4.4.2007 | 19:49
"Meðfædd andlitsblinda"
Ég hélt ég væri svo vel verkuð eftir margra ára handleiðslu og leiðsögn. En ég hef ennþá einstaka veikleika og einn af þeim er skelfilegur. Mér er ómögulegt að þekkja fólk á förnum vegi og hef skandaliserað ótal sinnum. Virkilega skandaliserað. Þetta virkar eins og argasti hroki og mér leiðist það. Dætur mínar hafa lítinn húmor fyrir þessum veikleika og Kristín kynnir allar sínar vinkonur fyrir mér hátt og skýrt í hvert skipti sem ég hitti þær - svona til öryggis. Og Krissan mín hefur því miður ástæðu til þess að slá þennan varnagla. Þegar ég var lítil stúlka í sveit þar sem mér langoftast leið vel, kom það fyrir að ég saknaði foreldra minna og systkina. Þá fannst mér verst að mér var ómögulegt að kalla fram andlitin í fjölskyldu minni.
Í dag var ég í handleiðslu hjá frábærum handleiðara í frábærum starfshópi. Þar kom sögu að ein samstarfskona mín sagði án þess að hiksta að hún væri greind með andlitsblindu og önnur hélt áfram eins og ekkert væri að tala um meðfædda andlitsblindu. Þegar ég hváði- talaði hún eins og þetta væri alþekkt. Andlitsblint fólk væri ónæmt á andlit og gerði ekki meiri greinarmun á andlitum en t.d. hnjám fólks. Takk fyrir! Meðfædd andlitsblinda er til og ég er haldin henni. Ekki bara ég, Beggi bróðir er bæði litblindur og andlitsblindur. Þetta er ættgengt. Ég get ekkert að þessu gert, ég fæddist svona og bið fólk vinsamlegast að kynna sig fyrir mér þegar það reynir að heilsa mér og ég set upp hálfbrosið vandræðalega.
Athugasemdir
Oh.. það er svo mikill léttir þegar maður fær skýringar á því sem hefur verið að trufla. Gott innlegg - áreiðanlega margir sem fá svör við eigin vangaveltum. Já - morguninn var góður.
Halldóra Halldórsdóttir, 4.4.2007 kl. 20:10
Segðu söguna af því þegar Beggi hellti sér yfir manninn í röðinni í bankanum. Hún er best! Knús, systir þín sem er andlitssjóndöpur
Margrét (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 22:33
Nei, ekki fara að segja sögur mamma, þær eru of pínlegar!
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 00:33
Ég held að það sé alveg óhætt að telja elstu systur þína með í þennan andlitsblindu pakka. Hvernig er annars hægt að útskýra það að hún heilsaði einum og sama manninum þrisvar sama daginn á sama staðnum, fullviss um að hún hafi verið að heilsa þremur mönnum?
Kristín Björk (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 22:55
Mikið er gott að heyra þetta. Núna veit ég að til er nafn yfir það sem ég hef alltaf þurft að kljást við og eins og þú oft skapað skandal yfir.
Ekki skemmtilegt að þekkja ekki náfrændfólk á förnum vegi eða einhvern sem þú ert vön að sjá í ákveðnum aðstæðum en bara þekkir ekki þegar þú sérð viðkomandi í öðrum aðstæðum. Andlits og nafnablinda er kannski eitthvað samtengd
Dísa Styrkskona :) (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 08:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.