Leikfangamenningin á Hóli

Dætur mínar ræða stundum sín á  milli  hræðilega bernsku sína.  Hversu ljót fötin þeirra voru og hversu illa hafi verið búið að þeim á marga vegu.  Eitt af uppáhaldsumræðuefnunum er hversu slæma foreldra þær  hafi átt.  Þær  komast virkilega á flug þegar  þær ræða hvað þær  hafi þurft að  skammast sín  fyrir mig og svo fara þær  að þylja dæmi sem ég  er  ekki farin að skilja  ennþá.  Það er  ekkert sem sameinar  þær eins og þessar minningar.......nýbúin að átta mig á því að það er  helber aumingjaskapur að skammast sín fyrir foreldra sína.  Fyrir  nú utan  það hversu nauðalíkar þær  eru mér í mörgum  háttum!

Í vikunni var  Kristín dóttir  mín hér í heimsókn með Guðmundu vinkonu sinni. Hún var sem oftar að lýsa hræðilegri bernsku sinni og tók sem dæmi phonyhestana  sem hún sagði að ALLIR hefðu átt í mörgum litum, m.a. Þóra  systir  sín......en veistu hvað ég lék mér með sagði hún grátklökkri röddu?  Fór inn og náði í fallegan  steinhest sem ég hafði keypt  í  Rússlandi á þessum  árum. So what? Held hún hafi fellt tár yfir harðræðinu. 

Ég er svona á efri árum að  gera upp ýmislegt í lífinu. Eitt af því sem ég held að mér hafi tekist vel með er að moka ekki dóti í  afkomendur  mína.  Það var lesið fyrir  þau, talað við þau vonandi, dætur mínar sulluðu og léku í  sandi og kubbuðu og það var  farið með þær í ýmis ferðalög, mikið í sund og á skíði.  En það mikilvæga er að leikina sína sköpuðu þær sjálfar og ég hef aldrei vorkennt þeim það.  Held það hafi verið  uppeldislega mikilvægt.   Núna kaupi ég oft eitthvað skemmtilegt í Hemsleys dótabúðinni á Heathrow  í London. Þar fást skemmtileg og skapandi leikföng sem eru til  þess fallin að  þroska og skemmta en ekki troða börnum inn í kynhlutverk. 

Það eru þó undantekningar  frá þessari meginreglu.  Fyrir nokkrum árum var Tommsinn minn heillaður  af sjóræningjum og við fórum og versluðum okkur flott og  skemmtilegt sjóræningjaskip.   Skipinu fylgdu margir sjóræningjar úr  harðplasti.  Flest allir rosalegum vopnum búnir.  Við Tommi sömdum um það fyrirfram að ég myndi fjarlægja vopnin og ég klippti þau öll samviskusamlega af þeim.  Skipið hefur verið mikið notað, en þó aldrei náð þeim vinsældum sem skóhornið og klósettrúlluhaldarinn höfðu á sínum  tíma í augum dóttursonar míns. 

Í vikunni fórum við Katlan mín í dótabúð og keyptum dúkku og dúkkukerru.  Ég klemmdi aftur augun og óð í gegnum fleiri hillumetra  af hörmulegu kynhlutverkadóti og fann mátulega litla dúkku og kerru fyrir hana. Hún elskar dúkkur  og það er  unaður að fylgjast með  henni.  


Hekla og Katla

Eftir að dætur mínar fluttu að heiman hurfu vinkonur þeirra með þeim.  Mér finnst þess vegna alltaf gaman  þegar  gamlir heimalningar kíkja við hjá okkur.  Í dag komu þær til okkar Guðmunda stórvinkona okkar allra og frænka og litla Heklan hennar.  Katlan okkar hefur verið  hér  síðan um helgi því mamma hennar er í útlöndum.  Það voru frekar fallegar litlar  eldfjallastelpur  sem léku sér hér á  gólfinu í kvöld.


Kærkomin hvíld

IMG_2688Dagurinn í dag var fyrsti dagurinn sem ég átti ein og sjálf í langan tíma.  Við tókum daginn snemma og fórum  í  tveggja tíma göngutúr með vinunum okkar góðu og svo í súpu eftir það. Svei mér þá, það er fátt sem gefur mér jafn mikla orku.  Hvað eru lífsgæði ef ekki það að eiga góða vini sem alltaf er jafn gaman að hitta og leika sér með?

Þessi mynd er frá Látrabjargi í sumar og næsta sumar ætlum við í Lónið.......... kemst í gegnum hvað sem er með slíka gulrót fyrir framan mig.


Ef ég svara ekki símanum...

Garðar tengdasonur minn og Kristín dóttir mín keyptu með okkur Tomma nýja farsíma í NY.  Þeir ku vera  bráðnauðsynlegir og sáraeinfaldir.  Hægt að  hlusta á tónlist í þeim, taka myndir, skoða tölvupóst og dagbók, skreppa á netið og ég man ekki meira.  Það eina er að fyrirbærið hlýðir mér ekki nema því henti.  Stundum get ég ekki hringt, stundum ekki svarað og í gær heyrði ég borðið mitt tala og skildi ekki neitt í neinu þar  til ég áttaði mig á að það var einhver að tala í nýja símtækinu mínu.  Alveg bara bráðnauðsynlegt tæki.

Ný byrjun?

Ég fékk hræðilega martröð um daginn úti í NY. Það var nóttina áður en ég hélt innleggið mitt og ég svaf ekki meira þá nótt.  Mig dreymdi að ég horfði á orustuflugvél hrapa rétt hjá mér.  Það voru herþyrlur á sveimi og ég vissi að ég var í mikilli hættu.  Dóra hin djúpvitra samstarfskona mín reyndi að hugga mig og sagði að þetta gæti bara verið nýtt upphaf að einhverju.  Ég gæti hafa verið að jarða gamlan hugsunarhátt eða starfsaðferðir.  Hef hangið á því síðan. 

Á hverju ári opnum við nýjar listasýningar á Stígó.  Áðan kom Abba gömul skólasystir mín úr líffræðinni til mín á Stígamót að hengja upp eftir sig dásamleg málverk í "mínu herbergi".   Hún kom með svani sem eru að þenja vængina og hefja sig til flugs.  Hvílíkar undraskepnur.  Svanir, svo miklar hlussur en samt svo glæsilegir þegar þeir taka flugið. Svo blíðir en samt svo grimmir.  Svo tignarlegir og kraftmiklir.  Kraftgjafar........


Að verða tveggja ára

Ég keypti afmæliskjól í útlöndum fyrir minnstuna mína.  Hún er að verða  tveggja  ára og við erum dálítið að undirbúa.  Það sem heillar hana  mest er að mamma hennar ætlar  að kaupa  blöðrur og hún  ætlar  að bjóða Önnu og Tomma.  Hvað lífið getur  verið einfalt og gott

Alþjóðleg feministafréttastofa - auðvitað!

IMG_1013IMG_1022IMG_0989Hér í New York hef ég komist í tæri við fyrstu alþjóðlegu feminstafréttastöðina. Það eru þær Auður Alfífa Ketilsdóttir og Kristín Tómasdóttir sem reka hana og ég spái því að þetta sé bara blábyrjunin á tilveru stöðvarinnar.  Fréttastofustýrurnar eru þó gamlar í hettunni,  því þær stýrðu feministaþættinum Óþekkt á NFS þegar sú stöð var og hét.   Fyrir áhugasama skal bent á að slóðin er www.feministafrettir.blog.is  

Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af tökukonu í aksjón og frá NYskrifstofu fréttastöðvarinnar, sem jafnframt þjónaði sem klippiherbergi og vistarvera. 


Klaufi

Stígó 037Ég var með það einhvers staðar í undirmeðvitundinni að tvær samstarfskonur mínar ættu tíu ára starfsafmæli á árinu. Það hefur gerst tvisvar áður  á Stígó og því var fagnað veglega.  Þessar kempur sem nú eru að bætast í tíu ára  hópinn eru þær  Björg og Þórunn.  Svo sló því niður í hausinn á  mér að Þórunn ætti tíu ára starfsafmæli núna á morgun þann 1. mars og mér  datt í hug að við ættum aldeilis að  koma  henni á óvart og gleðja  hana.  Hnippti í tvær  aðrar  samstarfskonur  mínar sem voru hjartanlega sammála.  Þær tóku að sér að koma boðum til Bjargar  sem er  lunkin í svona málum.  Þegar Ingibjörg lét boð ganga til Bjargar um að nú þyrftum við að gera eitthvað fyrir  Þórunni á morgun vegna starfsafmælis hennar og passa upp á að Þórunn fattaði það alls ekki,  varð hún undarleg á svipinn - það er nefnilega Björg sem  á morgun hefur  í tíu ár unnið á Stígó. 

Það fer ekki brosið af Stígamótakerlunum!

IMG_1012IMG_1030IMG_1018Mesti lúxus sem við höfum leyft okkur á Stígamótum er þessi ferð okkar á Kvennanefndarfund Sameinuðu Þjóðanna.  Þökk sé Equality now.  Ég hafði ekki áttað mig á hversu mikilvægt það er næra hópinn á þennan hátt.  Það skal tekið fram samviskusamlega að við erum með trúboðstöskuna, fulla af diskum, herrastígamótanærbuxum og öðrum nauðsynjum.  Í gær var íslenski hliðarviðburðurinn okkar "Growth, power  and fun" og ég ætla að leyfa mér að  segja að hann var allt öðru vísi en allt annað sem hér var í boði og við fengum rosalega góð viðbrögð frá þakklátum áhorfendum sem voru rúmlega hundrað.  Það óvæntasta var fyrirlestur Matthildar Helgadóttur Ísfirðings og myndbrotið sem hún sýndi úr myndinni óbeisluð fegurð.  Áheyrendur sem voru kokteill af kvennahreyfingunni, embættismönnum  og pólitíkusum ætluðu að rifna úr hlátri og það var hlegið stanslaust allan tímann.  Erum að ræða um alheimsfegurðarsamkeppni með sömu formúlu.  Um kvöldið fórum við Þórunn í Metropolitan óperuna og sáum Carmen.  Hakan niðrá bringu  yfir skrautinu, búningunum, sviðsmyndinni, lýsingunni og síðast en ekki síst söngnum.  Ég var dauðuppgefin og eiginlega viss um að ég myndi sofna á fyrsta  hálftímanum,  en það var ekki ein leiðinleg mínúta  þá þrjá og hálfan tíma sem sýningin varði.

Í dag var Coalition against trafficking in women með málstofu og ýmislegt fleira var á boðstólnum, en eftir hádegi skelltum við okkur þrjár á  snyrtistofu og fengjum okkur manicure og pedicure dásamlegt dekur.


Með puttann á alþjóðapúlsinum

IMG_0995Oft hefur mér þótt vinnan mín skemmtileg, en sjaldan eins og í gærkvöldi þegar ég tók á móti samstarfskonum mínum í New York.  Þið hefðuð átt að sjá okkur þegar við gengum hér saman allar í hóp og könnuðum SÞ bygginguna í þaula, skoðuðum dagskrána saman og lögðum á ráðin um hvernig við fengjum sem allra mest útúr ferðinni. Það er svo góð tilfinning að hópurinn allur styrkist og nærist til þess að eiga kraftinn í að takast á við hversdagslífið í vinnunni þar sem stundum gengur æði mikið á.   Þetta gátum við gert vegna stuðnings Equality Now!

Aðalritarinn opnaði fundinn með því að hrinda af stað átaki gegn ofbeldi gegn konum - ekki óviðeigandi.  Við sjálfa opnunina töluðu þrír aðrir aðilar. Einn fulltrúinn var fulltrúi frjálsra félagasamtaka: Taina Bien -Aime framkvæmdastýra Equality now!  Það var góð tilfinning að sjá hana og heyra og ég þandi brjóstið heldur meira en venjulega.

Aðal þemu þessa kvennanefndarfundar eru valdefling og fjármögnun og þess vegna hönnuðum við íslensku félagasamtökin dagskrá undir yfirskrifinni; Growth, Power and fun.  Mun verða með fiðrildi í maganum þar til hún er yfirstaðinn, en það bara fylgir.   Veltum því aðeins fyrir okkur hvort það væri viðeigandi að selja herranærbuxurnar góðu á eftir íslensku dagskránni - erum ekki alveg búnar að gera upp hug okkar. Hér hef ég hitt margar vinkonur mínar úr ólíkustu heimshornum.  Gaman gaman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband