Fljótstunguhlaupið!

IMG_0254IMG_0262IMG_0255Pabbi minn er einn af sjö systkinum frá Fljótstungu í Hvítársíðu.  Þar bjuggu afi og amma og líka langamma og langafi seinni hluta æfinnar.  Imba föðursystir mín bjó þar megnið af minni æfi ásamt Árna manninum sínum og ég var stundum í sveit hjá henni þegar ég var ekki hjá Rúnu föðursystur minni á Húsafelli.  Þegar  Imba brá búi, keypti Kristín Þorbjörg Halldórsdóttir frænka mín og Bjarni Johansen maðurinn hennar jörðina. Þau seldu fínt hús í Borgarnesi og ákváðu að hverfa aftur til náttúrunnar og rótanna upp við jökla.  Þetta verður seint fullþakkað, því þannig hélst jörðin innan fjölskyldunnar.  Stína var elsta barnabarn ömmu og afa og tók það hlutverk alvarlega en með mikilli gleði. Hún dekraði við móðursystkini sín meira en nokkur annar afkomandi og henni var í mun að við nytum þess öll að jörðin væri enn í eign fjölskyldunnar. Við Stína vorum saman í sveit á Húsafelli, bjuggum samtímis í Noregi og heimsóttumst á ýmsa staði.  Hún tók alltaf á móti mér af öllu hjarta og var ein af uppáhalds frænkunum mínum.  Hún lést fyrir tæpum þremur árum, þá 54 ára. Ég tárast enn þegar ég tala eða skrifa um hana. Eitt af því sem Stína bauð uppá í nokkur ár var Fljótstunguhlaupið. 

Það er enn kallað Fljótstunguhlaupið vegna þess að einhverjir úr ættinni (lesist aðallega Margrét blessunin systir mín og örfáir aðrir) stungu upp á að fjölskyldan tæki upp á að hlaupa saman langhlaup, helst tíu kílómetra eða meira.  Þessu var tekið með mikilli gleði því allir vildu hittast, þó nær engum dytti í hug að hlaupa nema e.t.v. ef um líf væri að tefla.  Til að byrja með var boðið upp á ýmsar íþróttagreinar.  Það var skeifukast fyrstu árin. Ég man  eftir okkur Hóa frænda þar sem við lágum í heyinu í fjárhúshlöðunni og það var verið að spila Botsja.  Hói hafði á orði að þessi íþrótt væri einna áhugaverðust fyrir okkur, við gætum hugsanlega kastað bolta eitthvað út á hlöðugólfið án þess að hafa mikið fyrir því.  Sérstaklega ef einhver kæmi svo með boltann aftur til okkar.  Ég var sammála, en við höfum þó ekki hafið æfingar enn.  Í gær var Fljótstunguhlaupið og nú var búið að leggja  af bæði skeifukast og botsja.  Margir gengu frá Tungu  sem er sumarbústaðurinn hennar Margrétar og upp að Fljótstungu í rólegheitum í góðu veðri.  Eins og alltaf var gaman að hittast.  Við Tommi fórum með Sóleyju, Kristínu, Garðar, Önnu, Tomma og Kötluna.  Sóley naut þess hvað krakkarnir voru ánægðir þegar  þau veltust með frændsystkinum sínum niður brekkuna og um túnið og mér varð hugsað til þeirra tveggja kynslóða sem ég man eftir á undan þeim í þessari sömu brekku.  Mér fannst gaman að vera þarna með pabba og Palla, Rúnu, Gyðu og Guðrúnu systkinunum frá Fljótstungu. Saknaði þess að Imba kom ekki í þetta skiptið.  Þarna vorum við líka systkinabörnin og makar okkar. Börnin okkar, barnabörn og tengdabörn.  Á hverju ári þarf að kynna ný börn og ný tengdabörn og ef ekki væri fyrir Fljótstunguhlaupið myndum við e.t.v. ekki þekkjast.  Þökk veri Bjarna og krökkunum hennar Stínu, þeim Önnu Björk, Guðrúnu Hörpu, Ragnheiði Lilju og Halldóri Heiðari fyrir að halda þessum samkomum áfram eftir fráfall Stínu. Í gegnum sína myndarlegu krakka lifir hún ennþá.   Amma mín og afi eru eilíf í gegnum þennan sæg af fólki sem leikur sér í brekkunni hvert ár.  

Skelli hér með myndum frá "Hlaupinu" 2004, gleymdi að taka myndir í ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband