Leikfangamenningin á Hóli

Dætur mínar ræða stundum sín á  milli  hræðilega bernsku sína.  Hversu ljót fötin þeirra voru og hversu illa hafi verið búið að þeim á marga vegu.  Eitt af uppáhaldsumræðuefnunum er hversu slæma foreldra þær  hafi átt.  Þær  komast virkilega á flug þegar  þær ræða hvað þær  hafi þurft að  skammast sín  fyrir mig og svo fara þær  að þylja dæmi sem ég  er  ekki farin að skilja  ennþá.  Það er  ekkert sem sameinar  þær eins og þessar minningar.......nýbúin að átta mig á því að það er  helber aumingjaskapur að skammast sín fyrir foreldra sína.  Fyrir  nú utan  það hversu nauðalíkar þær  eru mér í mörgum  háttum!

Í vikunni var  Kristín dóttir  mín hér í heimsókn með Guðmundu vinkonu sinni. Hún var sem oftar að lýsa hræðilegri bernsku sinni og tók sem dæmi phonyhestana  sem hún sagði að ALLIR hefðu átt í mörgum litum, m.a. Þóra  systir  sín......en veistu hvað ég lék mér með sagði hún grátklökkri röddu?  Fór inn og náði í fallegan  steinhest sem ég hafði keypt  í  Rússlandi á þessum  árum. So what? Held hún hafi fellt tár yfir harðræðinu. 

Ég er svona á efri árum að  gera upp ýmislegt í lífinu. Eitt af því sem ég held að mér hafi tekist vel með er að moka ekki dóti í  afkomendur  mína.  Það var lesið fyrir  þau, talað við þau vonandi, dætur mínar sulluðu og léku í  sandi og kubbuðu og það var  farið með þær í ýmis ferðalög, mikið í sund og á skíði.  En það mikilvæga er að leikina sína sköpuðu þær sjálfar og ég hef aldrei vorkennt þeim það.  Held það hafi verið  uppeldislega mikilvægt.   Núna kaupi ég oft eitthvað skemmtilegt í Hemsleys dótabúðinni á Heathrow  í London. Þar fást skemmtileg og skapandi leikföng sem eru til  þess fallin að  þroska og skemmta en ekki troða börnum inn í kynhlutverk. 

Það eru þó undantekningar  frá þessari meginreglu.  Fyrir nokkrum árum var Tommsinn minn heillaður  af sjóræningjum og við fórum og versluðum okkur flott og  skemmtilegt sjóræningjaskip.   Skipinu fylgdu margir sjóræningjar úr  harðplasti.  Flest allir rosalegum vopnum búnir.  Við Tommi sömdum um það fyrirfram að ég myndi fjarlægja vopnin og ég klippti þau öll samviskusamlega af þeim.  Skipið hefur verið mikið notað, en þó aldrei náð þeim vinsældum sem skóhornið og klósettrúlluhaldarinn höfðu á sínum  tíma í augum dóttursonar míns. 

Í vikunni fórum við Katlan mín í dótabúð og keyptum dúkku og dúkkukerru.  Ég klemmdi aftur augun og óð í gegnum fleiri hillumetra  af hörmulegu kynhlutverkadóti og fann mátulega litla dúkku og kerru fyrir hana. Hún elskar dúkkur  og það er  unaður að fylgjast með  henni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þú hefur þá ekki séð brauðristina sem ég var að spá í að kaupa fyrir hann son minn fyrir jólin?  Fallega bleik brauðrist með tveimur brauðsneiðum sem hægt var að stinga ofaní og láta skjótast upp aftur.  Á aðeins 499 kr.  - spottprís!  Ég var komin með þetta í hendurnar þegar ég tók eftir að á annari hlið brauðristarinnar stóð stórum stöfum: GIRLS ONLY.  Brauðristin fór samstundis upp í hillu aftur, sumu fjárfestir maður einfaldlega ekki í!

Kristín Björk (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 20:19

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góð færsla og skemmtileg. Síðasta athugasemd á undan er mjög fyndin, var þessi brauðrist íeinhverri brandarabúð?

Edda Agnarsdóttir, 16.3.2008 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband