Og ég sem hélt að ég væri sérfræðingur í ofbeldismálum!

Ég var að koma frá  Litháen af ráðstefnu og fundum Evrópsku athvarfahreyfingarinnar.  Á þeim vettvangi fílaði ég mig pottþétta,  reynda og með fyllstu yfirsýn yfir ofbeldisrannsóknir, aðgerðir og úrræði.

Í fyrrakvöld lagðist þessi sjálfsörugga og reynda kona til svefns og vaknaði um miðja nótt við einkennileg hljóð.  Fyrst fannst mér eins og það væru breimandi kettir fyrir  utan og svo fannst mér  hálfpartinn eins og verið væri að pína einhvern.  Hlustaði vandlega eftir því hvort það heyrðust kvenraddir, en það var  ekki og ég ákvað að þetta væru einhverjir fullir kallar að rugla úti á  götu og sofnaði aftur.  Skömmu síðar vaknaði ég við öskureiðar raddir karla sem kölluðust á líklega yfir götuna á máli sem ég skildi ekkert í.  Hávaðinn magnaðist en ég sá ekkert þar sem  ég var á efstu hæð og sá aðeins litháensk húsþök.  Allt í einu hvað við skothvellur. Raddirnar þögnuðu smástund, en svo kom annað skot og loks það þriðja.  Það þagnaði allt.  Mér  fannst þetta ansi óhuggulegt, leit á klukkuna og hún var 04.08 þegar síðasti skothvellurinn heyrðist.  Ég beið í ofvæni eftir  sírenum og látum en ekkert gerðist.  Ég var alveg handviss um að allir á hótelinu hefðu heyrt þetta og öryggisverðirnir hefðu kallað á lögreglu ef einhver  hefði  særst.  Skömmu síðar heyrðist í bíl sem kom æðandi á hvínandi ferð og skransaði eins og í dúndrandi hasarmynd og fór svo aftur  á  fullri ferð.  Þar  sem ég heyrði ekki meira ákvað ég með sjálfri mér að þessir brjálæðingar hefðu verið að ógna hverjir  öðrum og málið væri úr sögunni. Svaf þó ekki meira þessa  nótt.  Þegar  ég kom niður  um morguninn könnuðust vinkonur  mínar ekki við neinn hávaða en sögðust hafa séð sjúkrabíl utan við hótelið snemma  um morguninn.  Önnur sagðist hafa séð blóð úti á  götu.  Þegar ég fór út sá ég þrjá blóðpolla þrátt fyrir  rigninguna úti.  Mér fannst augljóst að einhver hefði a.m.k. verið særður. Hringdi í lögregluna sem staðfesti að það hefði verið skotbardagi fyrir utan hótelið og þeir vissu allt um málið. 

Á flugvellinum á leiðinni heim gat Sashja vinkona mín frá Serbíu ekki tékkað sig inn um leið og ég, svo við fengum okkur kaffi á  kaffiteríunni. Þar tók ég eftir að það sátu einir 18-20 karlar saman við langt borð við hliðina á okkur.  Það var verið að bera í  þá  mat og þeir voru með vín og virtust æði glaðir og yndælir karlar, greinilega frá Rússlandi.   Skömmu síðar er mér  litið í átt til  dyra.  Þar stóð kona sem leit yfir hópinn og það bókstaflega gneistaði af henni.  Hún var svo reið að að ég hef sjaldan séð annað eins.  Hún gekk rakleiðis að hópnum sem ekki hafði orðið hennar var, gekk að einum karlinum og sló hann roknahöggi í andlitið.  Hún lét ekki staðar numið, heldur tók matardiskinn hans sem var kúfaður af mat og þeytti yfir karlinn svo hann  sat lamaður með salat og sósu drjúpandi niður eftir sér.  Það lamaðist allur matsalurinn og mómentið fraus.  Einhver  friðelskandi karl reyndi að ganga á milli og róa konuna, en hún lét ekki segjast og hefði örugglega drepið karlinn sem hún var svona reið við ef hún hefði bara getað það.  Karlinn stóð upp, fór í jakkann sinn og svo gengu þau saman út.  Við Sashja á eftir til þess fylgjast með hvort hann réðist á hana, en svo var ekki.  Þau leiddust bara  í burtu.

Var eiginlega alveg orðlaus eftir  þessa reynslu og finnst ég lítið vita um þennan ljóta heim.  Gott að vera komin heim til mín þar sem allt er bara gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dísa Dóra

úffffff já þetta er svo sannarlega skrítinn og jafnframt ljótur heimur ofbeldisheimurinn.  Ég er nú nokkuð viss um að þrátt fyrir að ég hafi lifað í þessum heimi í hart nær 10 ár þá veit ég mjög lítið um hann samt og skil stundum bara ekkert í honum.  Eða ég skil enn ekki hvað gerir að ein manneskja getur beitt aðra ofbeldi - skil aðeins betur hvernig það er að gera ótrúlegustu hluti til að afsaka ofbeldi og reyna að forðast að það gerist.  En þetta eru ekki sami hluturinn þó hann sé vissulega sitthvor hliðin á sama pening í raun.

Dísa Dóra, 21.10.2007 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband