Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Sumar á Álfhóli!

IMG_2583IMG_2580IMG_2579IMG_2584

Enn eitt heimilisstarfið og það skemmtilegasta!

1974 á Miðvangi Tommi og Guðrún (3) 1964 gamlárskvöld 9 Guðrún

Var að koma úr Hveragerði með Rósu mágkonu minni og við erum búnar að setja hér niður heilan bílfarm af sumarblómum.  Set hér inn nýjustu myndina af mér við hannyrðir - hlýt að vera að fitja upp. Og svo nýlega mynd af okkur hjónum við heimilisstörf.


Um heimilisstörf

Ég er ekki enn búin að jafna mig eftir að hafa séð sýninguna hennar Rögnu vinkonu minnar á Hvanneyri, (sjá fyrri færslur).  Hvílíkt lífsverk sem konan hefur unnið.  Það var alveg einstakt að það skyldi takast að safna saman svo miklu af mununum hennar sem hún hefur gefið  æði mörgum í gegnum tíðina. 

Fór að velta fyrir mér, þar sem ég er að sinna heimilisstörfum í dag, hversu marga glugga ég hafi þvegið um æfina - líklega ekki mjög marga. Eða hversu mikinn mat ég hafi eldað?  Sá einhvern tíma einhvers staðar að hver manneskja borðar að meðaltali um 150-200 tonn um ævina.  Ég hef eldað í 33 ár ofan í tvo - fimm, núna stundum ofan í miklu fleiri.  Væri gaman að sjá saman kominn allan þann mat sem ég hef eldað - áður en hann var meltur og honum skilað aftur.  Eða hversu marga diska ég hef þvegið?  Hef þvegið þá ansi marga, bæði í foreldrahúsum, á Húsafelli, í Kerlingarfjöllunum, á Halta hananum, heima hjá mér og víðar.   Hversu marga fermetra af gólfum skyldi ég hafa skúrað?  Vann við skúringar á námsárunum .....  Eða hversu mikið magn af þvotti skyldi ég hafa þvegið, aðeins yngsta dóttir mín fékk bréfbleiur? .........Heimilisstörf eiga það almennt sameiginlegt að þau eru ósýnileg nema þau séu ekki unnin.   Það er e.t.v. ein ástæða þess að þau hafa verið lítils metin í gegnum tíðina og ólaunuð.  Það er hollt að vinna þau sjaldan, þá sést svo vel hversu þörf þau eru.


Nú ætla ég að skrifa það sem ég hef ekki getað skrifað í u.þ.b. ár

Ég er búin að þvo hvern einasta glugga á heimilinu mínu sem ég næ til að utan og innan - og ég er búin að falda eldhúsgardínurnar mínar og er að þvo þær! ....................... og ég er búin að bera á garðhúsgögnin okkar!

Komin í sumarfrí !!!!!

1964 í Ljósheimum GuðrúnHjálpi mér þeir sem geti að standa við það að vera í fríi fram í miðjan ágúst.  Ætla mér virkilega að hvíla mig vel og vandlega og skilja á milli einkalífs og vinnu. Ekki mjög flink í því. 

 


Fleiri myndir frá Brynju systur minni

Ragna og sýningin 034Ragna og sýningin 007Ragna og sýningin 005Ragna og sýningin 073Ragna og sýningin 028Ragna og sýningin 020

Brot af ótrúlegu lífsverki verkakonu sem alltaf hefur unnið tvöfalda vinnu. 


Ótrúlegar konur

IMG_2577IMG_2574IMG_2575Hér kemur smáhugmynd um umfang handavinnunnar hennar Rögnu og mynd af Margréti systur minni og Rögnunni okkar.

Það má næstum ekki á milli sjá hvor þeirra er meiri kraftaverkakona.  Margrét sem keyrði sjálf dótið uppeftir í sendiferðabíl kl. 9 á föstudagskvöld, var að til 3 um nóttina og opnaði sýninguna kl. 13 daginn eftir eða Ragna sem hafði  framleitt þessi óskpöp! Það mættu rúmlega 700 manns á sýninguna sem stóð í 2x 4 klukkutíma.  Ótrúlegar  konur, sem ég er dálítið stolt af og þykir frekar vænt um.


Mögnuð sýning

Því miður gleymdi ég myndavélinni minni í dag hjá Kristínu systur og get ekki lýst með orðum upplifunum mínum í dag.  Hún Ragnheiður Sigurðardóttir eða Ragna eins og við köllum hana hefur fylgt fjölskyldu minni frá því löngu áður en ég fæddist.  Hún er mikil vinkona foreldra minna frá Kolstöðum í Hvítarsíðu sem er sveitin hans pabba.   Hún hefur sýnt okkur öllum og afkomendum okkar mikinn artarskap, vináttu og tryggð.  Ragna er orðin 85 ára gömul og ég veit ekki til að hún hafi vakið opinbera athygli.  Í dag hélt Margrét systir mín sýningu á handverkum hennar og leigði til þess leikfimisal uppi á Hvanneyri á Borgarfjarðarhátíðinni.   Mér fannst systir mín stórtæk að venju og enginn vissi hversu mikil handavinna var til eftir Rögnu, en af löngum kynnum við hana hlaut það að vera nokkuð, því ég man ekki eftir henni handavinnulausri, alla mína æfi.  Ég veit þó að hún heldur bókhald yfir vöggusettin og þau eru ef ég man rétt um 250.  Handbragðið er þvílíkt að bendlaböndin eru handfölduð.  Þó hún hafi lengst af unnið tvöfalda vinnu, á hún hvorki mann eða börn eða sjónvarp til þess að dreifa athyglinni eða taka tíma frá hannyrðunum.  Margrét lét orðið ganga til vina, ættingja og sveitunga, þó Ragna hafi flutt úr sveitinni fyrir meira en hálfri öld.  

Ég lét að sjálfsögðu á sýninguna það sem ég hef varðveitt af gjöfunum hennar.  Ég á meðal annars forláta sexhyrndan hnall með krosssaumsútfylltu loki.  Rögnu þótti ég ekki hafa farið vel með hnallinn sem ég fékk í fermingargjöf fyrir 39 árum, svo hún tók hann af mér  fyrir nokkrum árum og afhenti hann aftur með nýju áklæði og nýju útsaumuðu loki. Ég lét líka á sýninguna fallegan klukkustreng og útsaumaða mynd, ásamt vöggusetti. Ragna bróderaði í vöggusett handa öllum afkomendunum mínum fimm og heklaði utanmeð.   Því miður er ég búin að týna eitthvað af hekluðum dúkum frá henni, úsaumuðu puntuhandklæði og mörgu fleiru fallegu sem hún hefur gefið mér í gegnum árin. 

Ég veit um marga muni sem Ragna hefur gert og voru ekki á sýningunni. Bara í mínu nánasta umhverfi veit ég að Rósa mágkona á hnall og Sóley systir líka og ég veit að þeir eru orðnir allnokkrir hnallarnar sem hún er búin að sauma upp á nýtt.  Á sýningunni í dag taldi ég 50 hnalla, tvær útsaumaðar og fylltar rennibrautir, útfyllt og saumað borðstofusett, útsaumaða stofustóla, fleiri tugi klukkustrengja og annað eins af dúkum ásamt ótal öðrum hlutum.  Guði sé lof fyrir rimlana, það voru allir veggir þaktir.  Það var gaman að fylgjast með fólkinu sem mætti á sýninguna, hvernig það missti hökuna niður á maga yfir  ósköpunum.  Ókunnugar konur heyrðust spyrja hvort það væri Samband borgfirskra kvenna sem væri að sýna? Aðrar spurðu hvaða eiginlega hópur kvenna það væri sem ætti alla þessa handavinnu.  Það var enginn hópur, það var bara hún Ragna okkar. 

 Sýningin er opin í dag sunnudag frá kl. 13-17, mæli með bíltúr í Borgarfjörðinn og í gamla leikfimihúsið á staðnum. Gísli Einarsson tók viðtal við hana sem  vonandi verður sýnt í sjónvarpsfréttum í kvöld, sunnudag eða næstu daga.  


Eldklár stelpa

IMG_2385IMG_2494IMG_1180

Ömmur mega monta sig eins og þær vilja af barnabörnum sínum.  Hjartagullið mitt hringdi til mín áðan, var að fá einkunnirnar sínar og fékk A í öllu. Mamma hennar segir að hún hafi fengið frábærar umsagnir líka í öllum fögum og frá öllum kennurum.  Á eftir að ylja mér við að skoða þær.

Það má ýmislegt segja um einkunnir og stimpla á fólki, en þegar stimplarnir stemma við mitt mat og tilfinningu, finnast mér þeir sanngjarnir og góðir.  Annsan er einmitt núna stödd í dótabúð með Þóru að kaupa verðlaunadót.


Ábendingar vel þegnar

IMG_2570IMG_2571Svona  er staðan á Álfhóli núna. Bigginn í bænum og bræðurnir að skipuleggja Evrópureisu með frúnum sínum.  Við ætlum að fara niður Rínardalinn, í gegnum Alpana, niður á Ítalíu og meðfram Miðjarðarhafsströndinni og eitthvað fleira og stoppa í nokkra daga þar sem okkur líður vel.  Allar ábendingar um  skemmtilega staði, góðar bílaleigur, persónulegar heimagistingar á óvenjulegum stöðum, spennandi matargerð, óvenjulega siglingu og góða naglasnyrtingu eru vel þegnar. 

Undirbúningsnefndin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband