Lífsmark með mér!

Best að skrifa eina færslu í stíl Dóru vinkonu minnar. Dóra skrifar um baráttu sína við köngulær og blaðbera.  Ég ætla að skrifa um kynjapólitíska baráttu mína við sundlaugastarfsfólk. 

Við Tommi erum búin að færa okkur úr gömlu Kópavogslauginni upp í Salalaug, en ég velti fyrir mér hvort það hafi verið rétt ákvörðun.  Á gamla staðnum var gert ráð fyrir því að a.m.k. 8 konur gætu baðað sig í einu og skáparnir voru a.m.k. 50. Eina klósettið í klefanum var oft bilað, þrátt fyrir að ég léti alltaf vita þegar það virkaði ekki.  Hárþurrkur voru þegar best lét 3 en gátu farið niður í eina.  Á álagstímum ríkti alltaf spenna í lofti yfir því hvort kona næði þurrku áður en hún yrði of sein í vinnunna.  Þá var gott að þekkja Sigríði Friðjónsdóttur saksóknara. Hún var ekkert að væla, heldur hafði með sér þurrku sem ég naut góðs af. Sigríður er enn í gömlu lauginni, en við Tommi ákváðum að elta betri aðstöðu í nýju lauginni.  Þar eru mun fleiri sturtur og skápar, laugin frábær og Nautilus með fínan sal. - En það er sama þurrkumenning.  Þurrkurnar voru þrjár í byrjun, það hefur verið ein um stund og í morgun var engin!  

Mín fram í afgreiðslu með rennandi blautt hárið og hálfklædd............. Þegar ég spurði um hárþurrku var mér sagt að þær væru ónýtar. Ég bað um að fá að tala við sundlaugarstjórann en hann var ekki við.  Ég bað um skilaboð og var vísað á kvörtunarbókina.  Stúlkan fann til bókina, leit á hana og sagði, nei annars hún er orðin full.  Ég er viss um að hún er full af athugasemdum um þurrkuleysið. Ég bað um hana samt og gat skrifað stutt skilaboð aftan á kápuna.  Hafði skrifað sams konar skilaboð í gömlu lauginni mörgum sinnum.  Finn bara hvernig adrenalínið spýtist um æðarnar þegar mér dettur þessi barátta mín í hug.   Er það ekki merkilegt að á tímum flottrar sundlaugamenningar skuli stjórn sundlauganna í Kópavogi vera í höndum karls sem ekki ber nokkurt skynbragð á, eða ber enga virðingu fyrir þörfum kvenna í sturtuklefunum. Urrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Já - er þetta ekki gott fyrir blóðþrýstinginn? Bara koma þessu frá sér. Tjá sig!

Halldóra Halldórsdóttir, 6.7.2007 kl. 17:12

2 Smámynd: Garún

Vigtin er líka biluð, búin að vera biluð í eitt ár.   Afgreiðslukonan hleypti mér ekki inní kvennaklefann síðast, trúði því hreinlega ekki að ég væri kona.  Ég renndi bara niður íþróttatreyjunni og sýndi henni DD systur.  Fékk að fara inn.  En þarna er sko ekkert lagað, en annars ágæt laug...

Garún, 6.7.2007 kl. 19:09

3 identicon

mikið er ég fegin að hafa ekki verið viðstödd. af öllum hlutum, datt þér ekkert gáfulegra í hug til að kvarta yfir þarna í sundlauginni?

ofboðslega góð þjónusta hjá þeim þarna, að láta SKRIFA NIÐUR KVÖRTUN??! 

þóra (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 02:24

4 Smámynd: Álfhóll

Þóra! Þú hefur aldrei verið mikið fyrir að vera með mér þegar ég ræði við fólk í mestu vinsemd um hvernig hlutirnir ættu að vera.  Sér í hælana á þér út úr búðum þegar ég opna munninn og má ekki á milli sjá hvert ykkar fjölskyldumeðlimanna er fljótast út þegar ég fer að spjalla. 

Þetta hefur þú og hinar systur þínar beint frá föður ykkar.  Síðasta atriðið var þegar við foreldrar þínir þvældum í okkur kekkjóttu gömlu pakkasúpunni sem okkur var sagt að væri löguð frá grunni á veitingastaðnum sem við vorum á. Því pabba þínum hefði þótt það svo mikil ókurteisi að þakka ekki bara fyrir matinn, rétt eins og við hefðum verið boðin í mat, eða okkur borgað fyrir að éta hann. 

Álfhóll, 7.7.2007 kl. 17:54

5 identicon

Ég efast ekki um að starfsfólk veitingarstaðarins hafi fengið að heyra skoðun þína á súpunni þrátt fyrir að pabbi hafi haldið þig frá því að gefa þig á tal við það!

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 00:29

6 Smámynd: Álfhóll

Nei dætur góðar, ég steinþagði, en fannst það lítil dyggð.  Mér líkar ekki að láta plata mig vísvitandi og láta það yfir mig ganga.

Álfhóll, 8.7.2007 kl. 20:58

7 identicon


Mig langar bara að benda á að hárþurrkur eru ekki lögbundinn fylgihlutur sundstaða. Miðað við viðbrögð þín og fyrirhöfn þá mætti halda að það hefði ekki verið vatn í lauginni....jeminn einasti.

Gulla (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband