12.11.2007 | 09:55
Ferðaplön
Eins og áður hefur verið skrifað um í þessari einkennilegu dagbók, þá erum við hjónin á leið til Asíu. Einhverra hluta vegna féllust mér hendur yfir þessum framandi og yfirþyrmandi heimshluta og ég vissi ekki hvernig við ættum að nýta þetta dýrmæta tækifæri. Ég get meira að segja viðurkennt að mig langaði hálfpartinn til þess að hætta við, sá bara fyrir mér rottur, niðurgang, malaríu og ræningja. Einkennilegt að hafa þurft að fara í gegnum þann fasa - ég sem hef þá staðföstu trú að ekkert geti komið fyrir mig eða mína. Við erum búin að fara í sprautur, senda út vegabréf til þess að fá vísa, erum komin með farmiðana í hendurnar svo þetta verður æ raunverulegra og nú er tilhlökkunin orðin kvíðanum yfirsterkari.
Náði mér í Lonely planet bækur um Nepal og Indland og hef sökkt mér í þær. Ég held að við séum komin með grófa ferðaáætlun sem síðan þarf að fylla upp í. Margrét Steinars vinkona mín er nýkomin heim frá Indlandi - þær urðu reyndar allar veikar í hennar hópi og tvær úr hópnum þurftu á sjúkrahús, en hún lifði þetta af og þótti ævintýri.
En ég er svo heppin að Sóley systir mín og besta vinkona er stödd á Indlandi núna. Hún er í mikilli ævintýraferð með frumlegri ferðaskrifstofu. Hún er búin að fara í þriggja daga úlfaldasafari og gista í kofa sem var gerður úr kúamykju, fara í dásamlegan þjóðgarð, búa hjá heimafólki, heimsækja skrítna þjóðflokka og ótal, ótal margt fleira. Hún er nógu lík mér til þess að hafa setið í bílnum á meðan hópurinn fór í rottuhofið og ég get ekki beðið eftir að ferðinni ljúki svo ég geti fengið díteils. Ég þigg ennþá góð ráð, ætla að undirbúa mig eins vel og ég mögulega get.
Athugasemdir
Vá hvað svona ferð hljómar spennandi og skemmtileg
Dísa Dóra, 12.11.2007 kl. 16:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.