Jafnréttisviðurkenningar Stígamóta verða afhentar í Iðnó á morgun föstudag kl. 13-16

Nú ætla ég að brjóta eigin reglu um aðskilnað einkalífs og vinnu og birta eftirfarandi: 

 Mikilvægt er að benda á þá miklu vinnu sem unnin hefur verið til þess að koma á raunverulegu jafnrétti kynjanna á Íslandi.  Fyrstu jafnréttisviðurkenningar Stígamóta verða veittar við hátíðlega athöfn í Iðnó á morgun föstudag 21. nóv  í tengslum við Evrópumálstofu um kynbundið ofbeldi.  Þannig verður sýnt fram á hversu margbreytileg verkefnin eru. Valkyrjurnar sem toga okkur í rétta átt eru oft ósýnilegar og það sama má segja um vinnuna þeirra.  Þær verðskulda styttur af sér og málverk sem þjóðin ætti að veita þeim, en þakkir og viðurkenningar veita Stígamót með gleði.  Það væri gaman að sjá sem flesta í Iðnó á morgun föstudag kl. 13-16 til þess að hylla okkar konur og til þess að þiggja andlega næringu frá systrum okkar í Evrópu og hlusta á undurfagran söng Önnu Sigríðar Helgadóttur. Við minnum líka á fögnuðinn utan við Norska sendiráðið, Fjólugötu á undan kl. 12.10 þar sem frænkur okkar í Noregi verða hylltar fyrir að hafa komið í gegn lögum um bann við kaupum á vændi. Danskar frænkur okkar ætla að vera utan við norska sendiráðið í Köben með dagskrá undir yfirskriftinni “Ja, vi elsker dette landet” .Það er kærkomið að hafa eitthvað að fagna á þessu landi, nýtum tækifærin!


Skóli lífsins

útför 1útvör 3Tommi og Anna kynntust sorginni í dag eins og sjá má á þessum myndum. Hamsturinn sem Krissan mín gaf þeim dó og Þau grétu svo svakalega að fólk úr öðrum íbúðum bankaði upp á hjá þeim til þess að spyrja hvað í ósköpunum væri á seiði.  Man eftir svona stundum hjá dætrum mínum.   Þær voru alveg óhuggandi. Þetta var ný reynsla og áminning um hverfulleikann.  Í rauninni er það auðvitað dásamlegt að þau skuli vera orðin svona stór og hafi ekki kynnast sorginni.  Þetta herðir ungana mína og býr þau undir lífið.  En fyrir þeim er það að sjálfsögðu grafalvarlegt mál að standa við gröf hamstursins síns, sem amman saknar ekki jafn sárt. 

Hvaða íþróttagrein ætti Tommsinn minn að velja sér?

IMG_0162Hann var að velta því fyrir sér hvaða íþróttagrein hann ætlaði að leggja fyrir sig.  Orðinn sex ára og komið að því að troða honum í einhverja skipulagða dagskrá.  Skil það ekki endilega en það er annað mál.  Það  var ýmislegt nefnt hér  við matarborðið. Skíði eða golf í anda afa, eða fótbolti, nú eða fimleikar?  Ég veit sagði drengurinn minn!  Ólympíuleikar!  Elska þetta barn.


Þetta er ekki barnafangelsi............

Westglow, og fleira 057Katla er  undurflink að  leika sér.   Hún hefur  þvílíkt ímyndunarafl að það er dásamlegt að fylgjast með henni.  En mér brá í brún  þegar  ég sá nýjasta leikinn hennar - að leika sér í hundabúrinu hennar  Freyju.   Úff! 


Og það er slátur í pottinum.........

Hversdagslífið eins og ég man það fyrir  þrjátíu árum er bara fínt.    


Heima að vinna............

Mér finnst alveg himneskt að vera ein í algjöru næði heima hjá mér að vinna. Verður aldrei meira  úr verki.  Í dag ætla ég að lesa yfir drög að framkvæmdaáætlun gegn mansali. Svo ætla ég að skrifa skýrslu fyrir EWL og svo ætla ég að potast áfram með undirbúning að hálfs dags Evrópufundi hér  í næstu viku.  Ég ætla líka væntanlega að hitta unga konu sem var  að skrifa bók um kynferðisofbeldi og hrósa henni fyrir  handritið sitt.   Kannski kíki ég í vinnuna seinni partinn til þess að anda að mér andrúmsloftinu og spjalla við frábærar samstarfskonur  mínar......... svona verður þessi ljómandi góði dagur á  Hóli

Ég held að ég hafi verið að fá hugmynd..........

Bara si svona í sturtunni áðan fannst mér augljóst hvað þyrfti að gera.  Sama tilfinningin og þegar  NKMV urðu til í hausnum á mér 1993.  Og eins og þá velti ég fyrir mér  af hverju þetta hafi ekki þegar verið  gert!  Held að það sé auðvelt að fjármagna  hana,  þarf bara með mér fólkið sem kann þau atriði sem  ég kann ekki. .........  þarf að  hugsa þetta dálítið betur, en einn dag vona ég að ég muni skrifa á bloggið mitt hvernig hugmyndin varð að veruleika.  Það eru enn svo margar  leiðir  til þess að framkvæma  hana að ég þarf að  gæla  við  hana meira áður en ég geri eitthvað  annað.  Svei mér  þá.................

Frá Westglow

IMG_1971IMG_1961IMG_1966IMG_1975IMG_1993IMG_1990


Öfgana á milli

Heima á Íslandi virðist vera yfirvofandi alvarlegri fjármálakreppa en ég ræð við að skilja.  Sjálf er ég akkúrat núna í heimsókn hjá einni af ríkustu konum Bandaríkjanna.  Þessi kona hefur fjármagnað mansalssjóð Equality now! og bauð til sín stjórninni og  okkur tíu fulltrúum samtakanna sem  hlotið hafa viðurkenningar sjóðsins.  Hér eru konur frá Indlandi, Perú, Zambíu, Lettlandi, Brasilíu, Kenýa og hún Guðrún litla frá Kóngsbakka.  Svo eru hér þekktir rithöfundar og kvikmyndagerðarkona ásamt  Gloríu Steinem.  Gloría kom á eftir okkur vegna þess að hún kom fram þennan dag í Ophera þættinum vegna  kosninganna.   Hálfóraunverulegt allt saman. 

Við höldum til heima hjá Bonnie og Jamie sambýliskonu hennar á sveitasetri sem  ég á engin orð til þess að lýsa.  Þær stöllurnar  reka Spa sem  okkur var  boðið í og ég þarf stöðugt að passa  að missa ekki hökuna niður  í bringu.  Einhverra hluta vegna get ég ekki sett inn myndir.

Hér var haldin sérstök sýning á kvikmyndinni Trade sem Equality now! tók þátt í að framleiða.  Um 300 -400 konur mættu á sýninguna og á eftir voru spurningar og svör sem Gloria stjórnaði.  Í pallborði sátum  við þrjár konur og vorum spurðar  spjörunum úr utan úr  sal.  Mín bara róleg og gekk held ég ágætlega. 

Allar héldum við erindi um ástandið í eigin löndum og  það var m.a. skrifuð ályktun um athyglisverða leið íslenskra stjórnvalda gegn klámiðnaði.  Leiðina sem felst í að loka búðunum með konur, nefnilega klámstöðunum.  Skorað var á ísl. stjórnvöld að klára verkið og afnema undanþáguákvæðið.

Ég kom til NY á kosningakvöldið og hitti svo stöllur mínar snemma daginn eftir.  Þær voru almennt æpandi af ánægju með úrslitin og ósofnar eftir kosningavökur.    Allar  ræddu þær  um  að sigurinn væri mun stærri en sem nemur þessum kosningum.   Þetta væri  sigur  grasrótarinnar og mannréttindahreyfinga.   Taina sem er  svört  sagðist vel muna  eftir því þegar hundum var  sigað á svart fólk í hennar  heimaríki og sagðist ekki hafa trúað því að hún myndi upplifa slíka uppreisn æru.  Það er augljóslega mikilvægara hvaða kynþætti kona er af en að vera kona.   

Legg af stað heim í dag í kæfuna og grjónagrautinn og hlakka bara til að hitta fólkið mitt og  komast á landið mitt sem er svoddan ógöngum.


Stolt af Ástu vinkonu minni í Íslandi í dag

1974 brúðkaup Guðrún og Tommi (16) Ásta Gunnars og Guðrún copyVið Ásta vorum saman í bekk og sátum saman frá  því  við vorum 11 ára og þar til við urðum stúdentar. Við höfum velkst í gegnum lífið saman og á milli okkar er leyniþráður.  Við höfum alltaf haldið sambandi og  það er í okkur  innbyggð klukka sem hringir þegar eitthvað er  að hjá  hinni og þegar svo önnur hringir, segir hin  gjarnan, skrýtið,  ég var  að  fara  að hringja. 

Ásta hefur háð  hetjulega baráttu við djöfullegt þunglyndi og haft betur. Hún er nú orðin svo sterk að hún  er farin að nýta  reynslu sína til þess að hvetja aðra í  svipuðum sporum og stappa í þau stálinu.  Í gær kom hún fram í Íslandi í dag og stóð sig eins og alltaf  eins og hetja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband