13.12.2007 | 07:08
Dagbok fram ad tessu, myndir sidar.........
Fimmtudagurinn 6.12.2007
Ísland - London - Bahrein
Loksins, loksins lögum við af stað í ævintýrið mikla til framandi landa. Stoppuðum í London í tíu tíma, keyptum okkur það sem vantaði af flugnafælugræjum og lékum okkur. Flugum til Bahrein við Persaflóann, biðum þar í fjóra tíma og lögðum svo í hann til Nepal. Vorum á flugi í 13 tíma, ferðalagið allt tók einn og hálfan sólarhring.
Föstudagurinn 7. 12.2007
Nepal
Lentum í Kathmandu í Nepal í gærkvöldi og var keyrð á 5 stjörnu hótel í myrkraðri borg. Vorum sótt af starfsfólki hótelsins Yin og Yaki. Hér eru engin götuljós og það sem við sáum í bílljósunum og í illa upplýstum vistarverum fólks var sjokkerandi. Því miður, þá á ég engin orðin orð. Þóttist vera búin að undirbúa mig eins og hægt var, en samt. Það var fólk alls staðar að ferðast um í myrkrinu. Fólk sem virtist vera að reyna að selja öðrum innfæddum eitthvað smávegis. Eitthvað sem líklega kallast veitingastaðir hér. Fólk sem sat á hækjum sér og virtist vera að elda eða hlýja sér á við eld í vegarkantinum úti á götu. Í ruslinu, einhvers konar ruslahaugum alls staðar. Datt bara í hug orðið dýrslegar aðstæður, eitthvað sem mig langar ekki að fólk búi við. Fengum okkur að borða á hótelinu og duttum strax útaf á hótelinu eftir 36 tíma ferðalag.
Laugardagur 8. 12. 07
Equality Now
Hafi ég gleymt að segja einhverjum það, þá get ég sagt það núna; mikið skelfing þykir mér vænt um vinnuna mína. Ég veit ekki ennþá hvernig Equality now uppgötvaði Stígamót, en hér eru samankomnar 9 konur sem hafa hlotið viðurkenningu þessara virtu alþjóðasamtaka ásamt stjórn samtakanna og sérstökum gestum. Mér til mikillar ánægju hafa Marta samtökin í Lettlandi líka hlotið styrk sem níundu samtökin svo hér hitti ég Ilutu Lace vinkonu mína. Hér er líka Colette deTroy sem er framkvæmdastýra ofbeldisdeildar European Women´s Lobby og ágæt vinkona mín í gegnum sameiginleg verkefni undanfarinna ára. Hún situr í stjórn Equality Now, en ég veit frá sameiginlegri vinkonu að það var ekki hún sem tilnefndi Stígamót.
Sérstöku gestirnir voru tvær konur, ég hélt að önnur þeirra yrði Maryl Streep sem hefur gjarnan kynnt samtökin, en sjálf hef ég aldrei fallið fyrir stjörnum vegna þess að þær séu stjörnur. Gestirnir komu of seint vegna seinkunnar á flugi og okkur var sagt að það væri mikilvægt að gestirnir heyrðu framsögur okkar, svo að þær skildu að Equality now hefðu smekk fyrir almennilegum feministum.
Það kom í ljós að önnur gestanna var Gloria Steinem hin heitir Bonnie Schaefer. Fyrir mig var það að hitta Gloriu sambærilegt við það að Tommsinn minn, litli dóttursonur minn, hitti spiderman. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að hitta hana. Ég vandaði mig eins og ég gat óvenju þurr í hálsinum og hugsaði mér að samstarfskonur mínar á Stígamótum hefðu raðað sér í kringum mig og Kristín sæti á öxlinni á mér og sagði frá starfi Stígamóta gegn mansali. Held veit að mér gekk vel og fékk að heyra það mörgum sinnum.
Hinn gesturinnBonnie Schaefer olli hins vegar andköfum hinna kvennanna og þær stóðu upp þegar þær heilsuðu henni. Við fengum að vita að hún væri megin styrkveitandinn og hefði practically stofnað mansalssjóðinn með auði sínum. Hún væri vinkona Gloríu. Hún settist við hliðina á mér og með henni voru nokkrar aðstoðarkonur sem settust í skuggann. Það var alveg magnað að sitja í svo þröngum alþjóðlegum hópi kvenna sem allar eru að fást við ljótustu hliðar alþjóðavæðingarinnar. Hversu snöggar við erum alltaf að tengjast og fara að tala sama alþjóðamálið. Bonnie hafði mikinn áhuga fyrir Stígamótum og hætti ekki að spyrja mig um áhrifamikið starf okkar.
Gloria mundi eftir Möllu heitinni Scram frá því hún var í viðtali í Ms og sagði að þegar bandarískir feministar ræddu um fyrirmyndarríkið þá væri það Ísland! Because of the feminist party Ég þandi brjóstkassann í þúsundasta skipti yfir Kvennalistanum og Stígamótum. Það var eins og hún hefði setið löngum stundum við eldhúsborðið á Stígó, svo áhugasöm var hún og svo mikla þekkingu hafði hún á því sem við erum að fást við.
Ég sýndi þessum nýja vinkonuhópi mínum stígamótanærbuxurnar og þær vöktu ótrúlega athygli. Stelpur, minnið mig á að við þurfum að framleiða þær með enskum texta fyrir New York ævintýrið okkar!
Fórum út að borða saman og á morgun munum við heimsækja systursamtök okkar hér í Kathmandu. Hér er staddur eiginmaður minn elskulegur og hann er upptekin af Nepalsku samfélagi sem ég á eftir að upplifa með honum. Hvílík upplifun.
Sunnudagur 9.12.07
Samstarf og Maiti athvarfið
Fyrri hluta dagsins notuðum við til þess að leggja á ráðin um framtíðarsamstarf okkar. Hvernig við gætum komið til skila þeim skilningi sem við höfum á tengslum klámiðnaðar og ofbeldis og varð nokkuð ágengt. M.a. var rætt um hversu orð væru stundum vandmeðfarin. Það var verið að velkjast með það að customer eða client væru slæm orð yfir kaupendur vændis. Ég benti á að erfitt væri að selja hugmyndina um að refsa viðskiptavinum eða kaupendum. Hljóma svo vingjarnlega. En þar sem við vorum allar sammála um að vændi væri ofbeldi, skildi farið með það sem slíkt. Á sambærilegan hátt og farið er með nauðganir og annað ofbeldi. Okkur væri tamt að tala um perpetrators eða ofbeldismenn í því samhengi. Hið rétta væri auðvitað að þeir sem kaupa sér kynferðislegan aðgang að konum eru ofbeldismenn. Ef við notum rétta orðið yfir þá, ætti að vera auðveldara að koma yfir þá lögum. Þetta féllust þær á, en spurningin er hvort konur hafi kjark til þess að kalla alla þá karla ofbeldismenn sem kaupa sér konur.
Maiti Nepal athvarfið
Eftir hádegi fórum við í heimsókn í Maiti athvarfið í Kathmandu. Ég skrifaði um það inn á heimasíðu Stígamóta. Í rútu á leiðinni þangað tók Bonnie orðið og sagði að það yrði að tryggja að þessi hópur gæti haldið áfram að vinna saman. Hún sagðist því hafa ákveðið að bjóða okkur öllum heim til sín í nóvember á næsta ári. Hún ætlaði að greiða flug og allan kostnað og við gætum bara búið heima hjá henni. Mér skilst að hún eigi heilsurækt sem valin hefur verið sú besta í Bandaríkjunum eða heiminum eða eitthvað......Heimsóknin í Maiti athvarfið var gífurlega áhrifamikil. Bæði að fara inn á ungbarnadeildina þar sem ég sá m.a. tveggja daga gamalt barn sem hafði verið skilið eftir á götunni. Ég varð að ganga út af ungbarnadeildinni, ég bara brotnaði saman þegar ég leit yfir heilan skóg af ungbarnarúmum sumum með tveimur börnum í. Tók mig svo saman í andlitinu og fór inn til barnanna. Mér fannst ég bara lamast. Mig langaði að taka þau öll að mér, hvert eitt og einasta og fannst ég algjörlega máttvana að horfast í augu við þau. - Datt í hug Díana vinkona mín.
Í athvarfinu búa á milli 3-400 börn og ungar konur. Mörg hver með eyðni og stúlkunum hefur verið bjargað úr vændishúsum oft á Indlandi. Þarna var nægilegt húsnæði, allt hreint og óeðlilega snyrtilegt. Börnin svo öguð að mér var ekki alveg sama, en þau hafa mat og húsaskjól og þau ganga í skóla og þau eiga þarna athvarf þar til þau eru orðin fjárhagslega fær um að standa undir sér. Eftir menningardagskrá þar sem börnin sungu og dönsuðu og fögnuðu gestunum var okkur boðið inn í fundarsal þar sem níu ungar konur sátu. Þær voru á aldrinum 13-20 ára og höfðu allar verið seldar mansali. Við máttum spyrja þær að vild. Lýsingarnar á ofbeldi og pyntingum og hræðilegri meðferð voru svakalegar. Ein var algjörlega steinrunnin, það var stutt síðan hún náðist. Ein var illa bækluð því hún bjargaði sér með því að stökkva út um glugga á þriðju hæð. Okkur var boðið inn á sjúkrastofu til stúlku sem var lömuð eftir pyntingar. Þær vissu allar að við vorum að vinna í hliðstæðum málum og voru opnar um það sem þær höfðu upplifað. Þær treysta engum, þær eru útskúfaðar frá fjölskyldum sínum þar sem þær eru smitaðar og þær vita að þeirra bíður bara hægur dauði. Mér fannst þær þó hafa mikinn styrk af hverri annarri kunnuglegt frá Stígamótum. Ég gat ekki sofið um nóttina yfir þessari heimsókn, en daginn eftir byrjaði ævintýrið okkar Tomma.
Mánudagurinn 10.12.07
Chitwan þjóðgarðurinn
Við vorum svo heppin að ein úr hópnum sem ég kynntist var að koma úr þjóðgarðinum og ég bað um alveg eins ferð. Við flugum til Bahratpur. Þar beið okkar maður sem keyrði okkur í einn og hálfan tíma um sveitir Nepal. Við vorum með hökuna niður á maga allan tímann, það var svo merkilegt að sjá lífið meðfram þjóðveginum. Alls staðar allir að vinna heima, í örlitlum garðskikum, með eina belju eða geit, safna eldiviði, þvo þvott á hækjum sér úr örlitlu vatni, hreinsa hálm til þess að dytta að húskofum. Víða konur á hækjum sér við opinn eld að elda. Margir að reyna að selja einhverjum eitthvað smávegis,. Lagerinn gat verið 20 tyggjópakkar, korn, mandarínur eða annað smálegt. Á leiðinni keyrðum við framhjá rosalegu umferðarslysi þar sem tveir trukkar höfðu smullið saman í klessu, augljóslega réttáður. Ég get ekki ímyndað mér að bílstjórarnir hafi lifað þetta af það stóðu menn hjá og voru að hringja. Bílstjórinn okkar keyrði framhjá og ég viðurkenni að ég var fegin. Gat ekki hugsað mér að horfa á hryllinginn.
Bíllinn keyrði inn á sveitaveg sem sumstaðar var illgreinanlegur. Krakkarnir allir vinkuðu og brostu til okkar, sumir hlupu á eftir bílnum. Svo keyrðum við niður að á þar sem okkar beið lítill trébátur ábyggilega hundrað ára og ferjumaður til þess að flytja okkur yfir í þjóðgarðinn. Hvergi nein byggð eða merki um fólk, bara frumskógur. Áin var breið og tiltölulega lygn og ég vissi að í henni eru tvenns konar krókudílar. Þessir fáséðu sem eru í útrýmingarhættu og éta bara fisk og svo hinir sem éta hvað sem að kjafti kemur. Bátsferðin var unaðsleg. Kyrrðin og fegurðin og róin voru svo heilandi eftir áreiti undanfarinna daga að ég hefði getað setið þarna til eilífðar. Árbakkanum hinum megin tóku tveir menn á móti okkur í litlum kofa og færðu okkur ávaxtadrykk og blessuðu okkur með því að setja rauðan lit á ennið á okkur og annar þeirra keyrði okkur svo í opnum jeppa að Tiger Temple. Mér fannst unaðslegt að við vorum bara tvö og hversu notalegir Nepalarnir voru við okkur. Á leiðinni sáum við bæði apa og dádýr.
Í Chitwan þjóðgarðinum ku vera nokkrir ferðamannastaðir sem bjóða upp á fílsferðir um skóginn. Vegna Maóista sem hafa stundað hryðjuverk, dráp og rán undanfarin ár hefur ferðamannastraumurinn hrunið og staðirnir hafa margir lokað eða hafa takmarkað umsvifin. Þar sem við vorum voru um 30 lítil bjálkahús, opið eldstæði og matsalur. Alls staðar fallegt, tré, bast og stráþök. Við fengum lítinn kofa með öllum þægindum, m.a. hitapoka í rúmið á kvöldin þegar fór að kólna og allt varð vott af dögg.
Við komuna var okkur gefið að borða og svo vorum við drifin í fyrstu fílaferðina. Í það skiptið var farið á tveimur fílum fimm á hverjum fíl. Unaðsleg og vinaleg dýr. Er hægt að hugsa sér eitthvað notalegra en að ferðast í rólegheitunum á fíl um svæði sem erfitt er að komast um öðru vísi. Það var alltaf steinhljóð í þessum ferðum til þess að fæla ekki dýr. Í ferðinni sáum við fullt af nashyrningum, apa og dádýr. Einhyrndi nashyrningurinn ku drepa fleira fólk en önnur dýr, en hann er í útrýmingarhættu og í garðinum eru nú líkllega 372 dýr. Okkur var sagt að Georg bretakóngur og annað breskt kóngafólk hefði slátrað tígrisdýrum og nashyrningum þannig að stofnarnir hafa ekki náð sér eftir það.
Um kvöldið var boðið upp á myndasýningu og fróðleik og okkur harðbannað að hreyfa okkur út úr húsi án fylgdar. Á svæðinu eru talin vera 102 tígrisdýr og í júní í ár réðst tígrisdýr að einum starfsmanni Tiger Temple, einmitt þarna þar sem við vorum og drap hann. Allir voru slegnir yfir þessu, en fólk gat ekki lagt upp laupana. Afkoman var í húfi.
Einn leiðsögumaðurinn sagði okkur Tomma í hálfum hljóðum að það hefði verið kollegi sinn Alexander sem var á leið til vinnu í svartamyrkri kl. 6 að morgni. Tígrisdýrið beið hans utan við kofann, reif af honum hausinn og skildi eftir, át af honum lærið og fór með restina upp í tré.
Þriðjudagurinn 11.12.07
Fílar, bátsferð og e.t.v. tígrisdýr??
Daginn eftir fórum við Tommi ein í leiðangur með leiðsögumanni, ásamt fílamanninum sem stjórnaði fílnum. Við fórum í tveggja tíma reiðtúr, m.a. um fílagras sem er um 8 metra hátt góður felustaður fyrir tígrisdýr - og enduðum á árbakkanum langt ofan við staðinn sem við lögðum upp frá. Þar biðu tveir fiskimenn eftir okkur í örlitla trébátnum sínum. Berfættir og brosandi. Við fórum um borð og þeir sigldu með okkur niður ána. Kyrrðin og þögnin engu lík, sami ferðamáti og fólk hefur notað hér um aldir. Við sigldum í klukkutíma og sáum nokkra litla hópa af fiskimönnum á holum eintrjáningum og með einföld net að veiða. Sumstaðar voru kona og karl saman á þessum litu holuðu trjábútum innan um krókodílana. Við sáum einn af þessum sjaldgæfu fiskétandi, hvíla sig á árbakkanum. Skrýtið dýr með örmjótt og langt trýni. Konurnar í fallega litum sahri. Þetta er neaura fólk sem hefur lifað við óbreyttar aðstæður frá ómunatíð. Býr í litum strákofum með opin eldstæði undir berum himni.
Seinna um daginn var boðið uppá nature walk. Við fórum með leiðsögumanninum gangandi inn í skóginn. Skynsemin sagði mér að þetta væri óðs manns æði, en jafnframt var þetta óhemju spennandi. Einu vopnin sem við höfðum voru tréstafir. Með okkur fóru 6 aðrir ferðamenn og mér fannst gott að vera hjarðdýr. Bara 2/9 líkur á að tígrisdýr myndi velja mig eða Tomma. Held samt að tígrisdýri myndi þykja ég girnileg bráð. Á tveimur stöðum sáum við tígrisdýraspor. Á öðrum staðnum var um gamalt dýr að ræða. Veit ekki af hverju, en ég var ekki hrædd. Mér fannst þetta bara spennandi og vonaði og vonaði samt ekki að við myndum rekast á tígrisdýr. Ef við mættum tígrisdýri var um að gera að hlaupa ekki af stað heldur horfast í augu við það og bakka rólega. Okkur var sagt að ef við finndum nashyrning ættum við að kasta okkur ofan í holu ef við fyndum einhverja. Annars ættum við að henda einhverju í áttina að þeim t.d. fötum, fela okkur á bak við tré eða hlaupa sik sakk undan þeim. Við sáum fullt af alls kyns dýrasporum bæði eftir nashyrninga, dádýr, sjakala, býsonuxa og ýmislegt fleira. Dásamleg ferð.
Miðvikudagurinn 12.10.07
Í myrkri frumskógarins
Á þriðja degi sem var burtfarardagur vorum við Tommi vakin kl. 5.30 með kaffi í rúmið. Síðan fórum við tvö með fílamanni í kolniðamyrkri af stað út í frumskóginn. Okkur var fylgt frá kofadyrunum og þar til við vorum komin upp á fílinn. Þeir hafa ekki efni á að láta éta fyrir sér ferðamenn. Í byrjun sá ég ekki handaskil en svo upplifðum við dögunina úti í þéttum skóginum. Ólýsanleg reynsla. Síðan fórum við aftur til Kathmandu dálítið óróleg þar sem við höfum ekki pantað hótel. Við settum undir okkur hausinn og ákváðum að treysta bara Lonely planet og létum keyra okkur á þann stað sem þeir mæla með hér í bæ. Fengum snyrtilegt herbergi fyrir hlægilegan pening og ætlum að gista hér þar til við förum til Indlands. Fara dagsferðir út úr borginni.
Kathmandu
Af hverju hefur enginn skrifað um það í Lonely planet eða í öðrum bókum um þennan stað að borgin er einn samfelldur ruslahaugur? Í alvöru. Öllu rusli er hent út á götu og þar er það. Sumstaðar eru næstum mannhæðarháir haugar og ég þarf að hafa mig alla við að panikera ekki. Ég hata rottur og mýs og ég veit að hér er allt morandi og ég næ ekki að slappa af, glápandi upp í loftið til þess að forðast að sjá.... Hér sáum við dauðan- alla vega meðvitundarlausan - mann á götu í gær með hausinn á grúfu í götuna. Við vorum sammála um að líklega væri hann dáinn, bara svona innan um hitt fólkið. Tvo hunda deyjandi, e.t.v. með hundaæði, lítinn koldrullugan krakka berrassaðan með betlandi móður á götuhorni í kuldanum, ekki eins árs, holdsveikt fólk og rusl, rusl, rusl og bíla sem keyra á flautunni ég fékk sjokkið í gær. Gat ekki meira og fór næstum að gráta. Tommi skildi mig ekki, hann var búinn að vera að kanna borgina í tvo daga þegar ég var á fundum og var orðinn sjóaðari. Heimtaði að komast inn á hótel í leigubíl,strax...... Hvernig er hægt að ganga framhjá börnum í þessari aðstöðu og á hinn bóginn hvernig er hægt að hjálpa þeim öllum. Það skall á mér hversu lífsbaráttan getur verið miskunarlaus. Ég fylltist fullkomnum vanmætti, það geri ég ekki oft og það er andstyggileg tilfinning.
Fimmtudagurinn 13.12.07
Ég er enn að jafna mig eftir menningarsjokkið í gær. Tommi fór út í bæ að skoða útivistarbúðirnar. Þær eru fullar af Nepölskum eftirlíkingum af merkjafatnaði fyrir 1/10 af vestrænu verði. Mér finnst ég vera komin með blýeitrun í lungum af gífurlegri menguninni hérna.
Athugasemdir
Elsku Guðrún og Tommi! Haldið áfram að njóta ævintýris lífs ykkar! Við fylgjumst með hérna heima.
Ég hugsa oft um logandi ljósið í Kristianssand og vona að það slökkni sem fyrst! Það er sorglegt að hugsa til aðstæðna allra þessara barna sem þú talar um - stúlknanna og allra hinna!!! Gæti grátið svolítið með þér!
Hlýjar kveðjur að heiman.
Systir þín á Íslandi (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 08:31
Þetta er greinilega mikil ævintýraferð hjá ykkur. Þú færð að kynnast hræðilegum hlutum sem ég get ekki einu sinni ímyndað mér þrátt fyrir lesturinn - sit bara með tárin í augunum og gæsahúð. Held ég mundi sjálf gjörsamlega brotna niður að horfa upp á öll munaðarlausu börnin til dæmis.
En þið fáið líka að kynnast fegurðu landsins og náttúrunnar og er það góð viðbót á vogaskálina.
Hafið það gott og vonandi verður ferðin áfram full af ævintýrum.
Dísa Dóra, 13.12.2007 kl. 08:37
ÞETTA ER ROSALEGT!!! táraðist þrisvar.
Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 11:08
jeeesús. rosalegast þetta með kallinn sem var étinn og berrassaða barnið.
þóra (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 11:49
Gott að heyra frá ykkur elsku samstarfskona. Gangi ykkur vel með restina af ferðinni. það er allt í þessu fína á heimavígstöðvunum
Kveðja með knúsi
Thelma Ásdísardóttir, 13.12.2007 kl. 14:18
Úff þetta er ekkert smá ævintýri sem þið eruð að upplifa, ég væri alveg til í svona:) Njótið í botn!! Kær kveðja
Björg (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 23:39
Hræðilegt!!!
Ætla bara að lesa valda kafla fyrir barnabörnin ykkar í dag þar sem við sitjum með kertaljós og njótum þess að mega ekki fara út úr húsi. Stuð hér...
Sóley
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 08:09
Þvílikt ævintýri! Njótið vel og takk fyrir að lofa okkur að fylgjast með.
Halldóra Halldórsdóttir, 14.12.2007 kl. 18:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.