.tommijons.blog.is.
Kveðja Kristín,
Hér kemur færslan:
Föstudagurinn 13.12.07
Rólegheit og heimsókn í apamusterið - Swayambhunath
Ég er að ná mér eftir overdosis af Asíu. Tók það rólega fyrir hádegi og ákvað að ná
stjórn á lífi mínu aftur. Tommi fór út um morguninn og kom aftur alsæll yfir því að
hann væri búinn að finna ruslahaugafría leið inn í Tamel gamla bæinn.
Umhyggjusamur að vanda.
Ég skrifaði dagbók og svo lögðum við ferðafélagarnir af stað til þess að upplifa
Kathmandu með opnum huga. Við fórum ruslahaugafríu leiðina og ég tilkynnti að nú
væri ég orðin yfirveguð og róleg og ætlaði að mynda það sem fyrir augu bæri.
Sá tvo hálfdauða hunda rétt hjá hótelinu og ætlaði að mynda þá og þegar ég fór að
beita myndavélinni kom ég auga á feita, stóra og dauða rottu við hliðina á hundunum.
Náði mér furðu fljótt og við ráfuðum um miðbæinn. Fylgdum Lonely planet í blindni
og fengum okkur ágætis hádegisverð á stað sem heitir 1905. Ákváðum að skoða
apamusterið Swayambhunath sem er ótúlegt búddahof og eitthvert frægasta tákn
bæjarins. Þarna var fínt útsýni yfir bæinn og við áttum góða stund. Fórum svo heim
að hvíla okkur og komum inn á hótel um kl. fimm í rafmagnsleysi. Við drógum fram
Rúmfatalagersvasaljósið okkar og biðum í myrkrinu, fannst við ansi svona
fyrirhyggjusöm og gáfuleg. Hér kólnar ansi hratt eftir sólarlag og aðeins
rafmagnsofn til þess að hita herbergið. Við skriðum því undir þunnt teppi og biðum
eftir birtu og yl. Náðuð þið þessum ágætu nánustu aðstandendur?
Það liðu um tveir tímar og við vorum búin að finna vararafhlöðurnar, klár í hvað sem
væri í myrkrinu. Við vorum orðin ansi köld og vorum alveg búin að fá nóg af þessu
skemmtiatriði. Einhverra hluta vegna slökknaði á vasaljósinu og við tókum eftir því
að það var ekki alveg dimmt úti. Þá hvarflaði að okkur að prófa að kveikja ljósið
og viti konur og menn! Það kom ljós. Vorum ekkert að spyrja starfsfólk hversu lengi
rafmagnsleysið hefði varað. Fórum út á fínasta stað í bænum og tókst að eyða þar um
3.500 krónum fyrir allt sem okkur datt í hug.
Föstudagurinn 14. des.
Kathmandudalurinn; Búddatrú, hindúismi og líkbrennsla
Ekkert heitt vatn í sturtu, en við höfðum alveg húmor fyrir því. Leigðum okkur bíl
og bílstjóra allan daginn fyrir heilar 1.870 kr. íslenskar. Um leið og við vorum
komin út úr Kathmandu varð allt umhverfið mun snyrtilegra. Ákváðum að pikka út það
besta úr nágrenni borgarinnar og byrjuðum í búddahofi þar sem flóttafólk frá Tíbet
gengur daglega í kringum hofið og þylur bænir. Merkilegt að sjá, fólk frá Tíbet er
miklu stærra og stórgerðara en nepalarnir. Hofið er réttilega á heimsminjaskrá.
Síðan fórum við að skoða Phashupatinath hofið sem stendur við hina heilögu Bagmatiá.
Við komumst aldrei til þess að skoða hofið. Á leiðinni gengum við framhjá
líkbrennslustað hindúa og Nú er rafmagnið farið aftur
Við reyndum að sýna fulla virðingu, en ég verð að viðurkenna að við gláptum eins og
hitt fólkið. Þarna fylgdumst við með því þegar heil líkfylgd kom með lítið barnslík
og gátum ekki slitið okkur frá því að fylgjast með allri athöfninni sem var
íburðarmikil. Sáum engan gráta. Hindúar virðast hafa mikið vald á tilfinningum
sínum. Við sáum fimm fullorðna karla koma með lík vafið inn í léreft, hlaða
bálköst, afklæða líkið inni í léreftsklæðinu, bera það að vatnsborðinu og stökkva á
það heilögu vatni úr ánni, fletta dúknum af andlitinu og bera eld að því, svo stóð
líkið í björtu báli. Fátækir karlar, en falleg athöfn og mikil virðing. Jahérna
hér! Merkileg innsýn í líf bæði búddatrúarfólks og hindúa á einum degi. Eyddum mun
lengri tíma en áætlað var í þessa fræðslu og enduðum í Bhaktapur á Dunbar torginu
þeirra sem er ótrúlegt samsafn mustera og hofa. Þar fundum við að við vorum gegnum
reykt frá líkbrennslunni og lungun orðin svört. Vorum orðin mettuð af öllu því sem
við höfðum séð um daginn og settumst að snæðingi úti í sólinni. Reyndum að muna
hvernig veðráttan er á Íslandinu góða á þessum árstíma, en það var ekki einfalt.
Fór að velta því fyrir mér hvað við erum orðin aftengd lífhringnum. Við fáum
útfararþjónustur til þess að sjá um allt það praktíska þegar við kveðjum ástvini í
stað þess að klára málið sjálf. Í dag finnst mér það gæti verið eðlilegur og
fallegur þáttur í sorgarferlinu að kveikja bara sjálf í fólkinu okkar og dusta svo
öskunni út í náttúruna. Úff.......
Nú finnst mér ég vara búin að læra ýmislegt. virði mörkin mín og leigi bíla fremur
en að klofa yfir ruslahauga. Matast á fínustu veitingastöðunum þeirra og það kostar
minna en að kaupa í matinn heima. Ber á okkur flugnaeitur og svo gleypum við
malaríutöflur og göngum um með bakteríudrepandi gel sem er mun nauðsynlegra en ég
gerði mér grein fyrir. Takk Sóley systir, skynsemi þín hefur aldrei brugðist mér.
Lonely planet er á flestan hátt biblía, má þó bæta slatta við allt verð sem þar er
gefið upp. Held að við séum að verða klár í Indland, fljúgum þangað á morgun.
Athugasemdir
Magnað. Veit ekki hvort ég á að segja ykkur frá því, en einn sem við töluðum við í dag sagði Nepal vera allt hið snyrtilegasta í samanburði við Indland... Hlökkum til að heyra meira. Bestu kveðjur frá Ljósvöllum.
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 21:48
Sæl aftur bæði tvö! Almannavarnir og lögreglan hjálpa OKKUR hérna heima að muna hvernig íslensk veðrátta er. Það lægði dálítið upp úr hádeginu en er farið að hvessa töluvert aftur. Næsta óveður er svo væntanlegt á sunnudaginn. Þökkum okkar sæla fyrir að það skuli ekki vera frost og snjór!!! Bíð spennt eftir framhaldinu! Kveðjur úr Kópavoginum.
Lilla P. (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 23:05
Takk fyrir godar kvedjur Brynja min. Solan min, hvernig stendur a thvi ad okkurmaedgum var aldrei sagt fra thvi at oft ma satt kyrrt liggja? Erum ad bida eftir ponnukokum i morgunmat. Og svo bara ut a voll.
Astarkvedjur heim i almennilegt islenskt vedur.
Gudrun og Tommi.
Gudrun (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 03:36
Gaman að fá fréttir af ykkur ævintýrahjónum. Þið eruð æði.
Hlýjar kveðjur frá okkur Guðrúnu Eddu.
Dia
día (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 09:49
Við fórum í jólatrjáaskóginn okkar í dag. Snjóföl yfir jörðu. Logn. Sól óð í skýjum, lágt á lofti. Hugsaði til ykkar. Gangi ykkur sem allra best og njótið. Hlakka til endurfunda.
Sigrún (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.