Á vit alþjóðasamfélagsins

IMG_0081Ég er  að fara til North Carolina á morgun  að hitta konurnar frá Equality Now! sem buðu mér  til Nepal í fyrra.  Við ætlum að ræða um mansalsmál og hvernig við best getum  stillt saman strengi.  Á myndinni sem tekin var í fyrra eru m.a. þær  Gloria Steinem og  Bonnie Scheifer ásamt Iluta vinkonu minni frá Lettlandi og ungum konum sem sögðu okkur ólýsanlega sögu sína.  Finnst að vandamál íslensks samfélags séu  ekkert miðað við það sem þær  eru að kljást við. 

Verð ein á hótelherbergi í New York annað kvöld á leiðinni á áfangastað og upplifi forsetakosningarnar í  guðs eigin landi.  Það verður væntanlega einkennileg upplifun. 

 


Gull og demantaleikurinn minn..........

Ég skrifaði um afleggjaraleikinn okkar  Tomma fyrir stuttu.  En ég á fleiri leiki sem e.t.v. gætu verið skemmtilegir  fyrir fleiri um þessar mundir og ég hef aldrei sagt frá.   Gull og  demantaleikurinn hljómar e.t.v eins  og að mig dreymi um veraldleg auðæfi.  Svo er samt ekki.  En þegar mikið gengur á í lífi mínu - og  það er oft - á  ég erfitt með  svefn.  Ég hef reynt ýmislegt til þess að sofna, m.a.  að telja hægt og  rólega sem mér finnst ótrúlega leiðinlegt.   Það dugar þó stundum en til þess að flikka upp á svæfinguna  leik ég mér að  því  að hanna  tölustafina. 

Stundum bý ég til í huganum útsaumaða tölustafi í ýmsum litum og með ýmsum saumaaðferðum.  Stórskemmtilegar og  fljótlegar hannyrðir. Þær einu sem ég  ástunda.  Stafirnir verða hver öðrum fallegri.  Stundum bý ég til tölustafi úr mismunandi villtum blómum.  Þá er  t.d. einn úr  sóleyjum á  fallegu engi, tveir gætu verið búnir til úr  sterkbleikum geldingahnappsbreiðum í svörtum sandi og þrír  úr holtasóleyjum í fallegum móa.  Ég stjórna því gjörsamlega hvernig blómin raða  sér og heillast alveg af fegurðinni. 

Í þessum svæfingaleik hef ég komist að því að ég er  potensial skartgripasmiður.  Ég get hannað svo fallega tölustafi úr gulli, silfri, kopar og hvítagulli að annað eins hefur ekki sést með  berum augum.  Ég  byrjaði þennan leik af mikilli hógværð, en áttaði mig svo á að ég mætti nota allar  þær  gersemar sem mér  detta í  hug.  Ég nota demanta, perlur og  eðalsteina að vild, en er samt hrifnust af hrafntinnu, silfurbergi opal og öðrum steinum sem eru e.t.v. ekki til í alvörunni.  Því miður get ég ekki birt myndir af listaverkunum, þær eru í einkasafninu mínu. 


Afleggjaraleikurinn og fleira ljúft.........

Fyrir helgi var ég með námskeið fyrir starfsfólk Jafnréttisstofu og kíkti í leiðinni við hjá kollegunum hjá Aflinu.  Ég er alltaf jafn ánægð með það þegar  mér tekst að sameina vinnu og einkalíf. Tommi fór með mér og við nutum menningar með Kristínu jafnréttisstýru.  Svo skruppum við í könnunarferð um  Eyjafjörðinn og fórum í afleggjaraleikinn.  Þ.e.a.s. við lékum okkur að því að kanna hvert hinir  og þessir afleggjarar myndu leiða okkur. Við fórum m.a. í Hauganes sem ég vissi varla að væri til, en reyndist myndarþorp. Veit ekki hvernig það hefur  farið gjörsamlega framhjá mér, eins  og það sé bara  nýkomið á  kortið.   Setti líka inn mynd af Hraundranga sem minnir  mig á fallegasta ástarljóð á Íslandi.

Að lokum nýjustu fréttir úr baráttunni við kreppuna.  Hef einhvern veginn  ákveðið að hafa vaðið fyrir  neðan mig. Hef misst allt traust á stjórnvöldum og veit ekki hvar ósköpin munu enda. Keypti því augnabrúnalit sem ég er ekki búin að setja á mig ennþá, en veitir ekki af við nýja svarta hárið. Fæ vonandi hjálp hjá samstarfskonum mínum elskulegum.  Svo keyptum  við hjónin lambaskrokk, nokkuð sem við höfum  ekki gert í tuttugu ár  og toppuðum sjálf okkur.............bjuggum til kæfu úr slögunum!  Hvað verður næst???????????IMG_1910IMG_1913IMG_1920IMG_1934


Undrahundurinn Freyja, góðir vinir og nýi kreppuliturinn

IMG_1905IMG_1898IMG_1899IMG_1901Bara svona  rétt að rapportera frá Hóli. 

Fyrst ber að nefna að vetrardagskrá Lipurtáa  er hafin okkur  öllum til  mikillar  ánægju held ég.  Veit ekki hvað er best, að hitta góða vini, fara  út að ganga eða borða góðan mat. 

Svo hefur verið gestagangur hjá okkur vegna  litlu hvolpastelpunnar sem réttilega fær endalausa athygli.  Gaman að fá gesti sem deila aðdáuninni með okkur.  Verð að segja  að  hún er algjör undrahundur.  Hún hefur þegar lært alveg að sitja og bíða og sækja og hún lætur  vita þegar hún vill fara út að þið vitið....  Svo hefur hún skilið það frá  fyrstu stund að hún megi ekki vera í eldhúsinu og bíður þolinmóð á parketinu á meðan við borðum.   Hún er  bara 8 vikna og það  fylgir því mikil ábyrgð að fylgja þessu eftir. Magga P og Diddi ásamt stelpunum þeirra Diljá og Möggu Finnu sátu hér  lengi á sunnudag og kenndu okkur heilmargt um hunda.  Pála, Snjólaug, Benni, Stefán Steinar og Gunnar  Egill dáðust að henni líka.  Kristín systir mætti með hundanammi og dót handa henni.  Get heldur  ekki annað en dáðst að Krissunni minni. Sýnist hún vera ótrúlega flink að ala hana upp.  Bara dásamlegt að hún skuli hafa látið nærri tuttugu  ára  gamlan draum rætast og sé nú orðin hundeigandi. 

Nú svo eru það nýjasta  krepputískan.  Skellti mér  á brúnleitan hárlit í Bónus og lét vaða í hárið á mér.  Fannst hann líklegur til þess að vera líkur  þeim  sem ég hafði áður en ég varð gráflekkótt. Það er skemmst frá því að segja að loksins er  ég  farin að líkjast henni mömmu. Er með næstum því blásvart hár og hrekk í kút þegar ég lít í spegil.  Það er verst að það stendur  á pakkanum að það megi ekki lita yfir  hann fyrr en eftir a.m.k. sjö daga.   Þetta er ljómandi tilbreyting og þýðir ekkert að vera að væla yfir svona smáatriðum í kreppunni


Meistari Aart er maður dagsins

Þetta var ósköp venjulegur  laugardagur.  Tommi fór og sótti Kristínu og Freyju snemma og það var stór stund þegar  hundurinn kom á Hólinn í fyrsta sinn.  Kettirnir hurfu eins og dögg fyrir sólu, vonandi sættast þau við hana.

Hundurinn er engu lík.  Hún svaf eins og engill alla fyrstu nóttina sína, sest eftir pöntun og sækir boltann sinn eins  og hún hafi aldrei gert annað. Ég minni á  að Freyja er 8 vikna!  Svo komu mamma og pabbi og svo Sóley með Önnu og Tomma og svo Margrét og stuttu síðar  Simmmi, Sindri og Katla.  Freyja var miðdepill athyglinnar  og Katlan mín hefur  þurft að berjast fyrir sínum sessi.  Í þessum  töluðu orðum er hún  að einmitt að segja við Kikkí sína sem mænir  á hundinn "Kikkí talaðu aðeins  við mig". 

Aart tengdasonur minn útskrifaðist sem meistari í alþjóðaviðskiptum frá HÍ í  dag. Foreldrar hans þau Mariann og Peter Schalk komu frá Hollandi og  Sóley eldaði dýrðlegan margra rétta útskrifarmat.  Hann Aart var ótrúlega duglegur að  klára  þetta nám með  fullri vinnu og fjölskyldu og stóð sig eins  og hetja. Held hann  hafi verið með 8.8 í aðaleinkunn!  Montin af  honum.  Hér fylgja nokkrar  myndir  frá deginum hans  Aarts.IMG_1875IMG_1880IMG_1881  IMG_1888


Myndir fyrir Þóru frænku í útlöndum!

Picture 024                 Picture 005Picture 026

Freyja fyrir Þóru frænku í útlöndum!


Ætli að við verðum vinkonur?

IMG_1802

Á morgun verður hún  sótt til mömmu sinnar.  Hvernig ætli þetta  gangi hjá okkur?  Hvernig skyldu kettirnir taka  henni? Og ætli að við verðum vinkonur? Sýnist hún Freyja bara vera yndislegt dýr.


Jarðaberjakökubakstur


Hvar eru mörkin?

Helsta verslunin sem við hjónin förum í þessa dagana er Bónus. Erum einhvern veginn innstillt á að fara betur út úr þessari kreppu en kreppunni 1982.   Við spásserum um búðina og  veltum fyrir okkur hvað væri nú skynsamlegt að gera.  Á mánudag stóð ég lengi fyrir framan hárlitunargræjurnar.  Ákvað nefnilega síðast þegar ég fór í klippingu að ég væri ekki til í að borga klippingu og litun fyrir meira en 15.000 kr. í kreppunni, svo ég lét ekki lita á mér hárið. 

Nú stend ég frammi fyrir því að ákveða hvort ég eigi bara að ganga um ólituð - alveg að komast í tísku hjá vinkonum mínum, nú eða að fara að lita sjálf. Hef reyndar ekki gert það síðan árið 1985 í síðustu kreppu svo ég man ekki hvernig það er gert.   Stóð og velti fyrir mér ýmsum litum, en var ekki  viss hvernig þetta myndi koma út.  Velti líka fyrir mér hvort ég ætti ekki að fara að læra að lita á mér augabrýrnar í stað þess að borga 2.900 kr. fyrir litun.

Mundi þá eftir því hvernig kona gat þekkt úr konur í alþjóðastarfi sem komu frá Rússlandi og öðrum "Austantjaldslöndum" á því að þær voru með ónýtt strýað hár sem hafði verið meðhöndlað heima með lélegu permanenti og ónýtum hárlit.   Getur verið að við íslenskar munum í framtíðinni þekkjast úr á sama hátt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband